29.04.1932
Efri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í C-deild Alþingistíðinda. (11408)

512. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Ég þarf ekki að svara hv. 1. landsk. miklu. Ég kannast við það, þó að það sé heldur óvanalegt hjá karlmönnum, þá hefi ég þó orðið var við þann veikleika hjá konum, sem kallað er „hysteri“. Það ber nokkuð mikið á því hjá hv. 1. landsk., að hann skýri d. frá, hvernig standi á flutningi þessa frv. Ég ætla að láta d. um, hve mikið hún leggur upp úr orðum þessa hv. þm., en ég tel þau ekki mikils virði og sprottin af nefndum veikleika. Og ég get sagt hv. þm. það, að þótt hann telji okkur flm. þessa frv. ekki kjarkmikla, þá veit ég satt að segja ekki, hjá hvorum kjarkurinn bilar fyrr; a. m. k. hygg ég, að ekki sé hægt að minna á marga aftursnúninga hjá okkur, hv. 2. þm. N.-M. og mér, en ef til vill mætti þó minna á einn eða tvo hjá hv. 1. landsk. Og þótt við flm. séum orðnir nokkuð gamlir, þá býst ég við, að við stæðum réttir fyrir, þótt hv. l. landsk. kæmi á móti. Að þessu undanteknu komu nú ekki margar firrur fram í ræðu hv. þm. Hann talaði um, að hér væri um að ræða refsiskatt á Reykjavík. Hv. þm. virðist hafa mikla tilhneigingu til að nota hvert tækifæri til þess að saka okkur þm. utan af landi um griðleysi gagnvart Reykjavík. Ég skal ekki segja um það, á hverju hann byggir þessar ýfingar, en þau litlu afskipti, sem við höfum haft af málum Reykjavíkur, held ég að hafi a. m. k. verið á sanngirni byggð og ekki sé hægt að benda á mörg nauðsynjamál Reykjavíkur, sem við höfum staðið á móti. En ég verð að segja það, að ég tel, að menn, sem sífellt hrópa á réttlæti, eigi að gjalda varhuga við að nota hvert tækifæri, sem gefst, til þess að benda á, að nú sé einhver framsóknarþingmaðurinn að ráðast á Reykjavík. Mér finnst þetta fara heldur illa í munni þess, sem alltaf hrópar á réttlæti. Ég verð að ráðleggja þessum hv. þm. að fara nú að eins og Pílatus forðum. Pílatus spurði: Hvað er sannleikur? Hv. þm. hefði áreiðanlega gott af að spyrja í einlægni: Hvað er réttlæti?