04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (11491)

Stjórnarskipti

Jón Baldvinsson:

Ég stend upp til þess að tala við hina nýskipuðu ríkisstj. Get ég þá fyrst tekið það fram, að við Alþýðuflokksmenn erum í fullkominni andstöðu við hana. Jafnframt vildi ég spyrja hæstv. forsrh., á hvern hátt hann hyggst að leysa stærsta málið, sem legið hefir fyrir undanförnum þingum, sem sé stjórnarskrár- og kjördæmaskipunarmálið. Í ræðu þeirri, sem hann hefir nú flutt og að sjálfsögðu á að teljast „prógramræða“ hins nýja ráðuneytis, fór hann ekkert út í það í einstökum atriðum, hvernig þetta jafnréttismál íslenzkra þegna skuli leyst. Ég þarf ekki að fara út í það nú, hvað herfilega ranglátt, núv. kjördæmaskipulag er. En ég óska að fá að heyra frá hæstv. stj., í hvaða formi hún hugsar sér að leysa það mál. Hæstv. forsrh. sagði, að hann teldi sér skylt að leggja frv. um sanngjarna breyt. á stjórnarskránni fyrir næsta þing. En nú er svo högum háttað, eins og hæstv. ráðh. einnig minntist á, að þingið er þannig saman sett, að tveir flokkarnir saman, Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn, hafa neitunarvald í annari deildinni, en hinsvegar hefir Framsóknarflokkurinn sterkan meiri hl. í annari deildinni, en neitunarvald í hinni. Þess vegna er það, að þó hæstv. forsrh. leggi fram frv., sem felur í sér sanngjarna lausn á kjördæmaskipunarmálinu, þá er ekki þar með sagt, að það nái samþykki þingsins. En á það hefir verið og mun verða lögð mikil áherzla af Alýðuflokknum, að tryggt verði jafnrétti kjósendanna til þess að hafa áhrif á skipun Alþingis, hvar sem þeir búa á landinu.

Þó hæstv. ráðh. tali um, að hann ætli að leggja fram frv. á næsta þingi um „sanngjarna“ lausn á kjördæmamálinu, er allt óskýrt um, hvernig það frv. verður og hvort hann fær sína flokksmenn til að fallast á það. Hverju eigum við þm. að svara kjósendunum, þegar þeir spyrja, á hvern hátt eigi að leysa kjördæmamálið? Hvað telur hæstv. forsrh. sanngjarna lausn á því? ég dreg að vísu ekki í efa, að það sé rétt, sem hv. form. Sjálfstæðisflokksins hefir sagt og vikið hefir verið að í blaðagreinum nýlega, að hæstv. forsrh. geti sjálfur fallizt á þá lausn kjördæmamálsins, sem hinir flokkarnir geta við unað. En það er nú svo, að hæstv. forsrh. á þingmannsatkv. í hv. Nd., og þar hefir hans flokkur meiri hl. atkv. þó hann gengi frá. Það er því engin trygging fyrir því, að sanngjörn lausn málsins nái samþykki þingsins eins og það nú er skipað, þó fram komi, nema því aðeins, að hæstv. forsrh. geti lofað fylgi síns flokks eða hluta af honum. En mér er sagt, að í yfirlýsingu frá Framsóknarflokknum, sem lesin var upp í útvarpið í gærkvöldi, felist allt annað en það, að hann sé fúsari til samkomulags í þessu máli en verið hefir. Sýnist mér því, að sá frestur, sem tekinn hefir verið í kjördæmaskipunarmálinu nú, muni koma að litlu gagni. Taki Sjálfstæðisflokkurinn upp baráttu fyrir því í þriðja sinn á næsta þingi, með því að látast ætla að stöðva fjárlög og tekjuauka, sem þá kann að verða farið fram á handa ríkissjóði, þá standa sakirnar nákvæmlega eins og á þessu þingi. Það getur þurft margar kosningar til þess að koma málinu fram, ef sjálfstæðismenn fallast þá ekki á það á síðustu stundu að skjóta því á frest ennþá eitt ár. En ég tel það mjög illa farið, hvert ár sem líður án þess að bætt sé úr því herfilega ranglæti, sem meiri hl. þjóðarinnar á við að búa með núv. skipun Alþ. Þess vegna óska ég eftir skýrum svörum frá hæstv. forsrh. um það, hvaða möguleikar eru fyrir sanngjarnri lausn kjördæmamálsins á næsta þingi. Við skulum segja, að hæstv. ráðh. hugsi sér það sanngjarna lausn á málinu, að við hana sé hægt að sætta sig. En hvaða tryggingu vill hann þá veita þeim yfir 20 þús. kjósendum, sem hafa krafizt breyt. á kjördæmaskipuninni, fyrir því, að hún verði samþ. af hans flokki?

