08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

55. mál, ríkisskattanefnd

Magnús Guðmundsson:

Ég stend ekki upp til þess að mótmæla þessum brtt. frá meiri hl. fjhn. Ég vil aðeins gera grein fyrir mínum skilning á annari brtt., við 9. gr. frv., og hann er sá, að þegar engin fjárveiting er tekin upp í fjárlög til greiðslu kostnaðar við störf ríkisskattan., þá er ekki ætlazt til þess, að n. starfi eða að þessi lög komi til framkvæmda.

Og ég vil sérstaklega undirstrika það, að ef engin fjárveiting í þessu skyni verður tekin upp í fjárl. fyrir árið 1933, þá getur þingið ekki ætlazt til þess, að n. taki til starfa, þó að þetta frv. verði að lögum, og ekki fyrr en sú fjárveiting er fyrir hendi, sem sýnir vilja þingsins í málinu.