14.03.1932
Efri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1426)

45. mál, tannlækningar

Frsm. (Jón Jónsson):

Allshn. tók til athugunar brtt. hv. þm. Hafnf. Virtist henni skipta litlu máli, hvort hún væri samþ. eða ekki, og hafa nm. óbundin atkv. um hana.

Ég vil benda á, að samkv. frv. eins og það liggur fyrir, er leyfi til tannsmiða bundið samþykki landlæknis, og getur hann því sett þau skilyrði, sem honum sýnist og hann telur þurfa. Finnist honum það, sem felst í brtt. hv. þm. Hafnf., nauðsynlegasta skilyrðið, getur hann sett það. Annars þykir mér ólíklegt, að það geti ekki í ýmsum tilfellum verið nægileg trygging fyrir kunnáttu, ef umsækjandi hefir t. d. námsvottorð frá viðurkenndum tannlækni erlendis. Ég skil ekki, að þeir, sem þessa grein læknislistarinnar stunda, séu svo sérstaklega óheiðvirðir, að ekki megi byggja á vottorðum þeirra eins og annara. Ég hygg, að öryggi manna gagnvart tannlæknum sé vel borgið með því ákvæði frv., að samþykki landlæknis þurfi til þess, að veita megi leyfi til á setja í menn gervitennur. Vænti ég því, að hv. d. geti samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Með brtt. er landlækni sýnt vantraust, sem ég sé ekki, að ástæða sé til.