18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vil fyrst lýsa IV. brtt., frá mér, á þskj. 440. Hún er um það, að fela Búnaðarbankanum að selja hin dönsku ríkisskuldabréf, sem viðlagasjóður á og eru nú að tryggingu fyrir veðdeild Landsbankans, enda greiðist skuld viðlagasjóðs við ríkissjóð af andvirði hinna seldu bréfa. Þessi ríkisskuldabréf munu vera 300 þús. kr. danskar að nafnverði, en raunverulega, við sölu, mun fást fyrir þau um 250 þús. kr. Skiptist sú upphæð jafnt milli ríkissjóðs og Búnaðarbankans. Má segja, að gagnlegt sé nú að losa þetta fé og fyrir ríkið að fá endurgreidda þá skuld, sem viðlagasjóður stendur í við það. En sá hængur er þó á, að ekki er hægt að gera þetta án samþ. Alþingis, vegna þess að skuldabréf þessi eru að veði fyrir, að ég ætla, 1. og 2. flokki veðdeildarinnar í Landsbankanum. Af þeim flokkum er nú lítið eftir, og áhætta því engin fyrir ríkissjóð að gefa út tryggingarbréf í staðinn. Er og til ætlazt, að viðlagasjóður verði í bakábyrgð, svo að ekki er um neina aukna áhættu að ræða. Hér er því ekki um neitt að gera annað en það, að koma hagkvæmari skipun á þessa hluti sem allra fyrst. Er og ekki heldur þýðingarlaust á erfiðum tímum að fá til ráðstöfunar erlenda mynt, sem hægt er að nota í utanríkisviðskiptum. Ég hefi rætt þetta við hv. fjvn. og fengið vilyrði hennar um samþ. þessarar till., eins og líka hv. frsm. lýsti. Vænti ég heldur ekki andmæla gegn þessu frá hv. d.

Þá vil ég nokkuð minnast á þá till., sem fram hefir komið um að fella niður fjárveitingu á næsta ári til landmælinga. — Þegar ég var ytra í vetur, átti ég tal við forstöðumann þeirrar stofnunar, er sér um þessar mælingar. Fékk ég þá upphæð þá, sem nota átti í sumar og er í þessa árs fjárl. lækkaða um 20 þús. kr. Krafa hans eða þeirra var nú samt sú, að haldið væri áfram mælingunum í 10 ár án stöðvunar. En þeir sættu sig þó við, að þessi upphæð væri lækkuð niður í 35 þús. kr. á þessu ári. Ég ræddi að vísu ekki frekar við þá um framhald þessa verks. En af samtalinu varð ég þess vís, að þeir telja, að við séum bundnir þeim samningi við þá, að verki þessu verði lokið á svo sem 10 árum. Hafa þeir og bréf atvinnumálaráðuneytisins, frá 21. maí 1930, er staðfestir þessa skoðun þeirra. Er í því bréfi tekið fram, að það skuli gilda sem samningur. Nú er þeim það vitanlega enginn ágóði, að samningar þessir séu haldnir. En það er annað, sem kemur til greina í þessu sambandi. þessir menn hafa þegar gert mikið að þessum mælingum her. Hafa þeir því sett heiður sinn í það að halda þeim áfram. Foringi þeirra lítur á þetta sem lífsstarf sitt, og þar sem hann er nú orðinn eldri maður, þá vill hann ekki, að framkvæmdin stöðvist, því að eftir því, sem það dregst, minnka líkurnar fyrir því, að hann fái lokið verkinu. Fyrir ísl. ríkið er og þessi samningur heppilegur. Þarna fæst mjög ódýr vinna, og mikil ómök sparast um útvegun áhalda og annan viðbúnað. Og þegar þess er gætt, að enn er mikið ómælt á Norður- og Austurlandi sérstaklega, þá er nokkuð til þess vinnandi, að verk þetta haldi áfram og að því verði ekki unnið minna árlega en ætlazt er til, að gert verði á þessu ári. Hér er því um samning að ræða, sem leitt er að þurfa að brjóta, enda þótt það leiddi ekki af sér sektir eða málaferli. Mér finnst því ofært að halda ekki samninginn, ef annars er nokkur kostur. Þess ber líka að gæta, að við fáum verk þetta unnið fyrir svo sem 1/3 þess, sem það mundi annars kosta okkur. Og þeir, sem hófu starf þetta, meðan samband okkar við Dani var fastara en það er nú, setja metnað sinn í að ljúka því. Er því allra hluta vegna illt, ef það þarf að falla niður.

