02.05.1932
Efri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

434. mál, prófessorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Frsm. (Pétur Magnússon):

Eins og nál. á þskj. 577 ber með sér, hefir allshn. orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.

Ég hefi í raun og veru engu við það að bæta, sem stendur í grg. frv., og það, sem hæstv. dómsmrh. sagði við 1. umr. þessa máls. Ég vil aðeins benda á það, að þótt frv. verð samþ., þá hefir það ekki í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Sá maður, sem hingað til hefir gegnt þessu starfi og ætlazt er til, að fái það embætti, sem hér á að stofna, er nú ráðinn yfirlæknir í lyflækningadeild landsspítalans og hefir þar sömu launakjör og forstöðumenn annara deilda við þann spítala. Svo sem kunnugt er, eru þau laun miklum mun hærri en kennaralaun við háskólann. Kennslunni hefir hann lengst af gegnt fyrir lítil laun, samhliða héraðslæknisembættinu í Rvík. En nú verður hann að láta af því embætti vegna starfa sinna sem spítalalæknir. Staða hans við spítalann er alveg hliðstæð starfi yfirlæknisins við skurðlækningadeildina, en hann gegnir, svo sem kunnugt er, jafnframt prófessorsembætti við háskólann. Virðist því í alla staði eðlilegt, að sama sé látið yfir báða ganga, enda verða heildarútgjöld ríkisins alveg hin sömu, þótt kennaralaunin hækki nokkuð frá því, sem áður var. Og enginn mun vefengja, að læknirinn, sem hér á hlut að máli, sé stöðu sinni á allan hátt vel vaxinn, og að það sé vinningur jafnt fyrir spítalann og háskólann að fá að njóta starfskrafta hans.

N. vill því eindregið mæla með, að frv. verði samþ.