03.03.1932
Neðri deild: 19. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

55. mál, ríkisskattanefnd

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég get ekki neitað því, að það eru ólíkar undirtektir okkar minni hl. fjhn. við þetta frv. eða þeirra tveggja hv. þm., sem talað hafa á móti því. Við vorum frv. hlynntir og lofuðum því stuðningi, þegar það væri tímabært, en hinir eru því algerlega mótfallnir. En ég tel þetta frv. ekki tímabært nú.

Hæstv. ráðh. hefir svarað okkur því, að þeir, sem væru á móti svona n. á erfiðum tímum, mundu vilja leggja hana niður æfinlega þegar harðnaði í ári. — Ég held, að þetta sé röng ályktun hjá hæstv. ráðh., sem hann sannaði raunar bezt sjálfur, með því að gera ráð fyrir minni ferðalögum nefndarinnar í slæmu árferði. En ég held einmitt, að ef þessi n. verður sett á stofn nú, þá þurfi að leggja mikið í kostnað við hana einmitt í byrjun, meðan verið er að koma eftirlitinu af stað. Svona stofnanir eru æfinlega langdýrastar í fyrstu, og ég held, að annað sé óhugsandi með þessa nefnd. Þess vegna verð ég að telja þessa tíma óheppilega til þess að setja hana á stofn.

Hæstv. fjmrh. hefir í fjárlfrv. sínu áætlað, að tekjuskatturinn muni nema um 900 þús. kr. Ég býst við, að það sé sá skattliður, sem mest orkar tvímælis um og mestum skakkaföllum kunni að sæta. Það eru ekki kauptekjurnar, heldur atvinnutekjurnar, sem ég álít, að muni orka mest tvímælis, en það er einmitt þessi skattur, sem n. er áætlað að samræma. Af þessari ástæðu einnig verður að telja, að þetta mál sé ekki tímabært nú.

Ég get vel skilið það, að hæstv. ráðh. er dálítið bráðlátur með þetta frv. og að hann tekur ekki þegjandi þeim mótbárum, sem fram hafa komið, en hinsvegar má honum vera það raunaléttir, að þetta frv. fær fylgi þegar betur horfir en nú, og við það ætti hann að sætta sig.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á algengasta fyrirbrigðið hér á Alþingi, þegar verið er að ræða um nýja kostnaðarliði, að þá eiga þeir alltaf að kosta svo sem ekkert. Sumar áætlanir, sem gerðar hafa verið í þessum tilfellum, eru jafnvel glæpsamlegar. Ég minnist þess, þegar mþn. í berklavarnarmálinu lagði fram álit sitt um það, að kostnaður af því frv. mundi ekki nema nema nokkrum tugum þús. kr. Eða þegar verið var að ræða um skiptingu embættanna í Reykjavík, þá átti þetta ekkert að kosta. En reynslan í þessum málum hefir nú orðið æði mikil önnur.

Ég vil ekki væna hæstv. ráðh. um það, að hann vilji svíkja þetta mál hér inn á þingið, en ég vil segja það, að mér finnst ástæðulaust af honum að vera að gylla frv. eins og hann gerir. Mér skilst verkefni n. eigi að vera svo mikið, að hún muni þurfa miklu hærri laun til þess að geta starfað nokkuð að raði. Og þar sem megingagn af störfum n. á að felast í því, að hún þarf að taka sig fram um ráð að hafa eftirlit með störfum yfirskattanefnda og framtölum yfirleitt í landinu, þá liggur það í augum uppi, að þetta er mikið starf. Mér þykir ekki ólíklegt, að bráðlega þurfi að borga hverjum fyrir sig eins og nú á að borga þeim öllum. Látum svo vera, að hægt verði að hafa hemil á útgjöldum til ferðalaganna. En þegar litið er á það, að n. á að samræma framtöl á öllu landinu, yfirfara alla úrskurði yfirskattanefnda og breyta heim, ef henni sýnist, þá er það auðseð, að þessa n. verða að skipa mjög færir menn, sem þyrftu að starfa lengi á hverju ári og hafa skrifstofu með mörgum starfsmönnum. Mig langar ekkert til þess að verða spámaður í þessu máli, en þó hefi ég gaman af að festa í þingtíðindunum fyrir 1932 þá ágizkun, að kostnaður af þessu frv., ef að lögum verður, muni bráðlega nema tugum þús. króna. Það má náttúrlega segja, að það sé ekki svo mikið, ef n. geri verulegt gagn. Hæstv. ráðh. ætlar að róa hv. þm. með því, að ferðakostnaðinn megi takmarka í fjárlögum, en það eru nú dæmi deginum ljósari með það, hvernig slíkt gengur, t. d. með utanfararkostnað ráðherra, sem alltaf fer fram úr áætlunum á hverju ári. Ég hygg, að sú verði reyndin með ferðakostnað n., að ríkissjóður megi gera sér að góðu að greiða eftir á það, sem krafizt verður, og annað þýði ekki. N. er skipað að vinna starfið, og ríkissjóður verður að borga. Ég skal ekki neita því, að n. kunni að geta eitthvað dregið úr starfskostnaðinum ár og ár, þegar illa lætur, eftir að hún er almennilega komin á laggirnar, en ég tel það mjög vafasamt.

Að lokum vil ég benda hæstv. ráðh. og hv. þd. á það, að það er eðlileg stefna, að vera gætnari í fjármálasökum á erfiðum tímum en ella. á góðu árunum vill það brenna við, að menn verða helzt til bjartsýnir og ganga lengra í eyðslu á opinberu fé en góðu hófi gegnir, en það ætti að verða til þess að kenna mönnum að breyta til á erfiðum tímum.