04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2442 í B-deild Alþingistíðinda. (11521)

Stjórnarskipti

Jónas Þorbergsson:

Það er aðeins út af fyrirspurn hv. 1. þm. Reykv. Það er rétt, að Framsóknarflokkurinn samþ. að fela núv. hæstv. forsrh. að mynda ráðuneyti, sem í væri einn maður úr Sjálfstæðisflokknum. (JakM: Samþ. hann ekki, að stj. yrði mynduð með þeim mönnum, sem nú eru í henni?). En þeir hafa sjálfir valið þann manninn í ráðuneytinu, sem ekki er úr Framsóknarflokknum. (JakM: Má ég leiðrétta, af því að ég get ekki tekið oftar til máls. Ég spurði, hvort Framsóknarflokkurinn hefði ekki samþ., að Ásgeir Ásgeirsson myndaði þessa stj., sem skipuð væri þessum mönnum). Jú, en hvorki einstakir flokksmenn né flokkurinn í heild hefir goldið hæstv. núv. dómsmrh. jákvæði eða neikvæði og ekki gefið neina yfirlýsingu um afstöðu sína gagnvart einstökum mönnum í þessari stj. En það mun væntanlega verða gert, þegar vantrautsyfirlýsingin liggur fyrir.