04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (11513)

Stjórnarskipti

Jónas Þorbergsson:

Ég verð að gera örstutta aths. út af ræðu hv. þm. G.-K., þar sem hann lét þess m. a. getið, að nú væru á döfinni nokkur meiðyrðamál á Morgunblaðið frá flokksbræðrum hv. 5. landsk. Vill svo vel til, að einn af ritstjórum Morgunblaðsins er hér á næstu grösum, svo að mér þannig gafst tækifæri til að spyrja hann, hver þessi mál væru, sem hv. þm. G.-K. ætti við, og tjáði ritstjórinn mér, að meðal þessara mála væri eitt mál, sem ég höfaði á Morgunblaðið, en ég höfðaði þetta mál ekki af pólitískum ástæðum eða sem flokksbróðir hv. 5. landsk., heldur sem forstöðumaður ríkisstofnunar, sem Morgunblaðið hafði borið sökum. Þessi ummæli hv. þm. G.-K. fá því ekki staðizt.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, út af þeim ummælum hv. þm. G.-K., að Framsóknarflokkurinn hefði samþ. það, að núv. hæstv. dómsmrh. tæki sæti hins fráfarandi dómsmrh., að hvortveggja flokkurinn, bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, var hinum óháður um val á mönnum í ráðuneytið, og veit ég enda, að hv. þm. G.-K. er þetta vel kunnugt, því að hann mun hafa átt mikinn þátt í þeim samningaumleitunum, sem staðið hafa á bak við þessa stjórnarmyndun. Þessi stjórnarmyndun er til orðin af sérstökum ástæðum, vegna sérstakra vandræða, sem þinginu hafa að höndum borið, og lít ég svo á, að skoða megi þessa stj. eins og nokkurskonar n., sem báðir flokkar hafi skipað menn í eftir samkomulagi, með það fyrir augum að koma fram nauðsynlegum málum, sem stóðu föst í þinginu og ekki var hægt að afgr. áður. Undirbúningur að skipun stj. fór fram með þeim hætti, sem venja er til um skipun n., og það er auðvitað, að um leið og hvortveggja flokkurinn hefir valið menn í slíka n., hefir hann og tekið á sig ábyrgð á verðum síns eða sinna fulltrúa.