09.03.1932
Efri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

45. mál, tannlækningar

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég fæ ekki sið, að till. hv. þm. Hafnf. sé nauðsynleg, þegar litið er til þess, að frv. gerir ráð fyrir, að þessi tannlækningaleyfi séu því aðeins veitt, að meðmæli landlæknis séu til þess, og virðist þetta eiga að vera næg trygging fyrir því, að slík leyfi verði ekki veitt, nema hlutaðeigandi menn hafi lokið námi á tryggan hátt. þessi till. hv. þm. Hafnf. getur því ekki skilizt á annan hátt en sem vantraust á landlækni, sem ekki sé trúandi til að fara með þetta vald réttilega, sem frv. leggur í hendur honum. Hvað fúskið snertir, sem þeir voru báðir að tala um, hv. þm. Snæf. og hv. þm. Hafnf., fæ ég ekki séð, að það sé fremur heimilað með frv. en þegar er samkv. gildandi lögum í þessu efni, og þessi maður á Ísafirði, sem hv. þm. Snæf. talaði um, að gerði meira að þessum verkum en honum væri heimilt, þar sem hann jafnframt tannsmiðunum fæst við að fylla tennur og draga út, er einmitt talandi vitni þess, að ekki er gott að koma í veg fyrir þetta, þrátt fyrir hin ströngustu lagaákvæði í þessum efnum, því að samkv. gildandi l. er þessum manni þetta óheimilt, en með frv. yrði ekki önnur breyt. á þessu frá gildandi 1. en að landlæknir veitti manninum leyfi til að gera gervitennur, ef hann þætti til þess hæfur.

Þá fæ ég ekki seð, að það muni rétt hjá hv. þm. Snæf., að engin bót yrði að eftirliti héraðslækna með starfi þessara tannsmiða, heldur þvert á móti, því að frv. gerir enda ráð fyrir, að þeir vinni starf sitt í samráði við héraðslæknana, þannig að skilja, að héraðslæknarnir taki tennurnar úr þeim, sem þess þurfa með, en hinir smíði í þá gervitennurnar. Það virðist því ekki vera ástæða til að bera kviðboga í þessum efnum, þó að frv. verði samþ. óbreytt, en hinsvegar kann rétt að vera að taka málið út af dagskrá að þessu sinni, svo að betra svigrúm gefist til að athuga þetta nánar. Það má vel vera, að tryggilegar megi frá þessu ganga, en landlæknir taldi þetta þó forsvaranlegt, eins og það er nú í frv., og enda einn af tannlæknum bæjarins, sem landlæknir bar málið undir.