27.05.1932
Neðri deild: 85. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (11487)

Stjórnarskipti

Tilkynning frá forsætisráðherra:

Síðastl. föstudag, þá er verðtollsfrumvarpið, önnur nauðsynleg skattafrumvörp og sparnaðarfrumvarpið voru á dag skrá efri deildar, var því yfir lýst afdráttarlaust af formanni Sjálfstæðisflokksins, að þingmenn flokksins í deildinni mundu greiða atkv. móti þessum frumvörpum, nema því aðeins, að fyrir lægi sú lausn á kjördæmamálinu, sem Sjálfstæðisflokkurinn teldi við unandi. Hann lýsti því ennfremur yfir, að aðstaða flokksins yrði hin sama gagnvart fjárlagafrv. fyrir komandi ár. Þingmaður Alýðuflokksins í efri deild lýsti því og yfir afdráttarlaust, að hann mundi greiða atkv. gegn nefndum frumvörpum og fjárlögunum. Þar eð sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn til samans ráða yfir réttum helmingi atkv. í efri deild, lá það þannig fyrir að þessu sinni, að skattafrumvörpin og sparnaðarfrumvarpið yrðu felld, ef til atkvgr. kæmi. Frestaði þá forseti atkvgr. samkvæmt ósk minni.

Síðan hafa verið gerðar mjög ýtarlegar tilraunir til að fá þá lausn á kjördæmamálinu, sem flokkarnir gætu orðið ásáttir um. Af hálfu beggja aðilja hefir komið fram vilji um að leysa málið. Eigi að síður hafa samningatilraunir ekki borið fullnægjandi árangur og ég tel fullreynt, að lausn málsins fáist ekki við mína forystu. Liggur það því fyrir, að núv. stjórn er þess ómáttug að fá þá afgreiðslu mála á Alþingi, sem gerir henni mögulegt að reka þjóðarbúið eins og þörfin krefur nú. Eru nú tveir kostir fyrir hendi:

Annar er sá, að láta hart mæta hörðu. Láta fram koma í verki það, sem nú liggja fyrir yfirlýsingar um. Skattafrumvörpin, sem nauðsynleg eru til rekstrar þóðarbúsins, sparnaðarfrumvarpið og fjárlögin yrðu þá felld með atkvæðum þingmanna sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna. Í efri deild. Því næst yrði borin fram till. um þingrof og stofnað til nýrra kosninga þegar.

Þennan kostinn mun ég ekki taka. Ber til þess margt, en einkum það þrennt, sem nú verður talið:

1. Ég tel, að íslenzku þjóðinni stafaði af því mikil hætta út á við, einkum nú, ef frá henni bærust nú þær fregnir, að felld hefðu verið í þinglokin nauðsynleg skattafrumvörp, sparnaðarráðstafanir og fjárlög. Ég hygg, að slík auglýsing um sundrung meðal Íslendinga á hinum allra alvarlegustu tímum mundi hafa í för með sér mikinn álitshnekki fyrir þjóð vora. Um viðskipti ríkissjóðs í öðrum löndum, peningastofnananna og fyrirtækja einstaklinga og félaga hygg ég, að slík tíðindi af Íslandi gætu, eins og nú á stendur, haft mjög alvarleg áhrif.

2. Þá er annars meiri þörf nú en að kasta þjóðinni út í harðsnúna baráttu inn á við um hið allra viðkvæmasta mál — væri þess nokkur kostur að fá hinu heldur til vegar komið að sameina þjóðina til varnar gegn hinni ægilegu kreppu.

3. Loks má geta þess, að ég tel það með öllu fyrirfram vitað, að eftir nýjar kosningar væri aðstaðan á Alþingi öldungis hin sama og nú er um aðalatriðið. Framsóknarflokkurinn getur ekki unnið svo mikið á við kosningarnar, að hann geti náð meiri hluta í efri deild, eins og háttað er kosningu til hennar. Jafnvíst er hitt, að Sjálfstæðisflokkurinn og jafnaðarmannaflokkurinn geta ekki unnið svo mikið á við kosningar nú, að þeir geti komið fram vilja sínum í kjördæmaskipunarmálinu gegn vilja Framsóknarflokksins.

Nýjar kosningar nú mundu því engan veginn nálægja lausn vandamálanna. Eftir að þjóðin hefði beðið mikið tjón og álitshnekki út á við og hörð og íllvíg barátta farið fram innanlands, stæðum við alþingismenn fyrirsjáanlega aftur í hinum sömu sporum um að leysa mál alþjóðar.

Ég verð því að telja það gagnstætt þörf þjóðarheildarinnar að láta nú hart mæta hörðu og ganga til nýrra kosninga án lausnar á kjördæmamálinu.

Þar sem ég hinsvegar tel, að líkur geti verið til, að fengizt gæti til annar, sem gæti náð samkomulagi um einhverja þá lausn málanna, sem gerði mögulegt það samstarf á Alþingi, sem nauðsynlegt er, til þess að geta rekið þjóðarbúið á þessum erfiðu tímum og varið og stutt atvinnulífið í landinu, eftir því sem föng eru frekast til, þá tel ég mér skylt að víkja sæti úr því embætti, sem ég nú hefi gegnt um hríð, til þess að til þrautar yrði reynt, undir forustu annars, að fá þá lausn fjármálanna, sem alþjóðarheill krefst.

Þess vegna hefi ég tekið upp hinn kostinn, með einróma samþykki Framsóknarflokksins. Ég hefi símað konungi lausnarbeiðni fyrir mig og ráðuneytið og vænti svars um hæl við þeirri beiðni.

Um leið og ég tilkynni þingheimi þetta, vil ég beina þeirri áskorun til okkar allra þingmanna, að við berum nú gæfu til, hvað sem líður því, sem virðast hagsmunir einstakra flokka í bili, að snúast til eins samþykkis um þær ráðstafanir, sem þjóðarheildin nú getur ekki án verið. Til þess vil ég leggja fram mína krafta, eftir því sem þeir hrökkva til.

Tryggvi Þórhallsson“ (sign.).

Á 92. fundi í Nd., 3. júní, utan dagskrár, mælti