05.05.1932
Efri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. (Einar Árnason):

Það var enginn furða, þó að ég misskildi hv. þm. A.-Húnv., eftir því sem honum fórust orð.

Að því er snertir laxaseiðin og styrkinn til þessa fiskiræktarfélags, þá er það tekið fram, að hann eigi að vera 1/3 rekstrarkostnaðar. Nú er mér ekki kunnugt um, hvað þessum rekstrarkostnaði liður. Hvort þessi upphæð, sem ríkissjóður hefir greitt undanfarið hafi nægt sem rekstrarkostnaðar, eða hvort allur kostnaðurinn hafi ekki numið meiru en tillag ríkissjóðs. Þetta vildi ég fá upplýst. Og ennfremur, hvort svo beri að skilja, að styrkurinn sé að fullu greiddur, þegar liðin eru 4–5 ár frá því að hann var fyrst greiddur. Jafnframt vil ég spyrja, hvenær hafi verið byrjað að greiða hann til þessa fiskræktarfélags. Nú er það alla ekki svo, að ég sé á móti þessum styrk, þvert á móti lýst ég við að hjálpa hv. þm. til þess að ná honum, ef á þarf að halda. En ég vil bara fá botn í það, hvenær greiðsla hans muni taka enda, því nú má búast við, að fiskiræktarfélögunum fjölgi, sem ríkissjóður þarf að styrkja. Er því ekki úr vegi, að settar séu reglur um það, hve lengi ríkið á að styrkja hvert félag. Annars held ég, að ég skilji hv. þm., og ég býst við, að hann skilji mig, a. m. k. nú orðið. Það er ekki svo mikið, sem okkur ber á milli. Ég ætla að hjálpa honum að koma till. í gegn, ef með þarf. Læt ég svo útrætt um þetta. Vænti aðeins, að hv. þm. svari spurningum þeim, sem ég hefi til hans beint.