04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (11494)

Stjórnarskipti

Héðinn Valdimarsson:

Það eru aðeins örfáar spurningar, sem mig langaði til að bera fram, og þá fyrst út af þeim orðum, sem hæstv. forsrh. lét hér falla sem svar til flokksbróður míns, um sakamálsrannsóknina á hendur núv. hæstv. dómsmrh. Hæstv. ráðh. sagði, að hv. 2. landsk. þm. vissi það vel, að núv. dómsmrh. væri ekki meiri sakamaður en sjálfur hann. Nú er það fyrrv. hæstv. dómsmrh., sem hefir stofnað til þessarar sakamálsrannsóknar, fyrrv. félagi hæstv. forsrh. í stj., sem maður veit ekki annað um en að hæstv. forsrh. beri fyllsta traust til. Raunar mun þessi rannsókn ekki runnin frá hæstv. fyrrv. dómsmrh., heldur frá hv. 4. landsk. og flokksbróður hæstv. núv. dómsmrh. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort þetta sé fölsk ákæra frá hv. 4. landsk. og þá ástæðulaus sakamálsrannsókn, sem þessi fyrrv. og væntanlega núv. flokksbróðir hæstv. forsrh. hefir fyrirskipað. Hv. 5. landsk. vil ég spyrja um það, hvað hann áliti um þetta mál, hvort það eigi að ná fram að ganga, og hann, sem sendi kæruna fram, hv. 4. landsk. Mér dettur ekki í hug að segja neitt um það, hvort hæstv. dómsmrh. sé sekur eða saklaus, en það er einkennilegt, ef á að draga kæruna til baka, og hæstv. dómsmrh. á sjálfur að gera það, sem undir kærunni liggur.

Þá kom það fyrir á þingmálafundi, sem haldinn var í fyrrakvöld, að hv. þm. G.-K. talaði nokkuð um samsteypustj., en hann er eins og kunnugt er einn af hennar trúnaðarmönnum. Hann lýsti því yfir þar, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði einhverja þá tryggingu fyrir lausn stjórnarskrármálsins, sem hæstv. núv. forsrh. hefði gefið, en hver sú trygging væri, gat hann ekki um. Nú vil ég spyrja, hvaða trygging það sé, sem hæstv. forsrh. hefir gefið hér fyrir lausn stjórnarskrármálsins, eða hvort hæstv. ráðh. hefir gefið nokkurt loforð í þessa átt.

Hv. þm. G.-K. gat þess, að 8–10 þm. úr Framsóknarflokknum hefðu gengið að ákveðinni lausn stjórnarskrármálsins á næsta þingi, og vil ég líka spyrja hæstv. núv. stj., og þá fyrst og fremst formann Sjálfstæðisflokksins, hverjar tryggingar séu fyrir þessu.