07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1273)

55. mál, ríkisskattanefnd

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég get allvel sætt mig við þær undirtektir, er frv. hefir fengið, og ég mun ekki láta það bregðast að gera ráðstafanir til þess, að útgjöld þau, er af því stafa, komi í fjárlög, og má ætla, að þinginu sé ljúft að samþ. litla fjárhæð í því skyni, því það er vist, að hér verður um tekjuauka að ræða.

Það, sem mest skortir á nú, er, að leitað sé að og vandlega gengið eftir öllu, sem skattskylt er. Ýmsir hafa legið á því laginu að gefa ekki upp, þegar þeir hafa getað búizt við, að á þá yrði lagt minna með því móti. Þeir hafa reiknað með því, að skattanefndir myndu reyna að sýna þeim sanngirni, en yrði hinsvegar ekki nógu kunnugt um raunverulegan hag sinn, til að taka tillit til allra eigna og tekna. Slíka linkind þarf að koma í veg fyrir, og það er auðveldast með því að hafa eftirlitið í höndum manna, er búa fjarri og standa ekki í persónulegum kunningsskap við gjaldþegnana. Það er alkunnugt, að frá því að útlendingar fyrst fóru að setjast hér að og allt fram á síðustu tíma, þá hafa þeir legið á því laginu að hóta að hverfa burt úr héraði með allan sinn atvinnurekstur, ef þeir fengju ekki að ráða sköttum sínum sjálfir. Sá aukni kostnaður, sem orðið hefir við skattstofuna hér í Reykjavík, hefir aðallega stafað af auknu starfi við að sjá um að allt komi í leitirnar. Það hefir mikill árangur orðið að þeirri leit, og því þarf að halda vel við. Og þetta þarf að reka annarsstaðar eins og hér.

Það er nauðsynlegt, að vald ríkisskattanefndar sé svo víðtækt sem frv. gerir ráð fyrir. En það kann að mega ákvarða það nánar en frv. nú gerir. Það er ekki einungis gegn einstökum mönnum, sem því þarf að beita; það getur orðið nauðsynlegt að beita því gegn öllum gjaldþegnum í heilum hreppum.

Mér varð það á áðan að hæla einum starfsmanni ríkisins. Það er þó fátítt, að slíkum mönnum, sem sitja við ríkisjötuna og naga sína bita þar, sé hælt, og eru þeir þó margir, sem eiga þakkir skildar fyrir störf sín. Af því að nokkuð þurfti að draga úr því lofi, þá vil ég nefna annan starfsmann, sem heyrir undir mitt ráðuneyti, tollstjórann í Reykjavík, sem ég vil lofa líka. Mig langar til að vita, hvort eitthvað þarf að draga úr því lofi líka. Ég ber ekki brigður á, að það geti hent skattstjórann að gera skekkjur. Það er mannlegt og erfitt að standa í þeirri stöðu án þess að slíkt komi nokkru sinni fyrir. En ég vil fullyrða, að þó honum verði slíkt á um einstök atriði, þá er það ekki af ásetningi. Ég er sannfærður um, að hann vill ávallt komast að réttri niðurstöðu, og hefir þar engin aukasjónarmið óviðkomandi sínu starfi. Það var þetta, sem ég vildi segja, en ekki hitt, að hann væri óskeikull.