07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

55. mál, ríkisskattanefnd

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég þakka meiri hl. n. fyrir till. hennar í þessu efni. Það getur varla verið ágreiningur um það, að það muni vera til bóta að færa úrskurðarvald í skatta- og útsvarskærum í hendur slíkrar n., og frv. er þannig úr garði gert, að einmitt fleiri slíkar kærur mundu koma fram, ef frv. yrði að lögum. Löggjöfinni er nú svo háttað, að ýmsar kærur, sem mér hafa borizt í hendur, sumpart „prívat“ og sumpart opinberlega, eru þannig vagnar, að ómögulegt er að sinna þeim. En n. með þessu valdi, sem um hefir verið talað, gæti rannsakað þessi mál til hlítar og breytt úrskurði yfirskattan., þó ekki hafi komið fram kærur frá málsaðilum, Ég hirði ekki að nefna nein einstök nöfn þessu til sönnunar, heldur get aðeins um þá staðreynd, að meiri skattur hefir náðst vegna aðgerða skattstjórans. Ríkisskattan. á, með aðstoð skattstjórans í Reykjavík, að koma samræmi á skattframtöl um land allt. Er það bæði nauðsynlegt vegna ríkisins og eins vegna skattþegnanna, því að rétt er, að ein lög gangi yfir alla. Og þeir menn, sem telja það höfuðnauðsyn, að atkvæðisrétturinn sé jafn fyrir alla, hvar sem er á landinu, ætu að viðurkenna, að það gildir ekki síður um þá reglu, sem tekju- og eignarskatturinn er reiknaður eftir. Leiðbeining og eftirlit um þetta er því nauðsynlegt. Skattstjórinn, sem ráðunautur nefndarinnar, verður að vísu aðalmaðurinn. — Það má nú kannske segja, að fjmrn. geti sent slíkan mann út um land til eftirlits og leiðbeininga. En þá verður líka kostnaðurinn við ferðalögin samur og jafn við það, sem hann verður, ef frv. er samþ. það er því ekki sparnaður að fella frv., nema því sem nemur launum sjálfrar skattanefndarinnar. En sé það gert, þá skortir það úrskurðarvald, sem n. er ætlað að hafa og þörf er á. Þótt frv. verði samþ., þá býst ég nú ekki við, að eytt verði miklu fé í ferðakostnað á fyrsta ári, eða meðan þröngt er í búi. Þó n. væri leyft að ferðast eða senda umboðsmann sinn, þá yrði aðeins um það að ræða, að senda sérfræðing til þeirra ferða, og þó ekki nema takmarkað. Skattstjórinn væri vitanlega tilvalinn til slíkra ferða, en það væri vitanlega aldrei langur tími árlega, sem hann mætti missa sig frá störfum sínum hér. Þetta er að vísu ekki hægt að nefna í frv. Og n. hefði óskorað vald um, hvern hún sendir. Skattstjórinn er aðeins einn af hennar undirmönnum. Ef n. álítur hann góðan til þessa starfs, þá er vitanlega sjálfsagt fyrir hana að senda hann. Ég veit það, að skattstjórinn, sem nú er, nýtur mjög mikils trausts um sína starfsemi, bæði hjá flokksmönnum sínum og eins mönnum úr mótstöðuflokkum. Ég hefi heyrt suma hina stærstu gjaldþegna hér í bænum bera honum hið bezta orð. Telja þeir, sem líka er rétt, að hann vilji ávallt gera hið sannasta og réttasta, hver sem í hlut a. Er slíkt gott, þar sem þó dómar um menn og starf þeirra eru venjulega pólitískir.

Ég skal láta í ljós, að viðvíkjandi því atriði, að n. er gefið vald til að breyta ályktunum skattanefnda án þess yfir sé kært, þá hefi ég ekkert á móti því, að þetta sé orðað öðruvísi, eða ákvæðinu sé breytt líkt og hv. 1. landsk. talaði um, enda hefi ég talið rétt, að þær breyt., sem þannig væru gerðar, væru áður bornar undir viðkomandi skattanefndir. Frv. sýnir, að til þessa er ætlazt, en rétt má vera, að taka beri það skýrara fram. En allt veltur á því, að n. hafi óskorað úrskurðarvald, eins og tíðkast í Danmörku og víðar. Hitt er mér ekkert kappsmál, hvað tekið er fram í lögunum um samband skattþegna og n., en sjálfsagt er að gera öllum sem hægast fyrir. Um þetta á enginn ágreiningur að vera, þar sem heldur enginn ágreiningur er um, að n. hafi úrskurðarvald og leiðbeiningastarf með höndum.

Þá kem ég að kostnaðinum. Ég hefi ekkert amazt við, að hann væri ákveðinn í fjárl., enda er svo fyrir lagt í frv. Ég hefi áður við umr. um þetta mál sagt, að ég teldi 1200 kr. laun að meðaltali hæfilegt á hvern mann í ríkisgjaldan. En vilji Alþ. fullbinda þetta, þá er rétt, að fjvn. taki það atriði til athugunar. Ég hefi hugsað mér, þegar svo væri komið, að sýnt væri, að frv. þetta mundi ganga fram, að leggja til við fjvn., að hún ætli 5–6 þús. kr. til þessa. Á erfiðum tímum er þetta nóg. En þegar batnar í ári og fastar verður gengið að framkvæmdum, þá má leggja fram meira starf í þetta.

Hv. 1. landsk. sagði, að ekki væri rétt á krepputímum að stofna til slíkra útgjalda sem þetta væri. En ég segi, að á slíkum tímum sé rétt að stofna til tekjuauka, eins og ég álít, að þetta frv. sé En slíkt fær nú litlar undirtektir hér, og á þeim grundvelli mætti máske standa á móti því hér, þótt sú ástæða hafi að vísu ekki enn verið notuð. En það væri réttara „argument“. Ég þekki engin útgjöld, sem hafa orðið til meiri tekjuauka fyrir ríkissjóð heldur en þau útgjöld, sem fóru til þess að stofna skattstofuna fyrir fjórum árum. Þau útgjöld hafa fært ríkissjóði tugi eða jafnvel hundruð þúsunda í auknum skottum. Þegar nú framkvæmd tekju- og eignarskattslaganna er orðin föst hér í Reykjavík, þá er einnig rétt að koma þeim málum í fast horf um land allt. Annars verður um misrétti að ræða gagnvart Reykjavík. Þeir, sem oft tala um jafnrétti þegnanna og ranglæti, sem sýnt er Reykjavík, ættu að vera með þessu frv. Ég hefi einmitt lagt það til, bæði í Nd. og hér, að frv. þetta verði samþ., vegna þess að það gefur auknar tekjur í ríkissjóðinn, sem á krepputímum er sérstök þörf fyrir. En í þessu felst líka réttlæti, sem ávallt á við.