04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

1. mál, fjárlög 1933

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég vil fyrst víkja fáum orðum að hv. 2. þm. Skagf. Sá hv. þm. hélt sig að venju við allskonar smámuni, sem ekki er tími til að eltast við á hinum stutta ræðutíma, sem okkur ráðherrum er ætlaður. Hv. þm. þótti t. d. slæmt, að ríkisjóður ætti tvo bíla. Þetta er nú máske ekki gott. En þetta er þó ekki annað en það, sem gerist með öllum menntuðum þjóðum, að ríkin eiga bíla, og er nú af hagnýtum ástæðum framkvæmt við margar stofnanir hér landi. Pósthúsið á t. d. sinn bíl, síminn sinn og vegamálastjórinn sinn bíl. Hv. þm. talaði líka um hestaeign ríkissjóðs. En hestaeign ríkisins er nú einmitt arfur frá hans eigin stjórnartíð. Þá stóð nú hestaeignin með svo miklum blóma, að stjórnarforsetinn þáverandi, Jón heit. Magnússon, gat ferðast á þeim austur um Skaftafellssýslur, og sjálfur ferðaðist hv. þm. til kjósenda sinna norður í Skagafjörð á þeim hestum. Nú eru ekki nema tveir hestar til, svo hv. 2. þm. Skagf. verður að bæta ríflega við, ef hann á að hafa nægan hestakost til norðurferðar, ef það á fyrir honum að liggja að verða aftur ráðh.— Annars gæti ég nú betur trúað því að hv. þm. mundi undir þeim kringumstæðum frekar nota hina fordæmdu stjórnarráðsbíla, þegar hann fer að heimsækja sitt forna kjördæmi.

Þa fannst hv. þm. eiga við að blanda Litla-Hrauni inn í þessar umr. Um það er nú það að segja, að það er skylda ríkisins að fæða þessa menn, sem þar eru, meðan þeir taka út ídæmda hegningu. Og þótt það kosti ríkið óhjákvæmilega nokkuð, þá er það í fyrsta lagi skylda, en í öðru lagi má geta þess, að ýms héruð hafa sparað mikið fé vegna þessa fangelsis. Einkum þó bæjarsjóður Reykjavíkur. Menn, sem standa í vanskilum um meðlag með vanræktum börnum, hafa borgað af ótta við að fara á Litla-Hraun. T. d. fékk einn hreppur í Mýrasýslu 1400 kr. frá einum vanskilamanni vegna þess eins, að Litla-Hraun var til og þar vinnuhæli. Ég get getið þess, að nýlega komu frá þjóðabandalaginu einar 50 spurningar um fyrirkomulag hegningarmála hér á landi. Ef hér hefði ekkert hegningarhús verið til, annað en hið gamla hér í Reykjavík, þá hefði ekki verið hægt að svara neinni spurningunni játandi. En vegna þess að Litla-Hraun var til, þá stóðumst við prófið. Hér var allt, er að hegningu lýtur, eins fullkomið og stendur jafnfætis því, sem bezt þekkist annarsstaðar. Hið eina, sem við íslendingar erum eftirbátar um, er, að hér eru hlutfallslega færri fangar en annarsstaðar.

Hv. þm. taldi mjög eftir þá skóla, sem reistir hafa verið. Það er satt, að til heirra hefir gengið hærri fjárhæð en sú, sem veitt hefir verið í fjárlögum. En hann gleymdi því, að til er heimild í l., sem hann hefir sjálfur verið með í að samþ., þar sem leyft er að taka lán til að koma upp héraðsskólum. Og þess má geta, að þeir 5 héraðsskólar, sem síðustu árin hafa ýmist verið byggðir af nýju eða fengið aðgerð, hafa ekki kostað eins mikið til samans og tapazt hefir á einum íhaldsgæðing, þó ekki þeim stærsta, nefnilega Sæmundi Halldórssyni í Stykkishólmi, og segir af því nánar síðar. Sér þess þó litla staði, en þessir skólar, sem reistir hafa verið, eru falleg og varanleg hús, og þau veita árlega 350 ungmennum skólavist við betri skilyrði en þau gerast bezt í nágrannalöndunum.

