04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2422 í B-deild Alþingistíðinda. (11492)

Stjórnarskipti

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég get svarað hv. 2. landsk. nokkrum orðum. Því sem hann minntist á síðast, sakamálsrannsóknina, vil ég beina til hæstv. dómsmrh. Ég skal aðeins taka það fram, að hv. 2. landsk, veit það vel, að sá maður er ekkert meiri sakamaður en sjálfur hann, svo að ég taki einhvern til samanburðar. (JBald: Við erum hvorugur dæmdur). Alveg rétt, þeir eru mestu heiðursmenn báðir tveir.

Mér þykir leitt að geta ekki orðið við þeirri ósk hv. þm. að leita nú með atkvgr. trausts hjá þinginu. Ég hefi nú nýlega símað til konungs, að stj. sé mynduð með hlutleysi eða stuðningi allflestra sjálfstæðis- og framsóknarþingmanna, og að fara að leita trausts hjá þinginu nokkrum dögum síðar, það geri ég ekki fyrir bænarstað hv. þm. Ég vil benda hv. þm. á það, að hv. þm. hefir áður láðst að bera fram slíka till., en hann hefir þá ekki kært sig um að gangast við því við opinbera atkvgr., að hann styddi stj. úr öðrum flokki eða sæti hjá. Honum hefir þá fundist, að hlutleysi væri sama og stuðningur. En þetta veldur hv. þm. engum óþægindum, því að honum standa opnir þeir möguleikar, sem ég hefi heyrt, að hann ætli að grípa til, sem sé að bera fram vantraust á ríkisstj. Það eina, sem ég get gert fyrir hv. þm. í þessu, er að lofa honum því, að þingi verði ekki slitið fyrr en slíkt stórmál hefir fengið afgreiðslu.

Um atvinnubætur sé ég ekki ástæðu til að gefa tiltekin svör að þessu sinni. Ég hefi oft talað um þá hluti á þessu þingi, og verður einnig tækifæri til að svara því síðar á þessu þingi, enda þótt nú sé komið fast að þinglokum.

Um gengismálið get ég sagt hv. þm. það, að það er stefna gjaldeyrisnefndar að reyna að varðveita óbreytt sterlingspundsgengið, eins og verið hefir frá 1925. Um hitt get ég vitanlega engin svör gefið honum, hvort á tímanum fram til næsta þings komi einhver sterkari öfl viðskiptalífsins eða atvinnulífsins, sem gætu haggað þessum ásetningi gjaldeyrisnefndarinnar.

Um stjórnarskrármálið þarf ég ekki fleira að segja. Ég hefi lýst yfir þeim ásetningi, að ég muni beita mér fyrir lausn þess máls og mun leggja fyrir næsta þing tillögur í því máli, sem líklegt væri, að menn gætu orðið sammála um. Ég hefi fylgzt vel með því máli á þessu þingi og þykist eygja möguleika til að leysa þetta mál, sem ættu ekki að minnka heldur vaxa fyrir næsta þing, en hvernig sú lausn er í einstökum atriðum, er vitanlega ekki hægt að skýra frá nú. Þeirri spurningu fær hv. þm. svarað þegar í byrjun næsta þings.

Um það get ég ekki liðsinnt hv. þm. hvað hann eigi að segja sínum kjósendum. Ég hygg, að hann verði í engum vandræðum með það, og ég veit, að hann er nú þegar búinn að segja þeim eitthvað.