05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

1. mál, fjárlög 1933

Magnús Torfason:

Ég er við riðinn 2 brtt. á þskj. 612. Í annari till., sem er sú VI. á þessu þskj., er farið fram á að veita Guðmundi Jónssyni frá Stokkseyri 1000 kr. til að ljúka vélfræðinámi í ÞýzkaIandi. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þessa till., en vil aðeins geta þess, að fyrir Alþingi hafa legið skjöl snertandi þennan mann, sem sýna, að hann fær þau beztu meðmæli, sem hægt er að hugsa sér frá kennurum sínum, þýzkum prófessorum í vélfræði. Ennfremur vil ég benda á, að hann hefir tekið 2 próf í þessari vélfræði, en þessir góðu kennarar skora fast á hann að auka enn á nám sitt og taka fullnaðarpróf, svo að hann geti staðið hverjum manni á sporði í þessari grein.

Það nám, sem þessi maður hefir stundað, er aðallega um dieselvélar. Menn vita, að þær vélar eru sparneytnari en aðrar vélar, sérstaklega að því leyti, að til þeirra má nota lakari olíu en til annara véla. Þetta eru þau fræði, sem fáir menn hér á landi hafa numið til þessa til fullnustu. Ég verð því að líta svo á, að nú, þegar menn vilja efla innlenda iðju, og sérstaklega þegar ástæður sjávarútvegsins eru ekki betri en nú er, þá sé þörf á, að allt, sem til hans þarf, sé sem ódýrast og hagkvæmast. Þessi styrkur, ef hann væri veittur, mundi því margborga sig.

Þá vil ég og geta þess, að faðir Guðmundar, Jón Sturlaugsson, hefir kostað hann að nokkru. En hann hefir att við mikla erfiðleika að stríða. Börn hans hafa verið veik, þó ekki eins mörg nú og í fyrra. Afli hans á vertíðinni varð lítill í verði eins og hjá flestum öðrum. Af þessum ástæðum sér hann sér ekki fært að styrkja son sinn eins og með þarf, þar sem það er líka nú mjög dýrt að stunda nám í Þýzkalandi. Það má líka vel minna á það, að þessi maður hefir bjargað flestum mannslífum af öllum heim mönnum, sem nú eru uppi á Íslandi. Ég vænti því, að hv. þd. líti með sömu velvild á þessa till. og hún gerði í fyrra.

Þá er hin till., sem er síðasta till. á þessu þskj. Þar er ekki farið fram á neitt fjárframlag, heldur er það aðeins viðbót við till. um athugun Flóaveitunnar, þar sem á að koma því til leiðar, að gjöldum verði jafnað niður á menn á áveitusvæðinu, svo að ríkissjóður geti fengið þar það fé, sem hann á rétt á. Í þessari till. er ætlazt til, að sömu menn og þetta starf eiga að vinna, athugi einnig fjárhagsástæður Mjólkurbús Ölfusinga og sendi stj. skýrslu þar um. Annað er ekki farið fram á. Ég skal bæta því við, að hvorugur ráðherranna, sem um þetta eiga að fjalla, hafa neitt við þessa till. að athuga, og annar þeirra, hæstv. atvmrh., er henni meðmæltur. Ástæðan til þess, að þessi till. er fram komin, er sú, að Mjólkurbú Ölfusinga væri fyrir talsverðum hnekki vegna þess, hve óheppið það var með þann mann, sem stjórnaði búinu í fyrstu, jafnóheppið eins og Flóabúið var heppið með sinn mann. Þetta hefir haft þær eðlilegu afleiðingar í för með sér, að ýmsir, sem aður sendu mjólk sína til Ölfusbúsins, eru nú farnir að senda hana til Flóabúsins. Þess vegna kemur sú spurning upp, hvort Ölfusbúið geti lifað til lengdar. Þetta er það, sem þessi n. kæmi fyrst og fremst til með að athuga. — Ef hún kemst svo að þeirri niðurstöðu, að fyrirtækið sé lífvænlegt, þá er það tilætlunin, að hún hjálpi til þess, að búið fái sömu lánskjör og Flóabúið eða Mjólkurbú Eyfirðinga. Vandræði Ölfusbúsins stafa m. a. af því, að það fékk minna af sínum lánum með eins góðum kjörum og hin búin og með styttri afborgunartíma, en aftur á móti hefir það orðið að taka allmikið af víxlum, og allir vita, hversu erfitt er að velta þeim.

Þetta allt gerir það að verkum, að búið á örðugt með að standa Flóabúinu á sporði. Er því nauðsynlegt að hjálpa því til að fá betri lánskjör. — Ég skal lýsa yfir því í þessu sambandi, að það er alls ekki meiningin hjá þeim, sem að búinu standa, að það fái neitt eftirgefið af sínum skuldum. Hinsvegar vil ég geta þess, að komist n. að þeirri niðurstöðu, að búið verði að hætta, þá er ætlazt til, að hún komi með till. um það, hvað gera eigi við þetta fyrirtæki. Þarna eru mikil hús og miklar vélar. Get ég drepið á það, að komið hefir til mála, að þarna verði sett upp sútunarverksmjðja, sem er einkar þarft fyrirtæki, sem okkur tilfinnanlega vanhagar um hér í landi.

Ég vænti þá, að ég hafi með þessum fáu orðum skýrt tilgang þessarar till. svo greinilega, að menn villist ekki þar um, og sjái líka, að hér á ekki á neinn hátt að fara ofan í vasa ríkissjóðs.