14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1320)

27. mál, forkaupréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Ég held ekki, að þörf sé að svara þeim hv. þm. miklu, sem mælt hafa gegn frv. Hygg ég, að hv. þdm. muni hafa tekið eftir mótsögnunum í röksemdafærslu þeirra. Leggja þeir í öðru orðinu áherzlu á það, að það opni leið fyrir spekúlationum, en í hinu, að það undirbúi kommúnistískt skipulag. Held ég, að þetta tvennt geti illa samrímazt. Kemur mér á óvart, að jafnskilningsgóður maður og hv. samþm. minn skuli bera slíkt fram sem höfuðröksemd gegn frv. En um það, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að þinginu væri vansæmd að því að samþ. slíkt frv., verð ég að segja, að því væri þvert á móti vansæmd að því að taka þessu máli með skilningsleysi.

Hv. samþm. minn rifjaði upp gamlar væringar með okkur frá kosningafundum. Hélt ég, að hann væri búinn að stagast svo mjög á því, er hann fór með um mig persónulega á þessum fundum, að hann væri orðinn leiður á því. Var það ein höfuðröksemd hans þar, að ég væri kommúnisti. Hélt ég, að hann væri búinn að sjá, hve þýðingarlaust slíkt er, og að jafnvel okkar góðu Rangæingar láta ekki hræða sig með því einu, þótt þeim sé, ef til vill, kommúnisminn ekkert kær. Slík slagorð eru löngu útþvæld og áhrifalaus.