08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

274. mál, viðurkenning dóma og fullnægja þeirra

Frsm. (Einar Arnórsson):

Allshn. flytur þetta frv. eftir beiðni hæstv. forsrh. Fjallar frv. um það, að stj. verði heimilað að láta ganga í gildi samninga, sem gerðir hafa verið af Íslands hálfu við hin önnur Norðurlönd og undirskrifaðir voru af umboðsmönnum landanna í Kaupmannahöfn 16. marz síðastl. Efni samninganna er það, að aðfararheimild í hverju landanna um sig gildi einnig í hinum löndunum, en til þessa hefir þetta verið svo, að þurft hefir að fara í mál og fá ísl. dóm til staðfestingar á t. d. dönskum dómi, ef dóminum hefir ekki verið fullnægt góðfúslega. Hvíla samningarnir á því, að réttlátir dómar séu yfirleitt felldir í hverju landanna um sig, sem ekki komi í bága við réttarskipunina í hinum löndunum. Hefir þetta nokkra þýðingu t. d. fyrir menn hér, að geta þannig fengið framkvæmdan íslenzkan dóm í hinum Norðurlöndunum. En til þess að þetta geti komizt í kring, þarf að gera ýmsar ráðstafanir; t. d. hefir ísl. fógeti ekki vald til að fullnægja erlendum dómi, og fer frv. fram á það, að stj. sé heimilað að gera allar slíkar ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess, að samningarnir geti komið til framkvæmda. Samningarnir eru gerðir af færum mönnum, og því ekki að óttast, að þeir séu illa gerðir, og taldi n. því sjálfsagt að verða við þessari beiðni hæstv. forsrh. og væntir þess, að d. samþ. frv.