04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég er ekki eins gamall í hettunni og sumir aðrir, sem hér eiga hlut að máli, enda mun ræða mín mótast af því. Ég sat í stjórninni 4 síðustu mánuði ársins 1931, og síðan þá 3 mánuði, sem liðnir eru af þessu ári. Ég gæti því sagt ýmislegt um ástandið eins og það hefir verið á þessum tíma. Sumt af því, sem komið hefir í minn hlut að láta greiða utan heimilda, hefir mér verið sjálfrátt, en flest þó ósjálfratt. ósjálfrátt hefir t. d. fallið á mig sem fjmrh. að standa straum af því, að fallið hefir á ríkissjóð ábyrgð á fiskiveiðahlutafélaginu Kára, að upphæð nálægt 200 þús. kr. Að vísu skal ég kannast við, að af þessari upphæð er ekkert greitt enn annað en vextirnir. Þegar Jón Þorláksson var fjmrh. og Íslandsbanki setti að skilyrði fyrir nýjum lánum handa h/f Kára, að ríkið færði veðrétt sinn aftur fyrir veðrétt bankans, þá var ég einn, sem studdi þetta, og gerði ég það í þeirri von, að ef Kári gæti haldið áfram, mundi helzt einhver von um, að ríkið fengi sitt. En eins og sakir stóðu þá, var ljóst, að veðréttur ríkisins var einskis virði, ef félagið hefði orðið að hætta. Nú hefir þessi von brugðizt, félagið gefizt upp og ábyrgðin fallið á ríkissjóð. Sem stendur er ekki hægt að greiða skuldina upp, hún hefir færzt yfir á ríkissjóð, og verður vart annað greitt af henni en vextirnir fyrst um sinn.

þó að hv. 2. þm. Skagf. segi, að ríkið eigi erfitt nú með skyldugreiðslur sínar, þá er ástandið ekki verra en þekkzt hefir stundum áður. Lausaskuldir ríkisins eru minni nú en þær voru í septembermánuði. Nú skal ég ekki vekja neinar tálvonir, þótt ég segi, að lausaskuldirnar séu minni en í september. En ástandið er ekki verra en þetta, og í september var búizt við lakara ástandi, þegar fram á árið kæmi, en raun hefir enn á orðið.

Það hefir verið mikið talað um sparnað og allir sammála um, að nauðsyn beri til að viðhafa hinn allra mesta sparnað á sem flestum sviðum. En svo hefi ég framið þá óhæfu í sambandi við sparnaðartalið, að benda á, að ríkissjóður þurfi á nýjum tekjuauka að halda. Og þó hefi ég í þessu efni ekki gert annað né meira en fjmrh. íhaldsflokksins gerði á þinginun 1924. Þá bað hann um stóran tekjuauka, vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs, og var þó kreppan þá ekki neitt svipuð þeirri, er nú gengur yfir. Og fjmrh. íhaldsins fékk á þinginu 1924 storan tekjuauka, er sum árin hefir gefið ríkissjóði um 3–4 millj. króna. Og þennan tekjuauka fékk fjmrh. með aðstoð Framsóknar, en þakkarskuldin fyrir þá hjálp er enn ógreidd. Minni ég á þetta til þess að benda hv. íhaldsmönnum á, að nú er tækifæri að greiða þá þakkarskuld að hálfu.

