06.04.1932
Efri deild: 44. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

60. mál, eignarnám á landspildu í Skeljavík

Frsm. (Pétur Magnússon):

Það er líkt um þetta frv. farið og það, er næst var á undan á dagskránni. Hreppsnefndin í Eyrarhreppi hefir ráðizt í að gera alldýra bátabryggju í Hnífsdal. Hefir hún kostað um 80 þús. kr., að því er mér er sagt. Til þess að bryggjan komi að fullu gagni þarf að gera ýms mannvirki í landi, uppfyllingu, geymsluhús o. fl. Hreppnum er því nauðsynlegt að ná eignarhaldi á landinu í kringum bryggjuna. Það land er í sameign 7 manna; hefir náðst samkomulag við flesta, en kaupin hafa strandað á 2 eigenda, að því er mér er sagt.

Í frv. er farið fram á, að eignarnámið nái til 4000 m. Hreppsnefndin hafði í bréfi til flm. óskað eftir þessari stærð. Síðan hefir þetta reynzt vera misritun, þar átt að standa 40000 ? m. N. hefir haft tal af starfsmanni í vitamálaskrifstofunni, er athugað hefir staðháttu þarna, og gaf hann þær upplýsingar, að nægilegt mundi vera að láta heimildina ná til 25000 ? m. Með þeirri breyt. hefir n. því lagt til að frv. verði samþ.