14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

27. mál, forkaupréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það til af ræðu hv. þm. Barð., að meiri uppgjöf af hans hálfu við að hnekkja þeim andmælum, sem komið hafa hér fram gegn þessu frv., gat ekki komið fram en er hann fer að vitna til utanþingsmanns um þetta mál. (BJ: Er ekki heimildin góð?). Hv. þm. hefði alveg eins getað setið kyrr eins og að fara að vitna til Jóhannesar Jóhannessonar í þessu máli, og rangfæra vitanlega það, sem hann hefir lagt til þessara mála. (JJós: Hann man svo vel eftir honum). Já, það stafar sjálfsagt af því. Hv. þm. var að tala um, að umr. um þetta mál væru óþarflega langar. En eins og sýnt hefir verið fram á, er þetta frv. stórkostlega varhugavert, og því er ekki furða, þótt þeir, sem koma auga á hættuna, geri sitt til að opna augu hinna. Það er ekki aðeins eðlilegt, heldur hrein og bein skylda.