14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1478 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

27. mál, forkaupréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Pétur Ottesen:

Hv. frsm. meiri hl., 2. þm. Rang, bar fram þá spurningu í sambandi við það, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði, að þessi ákvæði gengju í berhögg við forkaupsréttarlögin frá 1926, hvort forkaupsrétturinn væri þá hreppsfélögunum ógreiði. Ég vil benda hv. frsm. á það, að samkv. þessum forkaupsréttarlögum eru aðrir aðilar, sem ganga á undan hreppsfélögunum um forkaupsrétt á jörðum. Ef jarðeigandi vill selja barni, kjörbarni, systkini eða foreldri jörðina, þá kemur ekki til greina forkaupsréttur ábúanda eða hreppsfélags. Ef þessu er ekki til að dreifa, á leiguliði forkaupsrétt, og er hreppurinn þannig 3. aðili. En með þessu frv. hefir hreppur eða kaupstaður alltaf forkaupsrétt framar öllum öðrum aðilum.

Í því tilfelli, að innan kaupstaðar séu sérmetnar jarðir, sem forkaupsréttarl. frá 1926 taka til, er það rétt hjá hv. 1. þm. S.-M., að þau stangast við ákvæði þessa frv. Hvernig á svo, ef þetta frv. yrði að lögum, að greiða fram úr málinu, þar, sem þetta rekst á? Hefir oft verið bent á þetta á undanförnum þingum. Er það undarlegt, að þeir, sem frv. styðja, skuli ekki hafa tekið þessar bendingar til athugunar. Er það alveg rétt hjá hv. 1. þm. S.-M., að ekki er vansalaust fyrir Alþingi að afgreiða lög, sem skýrt og ótvírætt koma í bága við gildandi lög. Auk þess hefir verið bent á það, að þessi forkaupsréttarákvæði eru þarflaus, því að ef hreppsfélög eða bæjarfélög þurfa að fá fasteignir innan umdæmis síns, lóðir eða slíkt, ha geta þau í skjóli laga um eignarnámsheimild fengið því framgengt. Eru ekki dæmi þess, að Alþingi hafi neitað um slíkar heimildir, ef réttmætar hafa reynzt. Þar, sem svo er hinsvegar ástatt, að meiri hl. hreppsnefndar og bæjarstjórnar er skipaður mönnum, sem hafa þá skoðun, að fasteignir eigi að komast úr höndum einstaklinganna í hendur hins opinbera, þar er löggjöfin búin að opna leið til þess fyrir það opinbera að sölsa undir sig slíkar eignir, án tillits til þess, hvort nokkur nauðsyn liggi til eða ekki. þarf það ekki að byggjast á öðru en þeirri persónulegu skoðun þessara manna, að þeir séu að vinna þarft verk með því að koma þessum eignum úr höndum einstaklinganna yfir á hið opinbera. En frá sjónarmiði þeirra manna, sem styðja núv. þjóðskipulag, verð ég að benda á þá hættu, sem því er samfara að veita sveitar- og bæjarfélögum slíka heimild sem þessa. Með því að gera færa þá leið, sem oft er farin í slíkum tilfellum, að fá lögfesta eignarnámsheimild, hefir verið bætt úr þörfinni. Er það byggt á þessu, að Alþingi hefir undanfarið ekki viljað fallast á ákvæði þessa frv. Vona ég, að hv. þm. líti sömu augum á þetta og áður og að forlög frv. verði söm og á síðasta þingi.