23.05.1932
Neðri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2395 í B-deild Alþingistíðinda. (11461)

Afgreiðsla þingmála

Forseti (JörB):

Hv. þm. Mýr. kvartaði undan því, að forseti hefði eigi tekið á dagskrá tvö mál, sem hann tilnefndi. Um annað þessara mála, ölfrv., vil ég upplýsa það, að þegar það var tekið hér til 1. umr., þá virtist mér því svo fálega tekið, að jafnvel hv. flm. hafi fallið allur ketill í eld. Hv. þm. Mýr. segir, að hann hafi síðar orðað það við mig, að málið yrði tekið á dagskrá. Skal ég engar brigður bera á, að það sé satt, en þó minnist ég þess ekki. Má þó vera, að hann hafi minnzt fljótlega á það við mig, en ég gleymt því. En svo mikið er víst, að eftir það hefir hvorki hann né nokkur annar hv. flm. minnzt á, að þetta mál væri tekið á dagskrá. En ef tóm gefst til, mun ég reyna að taka þetta mál á dagskrá fyrir þá, til að lofa þeim að þreyta þar um.

Um hitt málið, breyt. á jarðræktarl., skal ég upplýsa það, að það er tiltölulega stutt síðan það mál kom úr n. Nál. er dagsett 7. þ. m., og mörg þau mál, sem löngu fyrr hafa komið úr n., hafa hér verið tekin á dagskrá aftur og aftur. Get ég þar tilnefnt 2 mál; annað er frv. um verðhækkunarskatt, nál. dags. 12. f. m., hitt er frv. um hjáleiguskatt, nál. dags. 13. apríl. Þessi mál hafa verið tekin á dagskrá aftur og aftur, en sökum þess, hve mörg mál hafa verið á dagskrá, einkum þegar fór að líða á þingið, hefir ekki unnizt tími til að afgr. þessi mál, sem ég nefndi, og svipað er um mörg önnur mál að segja.

Þá vil ég og geta þess, að þegar nál. um breyt. á jarðræktarl. var gefið út, var aðeins ein vika til hvítasunnu, og var þá tilætlunin að ljúka þingi fyrir hátíðina, og var þá mesti fjöldi mála, sem heimtað var, að væru tekin fyrir þá þegar.

Það má vera, að hv. þm. Mýr. vilji telja, að fundir hafi ekki verið haldnir nógu lengi á degi hverjum. Þar til er því að svara, að ýmsir hv. þm. hafa kvartað undan því, og það með réttu, að þeir hefðu lítinn tíma til nefndarstarfa, ef þingfundir stæðu lengi yfir. Málin hefðu því ekki fremur gengið fram, þó að þingfundir hefðu staðið fram á nótt, því að þá hefðu hv. þm. því síður verið vinnufærir til, nefndarstarfa. Ég get líka bætt því við, að þegar þingfundir hafa staðið lengi yfir, hefir oft verið nokkuð þunnskipað á þingbekkjunum.

Ég vil þó að endingu heita hv. þm. Mýr. því, að þetta mál, sem hann talar um, breyt. á jarðræktarlögum, verði nú fljótlega tekið á dagskrá, svo að hann geti þá neytt aðstöðu sinnar til að koma því lengra áleiðis. Hinu vil ég algerlega mótmæla, sem hv. þm. sagði, að ég hafi á nokkurn hátt notað aðstöðu mína til að tefja framgang þessara mála.