05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

1. mál, fjárlög 1933

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég á hér aðeins 2 brtt. á þskj. 612, báðar við 15. gr.

Fyrri brtt. er um það, að veittar verði 1000 kr. til bókasafns Hafnarfjarðar. Ég bar fram á sumarþinginu till. í þá átt, að þetta bókasafn skyldi njóta jafnmikils styrks og bókasafnið á Akureyri og Ísafirði, svo að unnt væri að halda þar opinni lesstofu, en sú till. náði ekki fram að ganga. Nú fer ég fram á 1000 kr. fjárveitingu, svo að safnið gæti þó verið opið dálítið lengur en verið hefir, eða þá eignazt fleiri bækur en annars gæti orðið. Mér finnst þessi till. vera borin fram af fullri sanngirni, því að þar er farið fram á minni upphæð en ætla mætti, að fjárveitingavaldið vildi láta af hendi rakna. Ég hefi samt ekki viljað fara lengra en þetta, því að undirtektirnar undir þetta mál voru svo daufar á síðasta þingi. Til samanburðar má geta þess, að bókasafnið á Seyðisfirði, sem er miklu minni kaupstaður en Hafnarfjörður, fær 8000 kr. styrk, svo að það er fullkomlega rétt, að bókasafn Hafnarfjarðar fái 1000 kr. — Í síðari liðnum, sem ég hefi borið fram, er farið fram á 1200 kr. styrk til útgáfu 20 arka af þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá. Svo er mál með vexti, að félag nokkurt tók að sér að gefa út þetta safn, en varð að hætta því vegna fjárhagsörðugleika. í fjárlögum fyrir 1931 var veittur 1500 kr. styrkur til að gefa út eitt hefti af þessu riti. Þess vegna var það, að maður í Hafnarfirði, Þorvaldur Bjarnason kaupmaður, tók að sér að gefa þetta rit út í þeirri von, að styrkurinn yrði veittur áfram, a. m. k. að einhverju leyti. Hann hefir nú gefið út eitt bindi fyrir þennan 1500 kr. styrk, sem veittur var í fjárl. fyrir 1931, en útgáfan kostaði um 4500 kr. Sú styrkveiting var bundin því skilyrði, að jafnmikill styrkur kæmi annarsstaðar að, en eins og hv. þdm. sjá, þá hefir það framlag verið tvöfalt á við það, sem ríkissjóður lagði til. — Þetta safn er mjög merkilegt eftir því sem Matthías Þórðarson segir. Hann segir, að það muni vera eitt hið allra merkasta þjóðsagnasafn á Norðurlöndum. Og þegar sá maður, sem jafnmikið skyn ber á þessa hluti og þjóðminjavörður Íslands, lætur þannig um mælt, þá vænti ég þess, að Alþingi sjái, að því ber að styrkja þessa tilraun, sem gerð hefir verið til að gefa út þetta safn, og því fremur sem það hefir ýtt undir þennan mann að byrja á útgáfunni. Það er því siðferðisleg skylda Alþingis að veita nokkurn styrk í þessu skyni, svo að útgáfan geti haldið áfram og maðurinn þurfi ekki að bíða fjárhagslegt tjón. Útgefandinn hefir farið fram á að fá 1500 kr. styrk, jafnháa upphæð og áður var veitt í þessu skyni, en þar sem ég hefi séð, að hv. fjvn. hefir verið að klípa af ýmsum fjárveitingum, jafnvel til þess, sem gott er og nauðsynlegt, þá hefi ég ekki farið fram á hærri upphæð en þetta, því til frekari tryggingar, að hv. d. fallist á till. Ég vona því, að hv. d. taki vel í þetta mal, þar sem þessi maður byrjaði á útgáfunni eingöngu í því trausti, að styrkveitingin væri ekki látin falla niður, og þar sem Alþingi hefir líka með styrkveitingunni frá 1931 viðurkennt þessa starfsemi.