05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1933

Guðmundur Ólafsson:

ég á hér eina brtt. og verð því sem aðrir að segja fáein orð. Ég býst við, að umr. hér þyki ekki neitt skemmtilegar, ef miðað er við tölu áheyrenda, og mun það þó varla batna, er ég tek til máls.

Annars er það nú ekkert skemmtiverk að mæla fyrir sömu till. ár eftir ár. Það er vitanlega nokkuð skemmtilegra að koma fram með eitthvað nýtt, sem enginn kannast við og enginn hefir neitt talað um áður. En þó er sú bót í máli, að þegar um gamalkunnugt mál er að ræða, þá getur maður vitnað í sjálfan sig frá fyrri þingum og stytt mál sitt á þann hátt.

Þessi till. mín er þá um það, að fiskiræktarfél. Blöndu verði veittur 1/3 rekstrarkostnaðar, allt að 500 kr. — hér er um félag að ræða, sem nær yfir nokkuð marga bæi. Hefir talsvert verið lagt í kostnað við klak og flutning á laxaseiðum. Hafa þau verið keypt á Suðurlandi og flutt norður þangað. Hefir þetta haft allmikinn kostnað í för með sér, og því hefir verið beðið um þennan styrk. Félag þetta hefir nú starfað í 3 ár og verið veittur styrkur tvisvar, í fjárl. nú og síðasta árs, 700 kr. og 500 kr., eða samtals 1200 kr. á tveimur árum. Ég hefi sagt það áður, og það er enn mín skoðun, að sanngjarnt sé, að þessi styrkur sé veittur, meðan enginn er arður af fyrirtæki þessu. Þeir, er til þekkja, búast við, að von sé um arð síðar. Þeir fullyrða, að fjöldinn af þeim sílum, sem flutt hafa verið, hafi komizt lifandi í ána, og ætti þá að vera von um, að þar fáist fullvaxnir laxar síðar. Í þeirri trú er haldið áfram ár eftir ár að flytja klak í ána. — Það er nú ekki um auðugan garð að gresja, ef leitað er í fjárl. um framlög til míns kjördæmis. Hefir þess líka verið getið í blaðagreinum, að ég væri ónýtur til þeirra hluta. Það sér líka á því ekkert framlag er nú í fjárl. til míns kjördæmis, nema 700 kr. til þessa fiskiræktarfél. og svo til Blönduósskólans. Annars finnst víst hæstv. fjmrh. kreppa að — og það finnst víst flestum, nema hv. 2. landsk. — því hæstv. ráðh. hefir nú lækkað styrkinn til kvennaskólans á Blönduósi um 1/8. En ég er nú talsvert þolinmóður og hefi því ekki gert till. um, að þessi upphæð verði færð upp, svo sem áður var. Ég mun því bíða átekta um það, hvernig hækkunartill. um kvennaskólann hér reiðir af. En verði sú till. samþ., þá mun ég við 3. umr. gera till. um, að Blönduósskólinn verði hækkaður líka. — Þetta var nú innskot, þótt nokkuð væri á annan hátt en hjá hv. 2. þm. S.-M, enda er það fjarri mér að biðja forláts á því.

En svo að ég víki þá aftur að till., þá vil ég segja, að þó ríkissjóður kunni að vera illa staddur, þá finnst mér það þó illa viðeigandi að svipta þetta félag styrk nú, meðan ekki er annað en kostnað að hafa af þessum tilraunum. Hinsvegar er þessi starfsemi spor í þá átt að bæta efnahag þeirra, er hlut eiga að máli, þegar stundir líða. Er og betra og skemmtilegra að veita nokkurn styrk til slíkra fyrirtækja heldur en lán eða ábyrgð á lánum, eins og við þekkjum að oft hafa verið veitt og það stundum stórar upphæðir, en sem svo hafa verið gefnar eftir að tveim eða þrem árum liðnum.

Mér gæti nú dottið það í hug, þar sem ég þykist þekkja sparnaðarhug hv. þdm., að þeir einmitt létu sér nú detta það í hug að taka fyrir þennan styrk, enda hefi ég ekki verið eins heppinn og maðurinn með loðdýrin og hérana, að fjvn. tæki upp þennan styrk. Ég vona þó, að hv. fjvn. verði ekki á móti þessu. — Hv. frsm. fjvn. sagði, að n. vildi ekki neita því, að loðdýrin gætu komið hér að nokkru liði. Ég er því viss um, að hún er þá ekki heldur á móti því, að lameiði geti orðið til hagnaðar. Ég hefi ekki lagt það í vana minn að minnast á brtt. annara. Ég veit þó ekki, hvað ég hefði gert nú, ef hv. 2. landsk. hefði verið hér viðstaddur. En fyrst svo er ekki, þá sleppi ég því. Ég komst þó ekki hjá því að minnast á till. til hækkunar á framlagi til kvennaskólans hér og láta vita, að ef sú till. verður samþ., þá mun ég einnig bera fram slíka till. vegna Blönduóssskólans. — ég hlakka svo til að heyra hv. frsm. fjvn. mæla með till. minni f. h. fjvn.