03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

55. mál, ríkisskattanefnd

Hannes Jónsson:

Hv. 2. þm. Skagf. var að ráðleggja mér um það, hvenær ég ætti að finna að við ráðherra og hvenær ekki. Ég get nú sagt hv. þm. það, að ég mun aldrei fara í smiðju til hans með slík efni. Ef til vill hefir hann meint það, að ég hafi látið vera að finna að við sig, þegar hann var ráðh., en ég get sagt honum það, að það var fyrir það, að þá var ég ekki kominn á þing og hafði því ekki aðstöðu til þess að finna að við hann, þó tilefni væru nóg. Hann er svo langt frá því að vera óskeikull, þessi hv. þm., og gæti ég því til sönnunar minnt hann á, að í sinni ráðherratíð gaf hann úrskurð, sem fór í bága við gildandi lög. Ef á að skilja hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Skagf. svo, að þeir treysti ekki stj. til þess að úrskurða um þau atriði, sem nú á að leggja fyrir þessa væntanlegu n., þá skil ég svo vel, að þeim þyki ástæða til þess að setja hana á stofn. — Ég hefi svo reyndar ekkert fleira að segja fram yfir það, sem ég tók fram í ræðu minni áðan. Hæstv. ráðh. taldi það fjarstæðu að ætla, að kostnaðurinn færi fram úr því, sem hann áætlaði. Ég hefi nú tekið eftir því á undanförnum árum, að ýmsir liðir hafa sífellt farið fram úr áætlun stj., og ýmsir nýir útgjaldaliðir; sem ekki áttu að verða dýrir, hafa orðið margfaldir.

Ég geri ráð fyrir því, að ef stj. ræður menn til þessara starfa, þá geti hún ekki tekið þá meðal atvinnuleysingjanna á götunni. Þeir verða sennilega teknir úr hópi þeirra manna, sem ekki lúta að litlu og hafa ótal leiðir opnar til góðra launa fyrir störf sín.

Það hefir verið reynslan, þó ekki hafi verið um að ræða nema óbreytt störf fyrir ríkið, að þá hafa þau yfirleitt orðið ærið dýr, og miklu dýrari en föstu störfin. Ég hefi enga tröllatrú á áætlunum ráðh. um kostnaðinn. Það er ekki hægt að ætlast til mikils starfs af manni fyrir 1 þús. kr., og varla að ætla, að ekki meira starf gefi mikinn árangur á svo yfirgripsmiklu sviði, og ég hefði haft gaman að heyra, hvað hæstv. ráðh. ætlast til, að n. starfi lengi á ári fyrir þetta kaup. Líklegt er, að ekki megi draga lengi að úrskurða þær kærur, sem henni berast, og eðlilega virtist hún þurfa að vera sífellt á verði, til að líta eftir með yfirskattanefndunum um land allt.

Ég læt mig engu skipta það mat, sem hæstv. ráðh. vildi gera á okkur hv. þm. Borgf. hér í deildinni og heima. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann hafi nein tök á því að breyta því mati, svo það komi lítið þessu máli við. En hæstv. ráðh. má vita það, að ég læt ekki undir höfuð leggjast að finna að við hann, þegar mér finnst till. hans aðfinnsluverðar eða að hann ekki fari með rétt mál hér í þessum sal.