17.02.1932
Efri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (11558)

Starfsmenn þingsins

Magnús Torfason:

Ég er sem aðrir ókunnugur þessu máli. Get því ekki framar öðrum um það dæmt, sízt þar sem ég veit ekki, hver maðurinn er; sem hv. 1. landsk. stefnir ákæru sinni að. Þykir mér því sem rétt muni vera að hlífa hv. d. við frekari umr. um mál þetta að svo stöddu.

Það er öllum vitanlegt, að hæstv. forsetar ráða í sameiningu alla starfsmenn þingsins. Þetta er því mál, sem á að afgerast milli hv. þm. og þeirra. Ég fæ ekki séð, að þessi hv. d. geti neitt í þessu máli gert, þegar það er lagt svo illa undirbúið fyrir hana, að ekki er vitað, hver maðurinn er eða hver sökin sé, þar sem hv. 1. landsk. hefir ekki óskað eftir að nefna nafn mannsins eða skýra málið nánar. Málið er því naumast borið fram á réttum vettvangi. Bezt hefði verið, að hv. 1. landsk. hefði snúið sér til forseta utan deildarinnar, áður en hann bar málið fram á þingi.