Þá fór hv. þm. að tala um, að haldin hefði verið veizla á Siglufirði. Veit ég ekki, hvort hann tilfærði þar rétta upphærð. Það er rétt, að ég var viðstaddur þegar síldarverksmiðjan var vígð. Var ég staddur á Akureyri og tók þaðan með mér 30 bændur úr umhverfi Akureyrar. En þó þessi vígsla hafi kostað eitthvað, þá er það víst, að það var minna en það, sem flokksbróðir hv. þm., hv. 1. landsk., Jón Þorláksson, kostaði, þegar hann var að sanna það í sambandi við þessa verksmiðju að hann hefði ekki lært stóru töfluna. En þótt vinnubrögð hans væru svona aum, þá fékk hann þó víst nokkur þúsund fyrir þau.

Hv. 2. þm. Skagf. nefndi margt fleira, sem ég hefi ekki tíma til að eltast við. En allt var það af sama toga spunnið. Hv þm. tíndi ýmsa liði fram, þar sem eytt hefði verið fé, en hann nefndi ekkert, hvað fyrir það fé hefir komið. Hann nefndi það ekki, að búið er að tengja saman vegakerfið, svo nú má fara á hilum austan tir Fljótshlíð alla leið til Húsavíkur, og af þeirri leið vestur á Snæfellsnes og til Stykkishólms, og að nú er Dalasýsla að tengjast við þessa leið. Hann nefndi ekki síma, ekki húsabyggingar, ekki ræktun og margt fleira, sem hefir verið gert. En þar sem hv. þm. fór að tala um eyðslu og um það, að ekki hafi verið safnað á góðu árunum, þá vil ég minna hv. 2. þm. Skagf. á, hvernig þetta gekk til á háverðsárunum 1917–1919. Ef hann vill fá fyrirmynd um það, þá ætti hann að athuga sögu þeirra tíma. Hv. þm. og flokksmenn hans sátu þá við stjórn. En þá einmitt var grundvöllurinn lagður að skuldasöfnun ríkisins. Góðu árin þá fóru fyrir lítið og ekkert safnaðist. Ekkert var heldur gert, og það af því einu, að of lágir skattar voru settir og miklu lægri en ástæða var til.

En úr því heimtað er af stj., að hún hafi átt að safna fé á þessum árum, þá er bezt að svipast um, hvernig Reykjavíkurbær hefir uppfyllt þær skyldur. Í Reykjavík eru íhaldsmenn í meiri hl. í bæjarstjórninni. Hvernig hefir þeim tekizt að safna fé á þessum árum, og hafa þeir marga digra sjóði til þess að grípa til nú í kreppunni? Og hvernig er það í Vestmannaeyjum? Þar er íhaldið einnig í meiri hl. og ástandið svo, að bærinn getur ekki borgað starfsmönnum sínum. Af hverju hafa ekki þessar íhaldsstjórnir, sem ráðið hafa í þessum bæjum að undanförnu, fylgt sömu reglu og íhaldsmenn heimta nú, að ríkisstj. hefði átt að fylgja? Þegar kreppan dynur yfir, kemur í ljós, að stjórnir þessara bæja hafa ekki lagt neitt upp og standa nú uppi með tvær hendur tómar.

En svo ætla ég að snúa mér að Íslandsbanka, sem tapað hefir 20 millj. kr. á 10 árum, því að í þeirri stofnun er að finna hina heimaunnu vinnu, sem er ein aðalástæðan fyrir kreppunni hér á landi. Íslandsbanki var algerlega íhaldsfyrirtæki, sem Eggert Claessen var settur yfir með 40 þús. kr. launum á ári, eftir samningum, sem Jón Magnússon gerði. Og þó að launin vaeru lækkuð nokkru síðar, var það óhaldsmönnum mjög á móti skapi. Bankaeftirlitsstarfið var einnig lögleitt af óhaldsmönnum og launin ákveðin 16 þús. kr. á ári, og hefir íhaldsmaður gegnt því starfi frá byrjun. Báðar þessar hálaunuðu stöður eru því af sama íhaldssauðahúsinu. Af þessu háa kaupi hefði mátt ætla, að stjórn bankans væri í góðu lagi, en raunin hefir nú orðið önnur, eins og ég kem bráðum að.

Það þarf því djörfung til hjá hv. 2. þm. Skagf. að ráðast á mig fyrir að hafa 2 bíla og 2 besta í stjórnarráðinu, hafa komið upp vinnuhælinu á Litla-Hrauni og átt þátt í mörgum gagnlegum opinberum framkvæmdum. Er ólíkt að bera þá gagnlegu eyðslu saman við þau afglöp, sem átt hafa sér stað í Íslandsbanka undir stjórn hans og annara íhaldsmanna. Og svo þegar bætist við, að mesta árásarefnið á mig er það, að hafa ekki hindrað að framkvæma sjálfsagða rannsókn á þessu íhaldsfyrirtæki, er á 10 árum hefir sólundað 20 millj. króna af fé landsmanna, þá er skörin sannarlega farin að færast upp í bekkinn.