Það er að vísu satt, að á þinginu 1926 voru tekjur ríkissjóðs lækkaðar til muna, en ekki var það gert fyrir forgöngu stjórnarinnar. Hún vildi halda tekjunum óbreyttum, en treysti sér ekki til að standa á móti, er ein aðalnefnd þingsins beitti sér fyrir lækkuninni. En síðar kom 5 daginn, að tekjurnar hefðu ekki átt að lækka svo mikið, því að tekjuhalli varð um 200 þús. kr. á ríkisrekstrinum hjá þáv. fjmrh., Jóni Þorlákssyni. Og næsta ár, 1927, varð tekjuhallinn 11/2 millj. kr., og svaraði sú upphæð til þess, sem tekjurnar voru lækkaðar 1926. Afleiðingin af þessu varð sú, að gripið var aftur til hinna sömu tekjustofna á árinu 1928 og fært í sama horf og áður. Við þessa tekjulöggjöf hefjr svo Framsókn búið síðan, eða þá sömu, er Jón Þorláksson bjó við í þrjú ár. Það er eins og menn haldi, að tekjulöggjöfin hafi gerbreytzt á þessum árum, af því tekjurnar hafa orðið meiri en nokkru sinni áður. En svo er ekki. Eftir því sem betra er í ári og tekjurnar meiri, því meira er þolið, starfsfjörið vex og framkvæmdir aukast, ekki aðeins af hálfu einstaklinga þjóðarinnar, heldur engu síður af hálfu ríkisins.

Nú hefir margt gerzt á síðustu tveim árum og kreppan færzt yfir okkur. Allri þjóðinni er ljóst, að það verður að vera stefnubreyting, en meginorsakirnar koma utanað. Það er hægt að fá menn til að gleyma fljótt því, sem gert hefir verið til bóta. En samansöfnuð þörf atvinnuveganna og sveitanna heimtaði, að mikið væri að gert. En allt kostaði peninga. Ef ætti að telja allt, sem gert hefir verið, þá tæki það langan tíma. En það er auðvelt að fá menn til að gleyma lífsgæðunum og muna kostnaðinn einn.

Og nú eru þeir tímar komnir yfir okkur alla, að óhjákvæmilegt er að draga stórlega úr útgjöldum ríkisins. Því verður ekki neitað, að útlitið á yfirstandandi ári er hörmulegt. Það er búið að semja fjárlög fyrir þetta ár og margt bundið við það, sem þar er ákveðið. Stjórnin verður að taka afleiðingunum af þeim ákvörðunum, sem teknar voru í fyrra. Mér er ekki um að kenna, þó að ég sé bundinn við að inna þau gjöld af höndum, sem þing og ríki hafa lagt á sig á yfirstandandi ári. Það verður ekki hjá því komizt, að tekjur ríkissjóðs lækki á þessu yfirstandandi ári frá því, sem áætlað er í núgildandi fjárl. Hvað miklu sú tekjurýrnun nemur, verður ekki sagt með vissu, en sennilegt er, að það verði einhversstaðar á milli 11/2–21/2 millj. kr. Það verður því ekki komizt hjá að sjá ríkinu fyrir tekjum til að greiða það, sem bundið er í fjárl. þessa árs, án nokkurs varnagla frá þeim, sem heimta nú, að sparnaðurinn einn hrökkvi.

Ég hefi beðið um tekjuauka til þess aðeins að standa undir þeim gjöldum, sem lögbundin eru nú og greiða þarf á þessu ári. Ég hefi lagt fram frv. um verðhækkunarskatt af tóbaki, sem gefa átti um 200 þús. kr. En það hefir þegar verið drepið. Þó er mögulegt að ná sömu fjárhæð og mitt frv. hefði gefið, ef samþ. verður frv., sem hv. fjvn. hefir borið fram um að tekjur ýmissa stofnana o. fl. renni beint í ríkissjóð. Ég hefi lagt fyrir þingið frv. um hækkun á benzínskatti, sem áætlað er, að gefi um 250 þús. kr. umfram það, sem sá skattur gefur nú. En tvísýnt er mjög, að frv. þetta nái samþ. Ég hafði ætlað mér að leggja til, að viðbótarverðtollur væri lagður á allan óþarfa varning, sem til landsins flyzt, og mætti búast við, að það gæti gefið um 100 –200 þús. kr. tekjuauka á þessu ári, allt að 300–400 þús. kr. á næsta ári. Að síðustu skal ég nefna, að ég hafði ætlazt til, að tekjuskattur hækkaði um 20–25%, án þess þó að sá tekjuauki kæmi niður á atvinnuvegi landsmanna á þessu ári. Á síðastl. ári hefir enginn atvinnurekstur í landinu borið sig, nema ef vera skyldi verzlun. Sjávarútvegurinn hefjr ekki borið sig, landbúnaðurinn hefir ekki borið sig, en þessir tveir atvinnuvegir standa undir ríkissjóði og á þeim byggjast fastar tekjur rikjsins. Að auka beinu skattana hafa menn ekki komizt hjá neinsstaðar, hvorki íhaldsmenn, sósialistar né liberalir.

