29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (11478)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Vilmundur Jónsson:

Ég er fús til að gefa nokkrar upplýsingar í þessu máli. Lokun rannsóknarstofunnar er sprottin af lítilsháttar ágreiningi milli forstöðumanns hennar og ríkisstj. Ágreiningurinn er bæði um fyrirkomulag stofunnar og launakjör forstöðumannsins. Það hefir ekki ennþá tekizt, þrátt fyrir viðleitni mína, að ljúka þessari deilu. Ég tel mér skylt að skýra frá því, að það er ekki eingöngu stj. að kenna. Það er ekki síður sök háskólans, er hingað til hefir kostað stofuna að nokkru leyti, en neitar nú að leggja fram nokkurn eyri til hennar. Þó er nú svo komið, að ég, hefi engu síður fengið heimild stj. til að semja við forstöðumanninn; höfum við mælt okkur mót kl. 4 í dag, og vona ég, að málið verði þá farsællega til lykta leitt.

Hvað viðvíkur sótt þeirri, sem hér er komin upp og hv. þm. minntist á, get ég upplýst, að hún verður viðstöðulaust rannsökuð, hvað sem þessu máli líður. Ég hefi samið við forstöðumann rannsóknarstofunnar um, að hann sem prívatmaður annist nauðsynlegar rannsóknir, og verður kostnaðurinn greiddur af sóttvarnarfé, sem ég sem landlæknir hefi umráð yfir.