15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

169. mál, verksmiðja til bræðslu síldar

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég vil minna á, að á fyrri þingum hefir afstaða okkar sjálfstæðismanna um skipun stj. verksmiðjunnar verið sú, að þeir, sem skipta aðallega við þetta fyrirtæki — en það eru útgerðarmenn —, réðu mestu um stjórnarskipunina. En eins og kunnugt er, hefir þessu ekki fengizt framgengt, og get ég því fallizt á fyrir mitt leyti, að ríkisstj. beri allan veg og vanda af þessu fyrirtæki, bæði um skipun stj. og rekstur verksmiðjunnar yfir höfuð.

Annars vil ég nota tækifærið og beina fyrirspurn til hæstv. atvmrh. um afkomu þessa fyrirtækis, og hvort ekki hafi sannazt það, sem ég sagði í vetur, að tapið á verksmiðjunni 1930 mundi nema um 400 þús. kr. með því, sem eftir stendur ógreitt af lögboðnum gjöldum til ríkissjóðs. Ég skal játa, að ég hefi ekki séð reikninga þessa fyrirtækis, en geri þó ráð fyrir, að ég reynist sannspár um þetta.