29.04.1932
Efri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í C-deild Alþingistíðinda. (11406)

512. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Ég þarf ekki mörgu að svara hv. 1. þm. Reykv. Hann játaði, að hann væri ekki að öllu leyti á móti stefnu frv., en virtist hinsvegar telja, að það væru gallar á fyrirkomulagi frv. Hann talaði um það, að hann eða einhver annar hefði rekið sig á það, að skattstiginn sé eitthvað gallaður. Ég skal ekki fortaka, að þetta geti ekki verið, en ég hygg, að betri gagnrýningu þurfi heldur en kom fram í ræðu hv. þm. til þess að finna þá galla. Hann nefndi eitt dæmi, þar sem skattur verður mestur samkv. þessu frv., en það hefir reiknazt að vera 37% af hreinum tekjum; sem skatturinn yrði, að viðbættu útsvari 80% af tekjunum. Ég skal ekkert um það segja, hvort þetta er rétt áætlað, en ef það er rétt, þá þarf að finna, á hve háum tekjum þetta er, hvort það er kannske á 50 þús. kr. tekjum. En ég vil nú bara segja það, að ef á að skera til blóðs og það þarf að skera til blóðs —, þá verður að gera það þar, sem einhverra tekna er að vænta. Það er vitað mál, að skattar og tollar á atvinnuvegunum eru ekki óverulegur hluti af tekjuhalla atvinnuveganna síðastliðin ár. Ég hefi hér fyrir mér reikninga yfir rekstur eins lítils fyrirtækis síðustu ár; það er vélbátur 10 smál. að stærð. Skattar og tollar, sem af þessum atvinnurekstri hafa verið greiddir til ríkissjóðs, hafa verið frá 13 til 15 hundruð kr. á ári. Það er dálítið fróðlegt að kynnast því, hvernig þessir reikningar líta út, og ég ætla því, hv. dm. til glöggvunar, að lesa upp tölur, er sýna skatta og rekstrarútkomu 2 árin, sem reikningarnir ná yfir. Annað árið er tap á útgerðinni, hitt árið hagur. Fyrra árið, þegar hagur var á útgerðinni að upphæð 3 þús. kr., greiddi félagið í skatta og tolla 1500 kr., eða m. ö.. o. ca. 33% af gróðanum, en síðara árið, sem var síðastl. ár, greiddi báturinn 1300 kr. í skatta og tolla, en þá var 3600 kr. halli á rekstrinum. M. ö. o. fjórði partur rekstrarhallans voru gjöld til ríkissjóðs. Er nú þetta réttlát skattamálastefna? Og hver verður afleiðing hennar, ef atvinnufyrirtækin halda áfram að vera rekin með halla. Ég fæ ekki betur séð en að hallinn hljóti að lenda á lánardrottnunum að því leyti, sem eigendur fyrirtækjanna þola hann ekki. Ég held, ef það mál væri rannsakað, hverja skatta og tolla einstaklingar og fyrirtæki þurfa að greiða í samræmi við tekjur sínar, að þá verði sízt færri þau dæmi, sem sýna, að tollar koma ranglátlegar á borgarana heldur en beinir skattar.

Ég sé ekki ástæðu til að svara öllu frekar ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hann heldur því fram nú eins og jafnan, að skattalögin séu hvergi framkvæmd nema í Reykjavík. Ég tel það nú utan við minn verkahring að svara þessum órökstuddu staðhæfingum hv. þm. Ég tel mig ekki hafa kunnugleika til þess að dæma um þessi mál, en ég vil ekki leggja trúnað á slíkar sögusagnir sem þessar. Ég ber ekki á móti því, að meiri hl. skatta ríkissjóðs er greiddur af Reykvíkingum, en þó veit ég af mönnum úti um land, sem greiða háa skatta og einmitt þetta frv. hittir. Annars sé ég ekkert, sem réttlætir þá mótbáru gegn frv., að það hitti Reykvíkinga, ef frv. er réttlátt. Þeir Reykvíkingar, sem frv. hittir, taka margir laun hjá því opinbera á einn og annan hátt.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki ástæða til að leggja nýja skatta á þjóðina, en eftir útlitinu um rekstrarafkomu þjóðarbúsins virðist mér nú allt annað. Það má vera, að eitthvert annað ráð megi finna til að bæta afkomuna, en það hefir bara ekki verið á það bent, hvorki af hv. þm. eða nokkrum öðrum í hans flokki. Það eru engin ráð eða svör í þessu máli að benda á það, sem búið er að eyða. Það eru engin ráð að segja við hungraðan mann: Þú getur etið það, sem þú eyddir í fyrra. Það eru ekki svör, sem gilda. Ég held, að það hafi a. m. k. ekki legið fyrir nein úrlausn í þessu efni önnur en sú, að fá ríkissjóði einhvern tekjuauka, og ef hann fæst ekki, þá séu ekki önnur ráð fyrir ríkið en að taka lán, ef það fæst. En fáist það ekki, þá ætla ég ekki að fara að lýsa afleiðingunum. Það má gera ráð fyrir því, að þær afleiðingar komi ekki síður niður á Reykvíkingum en öðrum, þó skattarnir komi að miklu leyti úr Reykjavík.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ekki væri rétt að taka þetta kall til greina, því það kæmi aðeins frá 1/3 þjóðarinnar. Ég tel nú, hvað sem þessu liður, að öllum flokkum sé skylt að vinna að því að finna úrlausn þessa vandamáls. Það getur verið réttmætt að gera upp þær sakir á köflum, hve mikið fylgi hver flokkur hefir í landinu, en það er beinlínis fávíslegt að játa allt drukkna í þrætum um það. Annars var ræða hv. þm. hófleg. Ég tel ekki, að hann hafi tekið illa stefnu frv., þó hann vildi ekki ljá því fylgi. Hann viðurkenndi bæði beinlínis og óbeinlínis stefnu frv. og að skattalögunum þyrfti að breyta. Höfuðmisskilningurinn hjá honum var sá, að frv. hlyti að stranda vegna hins pólitíska viðhorfs, sem nú er.