Þessi rannsókn á rekstri Íslandsbanka síðastl. 10 ár, sem hv. 2. þm. Skagf. og öðrum íhaldssalum er svo mikill þyrnir í augum, var framkvæmd síðastl. ár af lögfræðingunum Einari háskólakennara Arnórssyni, Stefáni Jóhanni Stefánssyni og Þórði Eyjolfssyni, og vænti eg, að andstæðingar minir viðurkenni, að í þessari nefnd séu ekki líkur til, að hallað hafi á íhaldsmenn eða sósíalista. Eftir þennan formála kem ég þá að niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar, er sýna, hvernig feitu kunum í atvinnulífi þjóðarinnar hefir verið beitt á þetta frjósama akurlendi íhaldsins.

Fyrsta feita kýrin, sem hér verður fyrir mér, er síldarverksmiðjan á Sólbakka. Upphaflega var það danskt félag, sem auðséð er, að hefir verið í miklum metum hjá hinum danska hlutabanka. Árið 1920 –21 er víxilskuld þessa danska félags við Íslandsbanka orðin 348 þús. krónur. Litlu síðar liðast félag þetta sundur, og er þá Sólbakki stofnaður á rústum þess, en engin skil gerð á víxlinum og bættust við skuldina 35 þús. krónur. Skuldin við Íslandsbanka er þá orðin um 400 þús. krdnur, og átti þá Kristján Torfason á Flateyri Sóbakkafélagið einn. Haustið 1922 lofar Íslandsbanki Kristjáni Torfasyni að fella niður alla skuldina og gefa honum aftur veð hans öll, er bankinn hafði fyrir skuldinni, ef Kristján greiði bankanum 70 þús. krónur í peningum. Litlu síðar gerist svo eitt það merkilegasta í sögu þessa máls: Þá fær Kristján Torfason 125 þús. kr. víxil í bankanum, greiðir til baka af upphæðinni 70 þús. krónur, og fær svo sjálfur afganginn til annara þarfa. Þá voru afskrifaðar af skuldum Sólbakkafélagsins 286 þús. kr., en með því, sem áður hafði verið afskrifað af sömu eign, nam tap bankans þá 350 þús. króna. Upp úr þessu félagi var svo í desember 1924 stofnað h/f Andvari og hlutafé talið 260 þús. krónur. Árið 1925 starfaði félag þetta, og átti þá hv. 2. þm. Skagf. sæti í landsstj. Finnst mér því vel við eigandi að lesa hér upp lítið eitt úr viðskiptareikning Andvara við Íslands banka árið 1925, og lítur hann svona

út:

Í ársbyrjun fær félagið hjá bankanum

200 þús. kr.

5. maí víxil að upphæð 80 — —

8. júní — — — 50 — —

22. — — — — 50 — —

8. júlí — — — 50 — —

23. – — — — 150 — —

5. ágúst — — — 100 — —

13. — — — — 100 — —

30. — — — — 150 — —

4. sept. — — — 100 — —

24. — — — — 100 — —

22. okt. — — — 70 — —

Alls námu þessi lán á árinu 1 millj. og 200 þús. kr. Af þessari upphæð var trygging fyrir 200 þús. kr., en án tryggingar lánaði bankinn félaginu eina milljón króna. Þetta var ein af feitu kúm íhaldsins á þeim árum. Allir víxlarnir fellu svo í gjalddaga á þessu sama ári, en voru framlengdir jafnóðum og allir án afborgana, og oft varð bankinn að greiða vextina líka.

Í árslok 1928 er skuld h/f Andvara við Íslandsbanka að verða um 11/2 millj kr., og upp úr því fer svo félagið á hausinn. Á þessari einu feitu kú hefir því Íslandsbaki tapað, fyrst á Sólbakkafélaginu 350 þús. kr. og síðan á Andvara 1157 þús. kr., eða samtals rúmlega einni og hálfri milljón króna.