Þá vil ég víkja að öðru, sem hæstv. ráðh. kom lítillega að í ræðu sinni. Er það viðvíkjandi því ástandi, sem nú er í landinu.

Það mun öllum koma saman um það, að horfurnar um atvinnu og afkomu í landinu hafa sjaldan verið dekkri en nú. Atvinnufyrirtækin draga saman seglin eða hætta, og líkur eru til, að meira atvinnuleysi verði nú um hábjargræðstímann heldur en verið hefir mest að vetrinum. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh., hvað hans stj. hugsar sér að gera til þess að bæta úr þessu voðaástandi. Ég geri ráð fyrir, að hann sé viðbúinn að svara þessu, því að þó hans ráðuneyti hafi nú alveg nýskeð tekið sæti, hlýtur hann að hafa hugsað mikið um þetta mál áður, þar sem hann var einnig í fráfarandi ráðuneyti, þó hann að vísu hefði þar ekki á hendi framkvæmd atvinnumálanna.

Ég vil benda á það, að líkur eru til, að heilar atvinnugreinar geti stöðvazt að miklu leyti. því miður lítur út fyrir, að það verði svo erfitt með sölu síldar, að sama og ekkert verður gert út á síldveiðar. Þá kemur allur sá fjöldi, sem við síldarútveginn hefir haft atvinnu á undanförnum sumrum, í atvinnuleysingjahópinn.

Þriðja málið vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. um, gengismálið. Það er kunnugt, að íslenzka krónan hefir nú um nokkuð langt skeið fylgt sterlingspundinu, og þegar það féll í verði á síðastl. hausti, lækkaði krónan að sama skapi. nú hefir komið upp orðrómur um það, að lækka íslenzku krónuna enn. Það er sérstök nefnd, sem hefir gjaldeyrismálin með höndum hér á landi, og ætla ég, að hæstv. forsrh. eigi sjálfur sæti í henni. Síðustu dagana hefir heyrzt, að hjá einhverjum mönnum hér sé uppi hugmynd um það, að lækka beri verðgildi krónunnar. Ef einhverjar slíkar fyrirætlanir eru á döfinni, teldi ég viðeigandi, að hæstv. stj. skýri þingmönnum frá því nú, þegar þeir eru á förum heim til kjósenda sinna. Ég vil spyrja um þetta mál því fremur sem vitanlegt er, að helztu stuðningsmenn hinnar nýju samsteypustjórnar í báðum flokkum hennar eru þeir hv. þm. Str. og hv. þm. G.-K. En einmitt þeir tveir hv. þm. hafa mest staðið með því í gengismálinu að halda íslenzku krónunni niðri. Jafnvel hafa þeir látið í ljós þá skoðun, að þegar eitthvað blási á móti á fjármálasviðinu, beri einungis að fella krónuna. Og þar sem einmitt þessir tveir menn hafa lagt svo mikið kapp á að koma upp þessu ráðuneyti, því meiri ástæða þykir mér til að spyrja um þetta mál.