Ég vil þá minnast á till. um 20 þús. kr. fjárveitingu til styrktar vöruflutningum til hafnleysishéraða á Suðurlandi, ef frv. það, sem nú liggur fyrir þinginu um skatt á bifreiðum, verður samþ. í Ed. Það er vitanlegt, að þessi skattur lendir þyngst á vörubílum, sem til þessa hafa komizt frekar létt út af þessum skatti. Í sambandi við þessa till. má líta á það, að þar sem strandferðir eru ekki til að annast flutninga í héruðin, er mjög heppilegt, að regla sé upp tekin með flutninga, þar sem hægt er vegna aðstöðu að skipuleggja þá. Er slíku helzt hægt við að koma í héruðunum austan heiðar. Væri aðstaða fengin fyrir bændur í þeim héruðum að skipuleggja flutninga sína, ef þeir nytu til þeirra nokkurs styrks. Gæti þeim þá orðið tvöfaldur hagur að þessu. Styrkurinn mundi létta þeim flutningskostnað, og með skipulagningunni mundu þeir spara fé, sem ekki væri hægt með öðrum hætti. — Ég vil fyrir mitt leyti mælast til, að till. verði samþ., en þó með því fororði, að frv. um bifreiðaskattinn verði samþ. í Ed. Getur maður þá litið svo á, að hér sé ekki um nema lítinn herkostnað að ræða, ef ríkið fær þær auknu tekjur, sem það frv. gerir ráð fyrir.

Yfirleitt vil ég taka undir ræður hv. frsm. fjárlaganna. Ég býst að vísu við, að einhverjar af hinum smærri till. verði samþ., og er ekkert við því að segja; bara að þær verði þá ekki of margar. En það er ekki hægt að hafa aðra stefnu fyrir þá, sem einhverja ábyrgð hafa á afgreiðslu fjárl., en þá, að felldar verði allar till., sem fara fram á mikil útgjöld úr ríkissjóði, og meginið af þeim till., sem heimta lítil útgjöld og ekki er því meiri nauðsyn að ýta á eftir. Það er fyrirsjáanlegur stór tekjuhalli á þessu ári. Ég hefi nefnt það oft áður hér í d. Það getur aldrei farið svo vel, að hallinn verði minni en svo sem 2 milljónir. Hann getur líka auðveldlega farið yfir 3 millj., ef ekki greiðist eitthvað úr, þegar liður árið. Ég hefi einnig nefnt það, að ósk fjármálaráðuneytisins í þessu efni væri, að teknir yrðu í lög tekjuaukar, sem nema 1 millj. og 200 þús. kr. á ári, og látnir gilda í 11/2 ár. Með því móti mundu fást upp undir 2 millj. kr. á þessu 11/2 ári upp í hinn fyrirsjáanlega tekjuhalla. Verður annað hvort, að seinni hl. ársins verður skárri en á horfist, eða batinn kemur áþreifanlega á næsta ári. En því mun fylgja það, að tollar verða ríflegri, því að strax og léttir mun þess gæta, að orðinn er vöruskortur; og þetta vöruhungur mun valda meiri innflutningi en venja er til. Ég hefi því talið, að í bezta tilfelli mundu tekjuaukar, sem næmu um 2 millj. kr. á 11/2 ári, geta jafnað tekjuhalla þessa árs. Og til þess að þessi tvö ár verði tekjuhallalaus, þegar saman kemur, þurfa fjárlög næsta árs að vera í jafnvægi. Hjá því verður ekki komizt, enda óforsvaranlegt af Alþingi að ganga ekki svo frá fjárl. næsta árs, sem við enn höfum vald á, að þau verði tekjuhallalaus. Það nægir, að fjárl. fyrir yfirstandandi ár voru afgreidd með nokkru öðru hugarfari en myndi, ef þau hefðu verið síðar afgreidd. Hv. fjvn. hefir lagt mikla áherzlu á, að fjárl. næsta árs yrðu afgreidd svo, að hægt væri að hafa sæmilega von, að ekki leiddi tekjuhalla af þeim, hvað sem líður yfirstandandi ári. þetta er þakkarvert, þótt n. hafi fengið fyrir það ýmis ámæli. N. hefir sýnt þarna lofsverða