04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2432 í B-deild Alþingistíðinda. (11508)

Stjórnarskipti

Ólafur Thors:

Ég get tekið undir það með hæstv. forseta, að umr. eru komnar á nokkuð undarlegan vettvang. Tel ég mig ekki bera ábyrgð á því, en skal þó verða við ósk hans um að lengja þær ekki. Vil ég gera litla aths. í tilefni af orðum hv. 5. landsk. Hann fann, þrátt fyrir sljóa dómgreind í þeim efnum, að ekki var allt með felldu, er hann hafði náðað sjálfan sig af sekt fyrir ærumeiðingar. Greinar þær í Tímanum, sem Gísli Guðmundsson var sektaður fyrir, voru flestar eftir hv. 5. landsk. sjálfan, t. d. um Helga Tómasson. Afsökun sú, sem hv. 5. landsk. færði fyrir till. sinni til konungs um uppgjöf sekta fyrir meiðyrði, sú, að hér á landi beitti aðeins einn flokkur meiðyrðasektum, var ekki rétt. Hefir hann þannig sagt konungi rangt til, því að framsóknarmenn hafa nú gangandi 3 eða 4 slík mál á Morgunblaðið. Eru það því visvítandi ósannindi, sem hann hefir sagt konungi í sambandi við þessa blygðunarlausu till. Hefi ég oft deilt fast á fyrrv. dómsmrh., og þó hvergi nærri eins og hann hefir átt skilið. En nú er hann oltinn úr valdasessi, og læt ég hann hér eftir afskiptalausan, eftir því sem hægt er.