Þetta eru þá þau 4 tekjuaukafrv., sem ég hefði hugsað mér að bera fram, en ég set þau ekki fram öll fyrr en séð er um möguleika á afgreiðslu. Ef tekjulöggjöf þessi verður samþ., þá kemur það lítið við atvinnuvegi landsmanna, nema að því leyti sem það leggst á hann munað, sem menn leyfa ser, í hvaða mynd sem er, og auðvitað hvílir, eins og allt annað, á atvinnulífinu. Og það er fyrst og fremst óþarfinn og hátekjurnar, sem ber að skattleggja.

Þetta er þá það, sem ég hefi lagt til að verði gert. Ég hefi sagt hv. þdm. bæði nú og áður, að það er ekki hægt að komast af með sparnað einan saman — ekki hægt á yfirstandandi ári — vegna þess að gjöldin eru þegar lögbundin af þinginu sjálfu. Tekjulöggjöfin verður því að breytast; það verður að afla nýrra tekna, ef ekki á að verða fyrirsjáanlegur tekjuhalli á ríkisrekstrinum þetta ár.

Hvað viðvíkur árinu 1933, þá er allt laust og óbundið enn. Í fjárlfrv. því, sem ég lagði fyrir þingið, hefir verið reynt að draga gjöldin saman, svo að sparað er um 1 millj. kr. frá því, sem ætlazt er til, að greitt verði á þessu ári. En sparnaðurinn er ekki einhlítur, þó hann sé hæst á baugi á þingmálafundum og engar áskoranir samþ. um nýjar álögur.

Viðfangsefni okkar nú er ekki gamlar syndir, og sízt margra ára gamlar. Fortiðin verður að deyja, svo að framtíðin lifi og meira tillit verði tekið til hennar en þess, sem brotið kann að hafa verið áður.

Afleiðingar gengislækkunarinnar síðasta haust, sem hv. 2. þm. Skagf. var að tala um, spillir ekki útliti fjárlagafrv. Þar eru margar upphæðir svo bundnar, að þar verður engin hækkun þrátt fyrir gengisfallið. Gengisfallstímarnir eru betri fyrir það, að þá verður minna frábrugðið frá því, sem áætlað er. Út af fyrir sig er ég ekki hræddur við gengisfallið, enda hefir það farið svo um flestar nauðsynjavörur, að þær hafa ekki hækkað frá því í september.

Það eru engin undur, þó að farið sé fram á tekjuhækkun nú, þegar þess er gætt, að nú gilda sömu tekjulög og 1926, og lögbundnar greiðslur voru þá a. m. k. 2 millj. kr. lægri en nú, svo að þegar hér er farið fram á rúmlega einnar millj. kr. hækkun, sem gildi í 11/2 ár, til að jafna tekjuhalla þessa árs, þá sýnist það vera sú minnsta tekjuaukning, sem hægt er að komast af með, þegar litið er til þeirra laga og greiðsluheimilda, sem sett hafa verið síðan 1926, og ekkert útlit er fyrir, að þessar lögbundnu greiðslur verði að nokkrum mun lækkaðar. Frv. frá fjvn. er að vísu þakkarvert, en frekari niðurskurður er alþingiskjósendum viðkvæmt mál, og hv. þm. þá auðvitað líka. Þess verður að gæta í umr. okkar um sparnaðarmöguleikana.

