12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (11440)

Afgreiðsla þingmála

Lárus Helgason:

Hv. 3. þm. Reykv. drap á það, að ekki líti út fyrir, að vel hefði tekizt að skipa n. þingsins. Vildi ég út frá þessu benda honum á það, að honum og hans samherjum hefði verið nær að koma með þeirra „miklu og góðu“ krafta í n. heldur en að sitja auðum höndum meðan þær starfa, sem þessi hv. þm. kaus þó fremur, annaðhvort af léti eða þá af einhverjum firrum a. m. k. Það er náttúrlega hægt fyrir þá, sem sjálfir standa utan við og ekkert vilja gera til að hjálpa til, að ráðast á hina, sem verkin vinna, fyrir það, að ekkert gangi. Það virðist og vera vinnuaðferð flokks hv. 3. þm. Reykv. að hefja deilur á aðra og heimta allt af þeim, en vilja minna leggja fram frá sjálfum sér, til þess að fólkinu, sem þeir þykjast bera fyrir brjósti, líði vel, og er þó á þeim að heyra, þessum hv. þm., að ef þeir fái að ráða, verði allt gott. Það mætti því halda, að geta þessara hv. þm. væri ekki vel í samræmi við allt það, sem þeir þykjast geta gert. A. m. k. vill það verða helzt til langdregið, að þeir sýni þessa miklu hæfileika sína, enda ætla ég það sanni næst, að þeir séu mestir í munninum.

Það verður ekki á mig borið, að ég tefji framgang mála hér í þinginu með miklum ræðuhöldum, en ég vil benda hv. þdm. á það, að þingstörfin mundu vinnast betur, ef þm. takmörkuðu sig meir í ræðum sínum, og þykir mér hæstv. forseti um of eftirlátur við þm. í þessum efnum, því að margar aths., sem hann leyfir þm. að gera, eru lengri en meðalræða, en það er sízt þörf á því að gefa þeim þm., sem oftast tala, kost á að tala umfram það, sem þingsköp heimila.