sjálfsafneitun, því að vitanlega er freisting fyrir hana, engu siður en þá þm., sem eru fyrir utan n., að sinna ýmsum þeim kröfum, sem eru fram bornar. En það kæmi að litlu gagni, þótt fjvn. sýndi þetta hugarfar, ef aðrir þm. ætluðu sér að lifa hátt, rétt eins og ekkert hefði í skorizt. það hefði þá verið lítið gagn í því að lækka útgjöldin, fyrst við undirbúning fjárlagafrv., og svo aftur við 2. umr., ef þau ættu að hækka nú við þessa 3. umr., sem veldur úrslitunum um f jarl. frá þessu þingi, og sá blær, sem kemst á þau nú, mun að líkindum haldast þar til þau fá fullnaðarafgreiðslu. Ég vil þakka það, hvað fjvn. hefir verið samtaka í þessu, og tek það sem vott þess, að n. muni vinna í líka átt, þótt margar till. hafi komið fram og sumar háar. Ég vil taka undir það með hv. þm. S.-Þ., að slíkar till. megi í mörgum tilfellum skilja sem auglýsingu án vonar um árangur. Með þessu er ég ekki að segja, að þær óskir, sem fram eru bornar í tillöguformi, séu ástæðulausar. Það er eitthvað annað. Þarfirnar eru margar í þessu landi og framfaralöngun þjóðarinnar á annað skilið en að menn fari um hana illum orðum, en hitt er það, að þegar kemur önnur nauðsyn í veginn, verða þarfirnar að bíða um stund. Það er engin hjálp í framsóknarbaráttu þjóðarinnar, að lifað sé um efni fram visst áraskeið. Það er hvert á móti til tafar og truflunar. Jöfn framþróun mun hollust, og liggur það í augum uppi, að bezt er að sníða sér stakk eftir vexti. Og á yfirstandandi og næsta ári er stakkurinn þröngur og litlu fé yfir að ráða. Ég hefi áður sagt það, að núv. tekjulöggjöf muni ekki hrökkva til að standa straum af yfirstandandi og komandi ári. Eins og útlitið er nú og undirtektir undir frekari tekjuöflun í þinginu, mega fjárl. ekki hækka frá því, sem orðið er. Það væri fyrst þegar séð væri fyrir, að allir núgildandi skattar væru framlengdir og séð yrði fyrir fyrirsjáanlegum tekjuhalla, að hugsa mætti til þess að hækka útgjaldaliðina. En þar sem slíkt virðist ekki fyrir hendi, er skylt við þessa umr. að fella allt, sem skiptir verulegu máli um gjaldahækkunina. Það er svart útlit að þurfa að bita af skornum skammti þetta hálfa annað ár, sem er framundan, en hjá því verður ekki komizt. Kreppan þjappar nú svo að landslýðnum, að það má ekki minna vera en að það komi greinilega fram í afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár. Og þótt næsta ár sé líklega ekki það versta, sem yfir kemur, því að vonandi er yfirstandandi ár það versta, og meina ég ekki með því, að það verði verra en nú lítur út fyrir, því að það er fyrirsjáanlegt, að það hlýtur að verða mjög slæmt, þá ætti þetta hugarfar í afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár að geta hjálpað því, að fjárl. yfirstandandi árs eru hærri en gjaldþol ríkisins má við. Til þess að fá jöfnuð á þetta allt þarf að taka saman þessi tvenn fjárl., og ef næsta ár.; fjárl. eru gætileg, mun von um tekju- og gjaldajöfnuð með því að nokkur tekjuauki komi til viðbótar. Ég þykist vita, að afgreiðslan verði gætileg, en það má ekki samþykkja nema fátt af því, sem hér er farið fram á, og mun verða að neita sér um að fullnægja mörgum þeim þörfum, sem kunna að vera knýjandi. það kemur sú tíð, að hægt verður að sinna þeim, og við vonum, að það verði fyrr en seinna, en það er bara ekki hægt í ár.