Þá kem ég að því atriði, sem ég hefði í raun og veru átt að minnast fyrst a. Það er atriði, sem ég álít, að nýja stj. hefði átt að byrja á, en það var að leita trausts sameinaðs Alþingis. Það mun í flestum öðrum þingræðislöndum vera eitt allra fyrsta verk nýrrar stjórnar að leita trausts þingsins alls, eða þá þeirrar málstofunnar, sem fjölmennari er, ef þingið er tvískipt. Þetta hefði hin nýja stj. átt að gera til þess að sýna, að hún væri mynduð á fullkomlega þingræðislegan hátt. Ég efa það ekki, að meiri hl. þingsins veiti stj. stuðning eða hlutleysi, en það er viðkunnanlegra og hreinlegra að sjá það koma fram í verkinu, og betra, að allir fái að sjá, hversu mikill sá meiri hl. er, en það vita menn ekki enn, eða það hefir a. m. k. farið framhjá mér, ef hæstv. forsrh. hefir getið þess, hve marga stuðningsmenn stj. hefði. Sýnist mér vel vera hægt að fara fram á það, að slík atkvgr. sé látin fara fram nú. Ég geri ekki kröfu til þess, að það verði haft öðruvísi en svo, að hæstv. forseti beri þetta upp sem tilmæli frá nýju stj. Þó að ekkert mál sé hér á dagskrá, sem gefur sérstakt tilefni til slíkrar atkvgr., þá álít ég, að hún geti vel farið fram. Það mætti gjarnan taka það upp sem venju, að hver stj. leti það verða sitt fyrsta verk að láta fara fram umræðulítið eða umræðulaust atkvgr. um þetta í Sþ. Þá kemur það í ljós, hvern stuðning stj. hefir hjá þm.

Þá vil ég minnast á eitt mál, sem snertir stj. nokkuð, eða a. m. k. suma í henni, og það er sakamálsrannsókn sti, sem fyrirskipuð hefir verið gegn einum af hinum nýskipuðu ráðh. Ég hefi ekki hugmynd um, fyrir hvað þessi sakamálsrannsókn er hafin eða hvernig líklegast sé, að dómur falli í málinu, því að ég hefi ekkert séð af heim skjölum, er snerta þetta mál. Ég hefi drepið á þetta hér af því, að þetta er alls ekki þýðingarlaust, sérstaklega gagnvart öðrum þjóðum. Það væri mjög leiðinlegt og óviðkunnanlegt, ef hægt væri að spyrja Íslending, sem utan færi, eitthvað á þessa leið: „Hvernig er það með ykkur, settuð þið upp ráðh., sem var undir sakamálsrannsókn? “ Ég vil gjarnan fá svar og upplýsingar um þetta frá stj.

Ég má segja, að ég las um þetta í Tímanum á laugardaginn var, þó að hann sé að vísu ekki góð heimild. Það stóð J. J. undir, og ég hugsa, að það hafi verið fyrrv. hæstv. dómsmrh. Get ég þá hugsað, að J. J. hafi haft þetta frá dómsmrh., svo að maður hefir ástæðu til að trúa því!

Þó að ég segi nú þetta í spaugi, þá er þó hitt alvarlegur hlutur, að einn maðurinn í hinni nýju stj. eigi sakamálsrannsókn yfir höfði sér. Við hitt gæti hann ekki ráðið, þó að einhver kæra kæmi á hann, eftir að hann væri kominn í ráðherrasæti.

Ég hefi nú að þessu sinni spurt um fleira en venja er til að, gera við stjórnarskipti, en það er mín afsökun, að nú er Alþ. að ljúka sínum störfum, og má búast við, að þm. fari nú heim eftir nokkra daga, svo að þm. hafa ekkert tækifæri til að tala við þá nýju stj. Þess vegna hefi ég nú notað mér þá heimild, sem hæstv. forseti gaf mér, að leggja fyrir hæstv. stj. þessar spurningar, sem ég vænti að hún svari.