05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. samgmn. (Halldór Steinsson):

Samgmn. þessarar d. á hér litla brtt. á þskj. 612, þar sem farið er fram á, að styrkur til flóabátaferða verði hækkaður úr 76600 kr. upp í 78 þús. kr. Nd. gerði talsverðar breyt. á styrknum til flóabátaferða, aðeins 3 bátar halda sama styrknum, Djúpbáturinn, Flateyjarbáturinn og Skaftfellingur. Styrki til allra annara bata lækkaði Nd. meira og minna. Þó var tiltölulega mest lækkaður styrkur til Hornafjarðarbátsins og Stykkishólmsbátsins. Hornafjarðarbáturinn hefir nú í fjárl. um 2500 kr. styrk, en hann hefir verið lækkaður niður í 400 kr. Stykkishólmsbáturinn hefir 3 þús. kr., en hann var lækkaður í Nd. niður í 2 þús. kr. Samgmn. þessarar d. þótti hér of langt farið í að lækka þessa styrki með tilliti til lækkana á öðrum styrkveitingum báta og leggur því til, að þessi styrkur hækki um 1400 kr., 800 kr. til Hornafjarðarbátsins og 600 kr. til Stykkishólmsbátsins. Það er talsvert stórt svæði, sem Stykkishólmsbáturinn fer yfir. Undanfarin ár hefir hann haft 30 áætlunarferðir, og virðist því ekki til of mikils mælst, þó hann fái 2600 kr.

Um Hornafjarðarbátinn er það að segja, að þó hann fari yfir minna svæði, þá eru það afskekktar sveitir, sem hann fer til, og það liggur í hlutarins eðli, að þessar 400 kr. segja lítið til þess að halda þessum ferðum uppi. N. væntir því, að tekið verði vel í þessar brtt.

Fyrst ég er staðinn upp, vil ég minnast á eina brtt. frá hv. 2. landsk., þessa stærstu brtt., sem liggur fyrir þessari hv. d., til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, 500 þús. kr. Ég skal taka það fram, að mér þykir leitt að geta ekki verið með þessari brtt., því ég finn, að það er mjög brýn þörf á slíkum atvinnubótum á þessum tímum, en hinsvegar þykir mér það ekkert þýða að samþ. slíka till. vitandi vits, að ómögulegt er að koma henni í framkvæmd. Hv. þm. benti ekki á nokkra leið til tekjuöflunar móts við þennan útgjaldalið fyrir ríkissjóð, sem nemur 1/2 millj. kr. Og hitt er líka vitanlegt, að þegar ætti að fara að biðja um 500 þús. kr. úr bjargráðasjóði, mundi einnig verða tregða á því. Það hafa á þessum árum legið fyrir beiðnir frá mörgum kaupstöðum um styrk úr bjargráðasjóði, en ekki nema 2–3 kauptún hafa orðið þessa styrks aðnjótandi. Þar sem ekki liggur nein till. fyrir til tekjuöflunar finnst mér ekki koma til mála að samþ. þessa till., þó ég á annað borð sé henni hlynntur.