Það má að vísu segja á þessum tímum, að ríkið hefði átt að eiga geymslufé frá fyrri árum, og það má eins segja, að einstaklingsfyrirtækin hefðu átt að eiga geymslufé og sama má segja um aðrar þjóðir, að þær hefðu átt að eiga nægan forða frá góðu árunum, svo að ekki þyrfti að leggja skatta á í vondum árum. En hver er reynslan? Atvinnuvegnirnir standa sig illa hvert sem litið er, og sama er að segja um ríkin og þeirra fjárhag. Kreppan þjakar þau hvert með öðru, og þau verða að auka álögur stórlega þrátt fyrir ýtrasta sparnað. Nú er varla um annað rætt úti í löndum en þessa örðugleika, sem eru meiri en nokkru sinni áður síðan ófriðurinn mikli skall á. Það er að vísu rétt, að ef ríkin og einstaklingar hefðu safnað nægu fé á góðu árunum, þá væri kreppan ekki tilfinnanleg. Það er sjálfsagt gott ráð að búa svo um sig, að kreppnanna verði hvergi vart. En þarna erum við undir sömu syndina seldir og aðrir. Kreppan kom yfir aðrar þjóðir ekki síður en okkur, og aðrar þjóðir höfðu ekki safnað í sjóði fremur en við. Og þegar stærstu fjármálamenn heimsins hafa ekki gætt þessa, og þegar þeir sumir hverjir, sem byggt hafa upp fyrirtæki sín í góðærinu, í staðinn fyrir að bjarga öllu gegnum kreppuna, senda kúlu gegnum höfuðið á sér, þá er ekki að undra, þó að við, þessi smáþjóð úti á Íslandi, verðum fyrir barðinu á kreppunni.

Það má segja, að þetta sé sök skipulagsins, eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði, en því verður ekki kennt hér um að öllu leyti. Það er manneðlið, sem kemur hér ekki síður til greina. Það mun vera samfara hverju skipulagi ýmist vont eða gott. Skipulagið eitt getur ekki fullkomnað eða tryggt atvinnureksturinn. Við höfum haft samvinnurekstur um kjötið, á síldinni ríkisrekstur, á fiskinum einstaklingsrekstur. Hvernig hefir svo farið um þetta allt? Hefir hin almenna verðlækkun ekki komið yfir þetta allt saman? Er þá skipulagsleysinu einu um að kenna? Nei, hér kemur ekki skipulagið eitt til greina, heldur er hað hin utanaðkomandi og aðvífandi kreppa, sem veldur mestu. Sú verðlækkun, sem skapazt hefir í heiminum, er komin yfir okkur. Hún hefði komið, hvaða skipulag, sem verið hefði ríkjandi og afleiðingunum verðum við að taka. Við höfum gert ýmsar varnarráðstafanir, lagt höft á innflutning á ónauðsynlegum vörum, og hefir lítið verið um það deilt. Það hefir verið reynt að setja skipulag á ráðstafanir á gjaldeyrinum, sem ekki hefir verið um kvartað, enda var það gert af algerðri nauðsyn. Í fjárlögum hefir verið reynt að skera sem flest niður, um eina milljón í stj.frv., og fjvn. hefir reynt að skera niður og komizt upp í 350 þús. í till. sínum.

Við þurfum að haga okkar verzlunarpólitík með tilliti til breyttra aðstæðna. Við þurfum breyttan „struktur“ í viðskipta- og atvinnulífi. Iðnaður fyrir innlendan markað þarf að færast í aukana. Við þurfum að framleiða sem mest af því, sem við notum sjálfir, t. d af fatnaði, skóm o. þ. h. Þar má mest að gera til að létta viðskiptaerfiðleikana til frambúðar.

Ræðutími minn er á enda, og skal ég ljúka máli mínu. En að endingu vil ég aegja það, að nú kallar hin mikla nauðsyn þjóðarinnar á okkur, og hún heimtar sparnað, og hún heimtar þá skattaauka, sem nauðsynlegir eru fyrir afkomu ríkisins. Hún heimtar lausn á þeim viðfangsefnum, sem nú eru á dagskrá, og munu ráðstafanir þingsins geta átt drjúgan þátt í að hjálpa okkur út úr kreppunni, ef skynsamlega er á haldið.