Þá kem ég að nr. 2, eða næstu feitu kúnni, sem íhaldið beitti á akurlendi sitt. En það er Copland. Hann var í stríðslokin stór viðskiptamaður Íslandsbanka, en myndar síðan hlutafélag og gefur því nafn sitt. Hafði það félag mikið fé í veltu, eins og bezt sést á því, að árið 1920 á tímabilinu frá 1. maí til 1. júlí falla í gjalddaga 12 víxlar, og er uphhæð þeirra samanlögð 9 milljónir kr. Sama ár getur Copland hvorki borgað höfuðstól né vexti, eins og honum þó bar. Þá um haustið fara þeir utan Tofte bankastjóri og þáv. fjmrh., núv. hv. 2. þm. Skagf., til þess að reyna að hjálpa Copland. Litlu síðar biður Íslandsbanki Copland að greiða sem fyrst 4 til 41/2 millj. utanlands til þess að greiða úr vanda bankans og landsins yfirleitt. En það gekk illa og allt sat við sama. Er svo skemmst frá að segja, að árið 1922, þegar hv. 2. þm. Skagf. fer úr fjármálaráðherrasætinu, eftir að vera búinn að steypa í Íslandsbanka drjúgum hluta af enska láninu, þá gerir bankinn Copland upp, og er þá skuld hans orðin 4,3 millj. Bankinn skrifar þá af þeirri upphæð sem algerlega tapað 2 millj. kr., en rúmum 2 millj. er skipt á ábyrgðarmennina og Copland. En svo fara ábyrgðarmennirnir út úr, því að þeir voru yfirleitt góðir íhaldsmenn og ekki nema sjálfsagt að losa þá við skuldbindingar, og bankana munaði svo sem ekki um að tapa 2 millj. í viðbót. Copland er nú orðinn einn eftir í félaginu, og reynist hann bankanum lítil féþúfa. Við árslok 1922 skuldar Copland bankanum 1464000 kr. Við árslok 1923 er skuldin orðin 1894000; og næsta ár hækkar skuldin enn. svo að við árslok 1924 er hún orðin 3858000 kr., eða um það leyti, sem hv. 2 þm. Skagf. kemur aftur í stj.

Árið 1926 er svo Copland gefið upp af bankanum allt, sem hann skuldar þá, nema 500 þús. kr., en samhliða er svo gerður samningur við hann, þar sem hann fær að greiða 5% vexi af þessari 11/2 millj., en það var 3% lægra en öðrum dauðlegum viðskiptamönnum bankans var gert að skyldu að greiða á sama tíma. En samtímis og þessi samningur var gerður lánar bankinn Copland 125 þús. kr., svo hann geti byrjað þriðju tilveru sína. Í samninginn setur Eggert Claessen, að þessi ágæti viðskiptamaður bankans megi í þessu nýja félagi reikna sér 35 þús. kr. í kaup á ári, og annað eins mun hafa verið talið leyfilegt að Copland mætti reikna sér í ferðakostnað. þetta minnir á söguna um einn Noregskonunga, er gaf íslenzkum bónda við til kirkjubyggingar. Þegar konungur komst að því, að íslenzki bóndinn hafði valið viðinn með það fyrir augum, að kirkjan yrði að lengd og stærð eins og konungskirkjan, þá fannst konungi nóg um stórhug bónda og lét saga af viðunum, svo að kirkjan yrði minni en hans. Sama hefir vakað fyrir Claessen, er hann gerði samninginn við Copland. Af því að árslaun Claessens voru 40 þús. kr., mátti Copland ekki reikna sjálfum sér nema 35 þús. kr. í kaup á ári. En af Copland er það að segja og þessu nýja fyrirtæki hans, að hann greiddi hvorki 1/2 milljónina eða 125 þús. krónurnar. Í febr. 1931 varð Copland gjaldþota, og tapaði Íslandsbanki þá öllu, sem hann átti hjá honum, og er sú upphæð talin að nema 704 þús. króna. En allt tapið, sem bankinn hefir orðið fyrir vegna Coplands og félaga hans, er 3250 þús. kr. og er það 1/6 hluti allra afskrifta bankans.

Þegar Copland hefir verið gefið upp 1/6 af því, sem bankinn hefir tapað á samskonar fólki, sem allt eru íhaldsmenn, og töpin nema alls um 20 millj. króna, er öll þjóðin sýpur nú seyðið af, sýnir það bezt, hvað íhaldinu hefir orðið hált á þessu svelli.

Minn tími er nú þrotinn að þessu sinni, en seinna í kvöld ætla ég að segja frá fleiri feitum kúm, sem íhaldið hefir beitt á engi sitt.