25.02.1932
Neðri deild: 13. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1508 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

34. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég hefi samið þetta frv. fyrir tilmæli stj., þó að ekki beri að skoða það sem stjfrv. þó hygg ég, að stj. muni vera því fylgjandi í aðalatriðum.

Í frv. er um tvær aðalbreyt. að ræða frá því, sem er í gildandi lögum. Hin fyrri er sú, að ríkið kosti sjúkrahúsvist fátækra sjúklinga með kynsjúkdóma. Önnur aðalbreyt. er á þá leið, að ekki verði krafizt drengskaparvottorða um fjárhagsástæður þessara sjúklinga, heldur verði látin nægja umsögn viðkomandi héraðslækna eða þeirra sérfræðinga í Reykjavík, er annast um þessa sjúklinga fyrir ríkið.

Um nauðsyn þessa máls hefir áður verið rætt á Alþingi. Útbreiðsla kynsjúkdóma hefir mjög aukizt hér á landi, einkum á síðustu árum, eins og heilbrigðisskýrslur sýna. Árið 1910 leituðu læknis 125 sjúklingar með lekanda, sem er algengasta tegund kynsjúkdóma. Árið 1921 voru þeir 192, árið 1929 431, en það er síðasta árið, sem heilbrigðisskýrslur greina frá.

Í yfirliti því, sem ég hefi þegar tekið saman fyrir árið 1930, er tala þessara sjúklinga komin upp í 519. Um syfilissjúklinga hefir verið öðruvísi háttað. Árið 1929 vitjuðu 13 sjúklingar læknis með hann sjúkdóm, og það er h. u. b. sama tala og árið 1910. Hæst fór tala þessara sjúklinga árið 1927, og voru þeir þá 37. Leit þá út fyrir, að hér á landi mundi fremur draga úr þessum hinum alvarlegasta kynsjúkdómi, eins og í öðrum löndum, og mátti þá segja, að við hefðum þá sloppið vel. En því miður atti ekki svo vel að fara. Tala þessara sjúklinga fer mjög hækkandi árið 1930, og eftir það virðist ástandið ætla að versna enn meir, ef ráða má af því, sem fram hefir komið í blöðum nýskeð frá kynsjúkdómalæknunum hér í bænum. Eru nú meiri brögð að smitun innanlands en áður. Hingað til hafa flestir þessara sjúklinga nær eingöngu sýkzt erlendis, en nú rekur hvert innlenda tilfellið annað.

Ég fullyrði ekki, að tölurnar í heilbrigðisskýrslunum um sjúklinga, sem hafa lekanda, syni rétta mynd af útbreiðslu sjúkdómsins. Ég get búizt við því, að hinar hækkandi tölur stafi að nokkru leyti af nákvæmara framtali eftir að tveir sérfræðingar fóru að hafa nákvæmt eftirlit með þessum sjúklingum hér í Rvík. En þess er að gæta, að annarsstaðar á landinu hefir sjúklingum með lekanda einnig smám saman fjölgað, þó að gera megi ráð fyrir, að eftirlitið sé þar svipað og verið hefir. Má af því ráða, að þessir sjúkdómar séu í raun og veru stöðugt að aukast hér í landi.

Það er að vísu ekkert undarlegt, þó að svona hafi farið. Því að það er alviðurkennd erlend reynsla, að mjög náið samband er á milli kynsjúkdóma og drykkjuskapar, og ekki á það sízt við um drykkjuskap kvenna. Í kaupstöðum hefir mest borið á þessum sjúkdómum, enda hefir drykkjuskapurinn aukizt þar verulega hin síðari ár, og miklu meira en í sveitunum, og það er nær eingöngu í kaupstöðunum, að kvenfólkið drekkur og fer enn í vöxt. Kynsjúkdómarnir eru einn skugginn, sem fylgir.

Sjálfsagt má búast við nokkrum kostnaðarauka af þessu frv., ef það verður að lögum. Þó er það ekki ætlunin, að ríkið kosti öll sjúkrarúmin. Þau eru einnig ætluð þeim, sem sjálfir geta greitt sína læknishjálp, og þeir verða vafalaust allmargir, ef ráðvandlega er á haldið. Það er minni ástæða til að ætla, að þessi sjúkrastyrkur verði misnotaður en nokkur annar sjúkrastyrkur, vegna þess að yfirleitt vilja sjúklingarnir fara með þessa sjúkdóma sem leyndarmál. Um styrkinn verður því að jafnaði ekki sótt nema í brýnni þörf. Ennfremur má geta þess, að sjúklingar þessir eru flestir einhleypir menn, og í mörgum tilfellum þess vegna vorkunnarlaust að kosta þessa læknishjálp sína sjálfir. Ég get nefnt þessu til sönnunar, að á Ísafirði, sem er stórt læknishérað og hafnarbæ og kynsjúkdómar þar alltíðir, sótti enginn slíkur sjúklingur um opinberan styrk í þau 14 ár, sem ég var þar héraðslæknir. Hér í Rvík mun þó nokkru öðru máli að gegna, því að kostnaður ríkissjóðs af þessum sjúkdómum undanfarin ár er mér óskiljanlega þar. Má vera, að hér sé litið öðruvísi á þessi efni og hispursleysið meira en annarsstaðar á landinu.

Þó að framkvæmdir samkv. þessu frv. hafi í for með sér allveruleg útgjöld, sem þær vafalaust hafa, ber ekki að lita þetta sem ný útgjöld að öllu leyti. Ríkissjóður hefir áður orðið að greiða mikinn hluta af þeim kostnaði, er sveitar- og bæjarfélög hafa lagt fram í upphafi til sjúkrahúsvistar kynsjúkdómasjúklinga. Ég get ekki upplýst, hve miklu það nemur, en það hlýtur að vera talsvert.

Frv. um þetta efni hefir áður legið fyrir Alþingi í svipuðu formi og nú. Var það á síðasta þingi afgr. frá Ed. með rökst. dagskrá, meðmælum allshn. og ósk um, að stj. undirbyggi málið frekar. Samkv. till. nefndarinnar hefir verið leitað til bæjarstj. í Rvík um, að bærinn tæki þátt í þeim sjúkrakostnaði í Rvík, er af frv. leiddi, en svar við því hefir ekki komið. Hefi ég því hugsað mér þau eftirmál við kaupstaðina Rvík, Ísafjörð, Siglufjörð, Akureyri, Seyðisfjörð og Vestmannaeyjar, að heilbrigðisstj. semji við þá um að leggja til sjúkrarúmin fyrir kynsjúkdómasjúklinga á hverjum þessara staða, gegn hæfilegu verpi, enda fái þá sjúklingarnir þar vist gegn sanngjörnum greiðslum úr ríkissjóði. Náist ekki samningar, koma lögin ekki til framkvæmda, en ég geri ráð fyrir, að kaupstöðunum þyki þau eftirsóknarverðari en svo, að á þeim standi að bjóða fram hagkvæm kjör og aðgengileg fyrir ríkissjóð.

Mér hefir verið bent á óheppilegt orðalag í 2. gr. frv., þar sem sagt er: „semja skal“ o. s. frv. frá minni hendi þýðir það hið sama og þar stæði: Leita skal samninga. — ég vil þó benda væntanlegri hv. n., sem fjallar um frv., á þetta til athugunar, að hún lagfæri það, ef viðkunnanlegra kynni að þykja. Geri ég það svo að till. minni, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.