22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (11451)

Afgreiðsla þingmála

Forseti (JörB):

Ég hefi ekki verið með neinn samanburð um störf n. á þessu þingi og öðrum. Og ásakanir mínar í garð n. voru ekki stórvægilegar. Hv. dm. hafa heyrt, að þm. eru að kalla eftir málum, sem liggja hjá n., og kalla eftir því, að ég ýti á n. með afgreiðslu þeirra, svo að mín ósk til n., fyrst þetta er nú gert að umtalsefni, er stj, að þær afgr. málin, svo að því verði eigi um kennt, að þau hafi ekki verið afgr. í n., þótt þau dagi uppi á þinginu. Annars voru ásökunarorð mín ekki svo stórvægileg, að menn þyrftu að þykkjast við þau. Hinsvegar er þm. sjálfsagt ljóst, að það er ekki á mínu valdi að ráða því, hve lengi menn ræða málin. Það hafa þdm. algerlega á sínu valdi. Og ég hefi tekið svo mörg mál á dagskrá fyrst og fremst til að gefa þm. til kynna, hve mikill fjöldi mála er óafgr., og ég hélt, að það mætti verða þeim nokkur bending um að takmarka ræður sínar, svo að málin fengju afgreiðslu. Ef hv. þdm. þykja fundir standa of stutt, þá er frá minni hálfu auðvelt að ráða bót á því. Ég skal hér eftir ekki spara að gefa þdm. kost á að eiga lengri fundasetur, en ég vona, að þeir spari mér það ómak að þurfa að karpa um það, hvað fundir eigi að standa lengi. Ég vona, að þar sem hv. þdm. gengur gott eitt til að fá málin afgr., þá geri þeir hver um sig það bezta til þess að það megi verða.