15.02.1932
Sameinað þing: 1. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (11412)

Minning Björns Líndal

Minning Björns Líndals. Aldursforseti (Svb):

Við þingsetningu hverju sinni og áður en þingstörf hefjast þykir hlýða að geta látinna þingmanna frá næstu þingsetningu á undan.

Nú hefir svo til borið frá því síðasta þingi lauk, að til grafar er genginn einn af fyrrverandi alþingismönnum, Björn Jóhannesson Líndal, lögmaður og bóndi á Svalbarði. Hann lézt 14. des. næstl., aðeins rösklega 55 ára að aldri, og má því segja, að hann væri til brottfarar kvaddur á þroskaskeiði æinnar.

Björn var fæddur á Sporði í Línakradal 5. júni 1876 og dvaldi þar og í nærsveitum með foreldrum sínum æskuárin, en réðist að heiman til náms um tvítugsaldur. Tók hann stúdentspróf frá Rvíkurskóla 1901, en lauk embættisprófi í lögum við Hafnarháskóla 1907.

Að loknu prófi leitaði hann heim af nýju, fluttist til Akureyrar og hóf þar málafærslustörf, sem hann öðrum þræði sinnti um 11 ár. Hann var um eitt skeið ritstjóri „Norðra“ á Akureyri og 1908 var hann settur aukalögreglustjóri á Siglufirði; en samhliða fyrrnefndum störfum hafði hann ýms búnaðar- og atvinnufyrirtæki með höndum, enda var hann alla æfi meðal áhrifamestu athafnamanna.

1918 keypti Björn höfuðbólið Svalbarð á Svalbarðsströnd og settist þar að búi, sem hann síðan rak þar til æfiloka með miklum skörungsskap.

Ýms trúnaðarstörf hafði Björn á hendi í þarfir sveitar og sýslu hin síðari æfiár, og 1928 var hann skipaður í útflutningsnefnd Síldareinkasölunnar.

1923 var Björn Líndal kosinn þingmaður Akureyrar og sat á þingunum 1924–27.

Hér er ekki staður eða tími til að meta eða vega störf Bjarnar í þarfir lands og þjóðar, en tvímælalaust var hann sakir hæfileika, áhuga og atorku, í mörgum efnum brautryðjandi samtíðar sinnar.

Vænti ég, að hv. þm. votti minningu þessa látna bróður virðingu með pví að risa úr sætum.

[Allir þm. stóðu upp úr sætum sínum].

Að þessu loknu lýsti aldursforseti yfir því, að þar sem nokkrir þingmenn vaeru ókomnir til þings, yrði störfum þessa fundar frestað til næsta dags, kl. 1 miðdegis.

Þriðjudaginn 16. febr., kl. 1 miðdegis, var fundinum fram haldið. Voru þá komnir þeir átta þm., sem ókomnir voru við þingsetningu, og voru þm. allir á fundi.