07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

210. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Haraldur Guðmundsson:

Ég tel frv. þetta, þó lítið sé, talsvert varhugavert. Samkv. því, sem lagt er til í þessu frv., eiga þessi gjöld að ganga fyrir öðrum kröfum, þ. á m. sjóveðrétti verkamanna í veiðiskipunum. Ég tel, að fyrir greiðslu þessara gjalda sé fullkomið öryggi í þeim sama lögtaksrétti og gildir fyrir önnur lög um gjöld, sem bæjarstjórnir þurfa að innheimta. Þó hér sé ekki um stórar upphæðir að ræða, þá geta afleiðingarnar orðið þær, að sjómenn sama sem greiði þessi gjöld af kaupi sínu. Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv. og vona, að aðrir geri það, sem eins líta á þetta mál og ég.

Það er óþarft að tala frekar um þetta mál, því að það má vera öllum ljóst, að ekki er rétt að rýra sjóveðréttinn með því að færa þessa kröfu að þarflausu fram fyrir rétt verkamanna til þess kaups, er þeir hafa unnið fyrir, og síðast þegar þetta frv. kom til atkv. hér á Alþ., var horfið frá að samþ. það, horfið frá að skerða sjórétt skipverja, sem þá var álitið, að ætti að ganga á undan þessum gjöldum. Trygging skipverjanna fyrir greiðslu sinni er fulllítil fyrir því, þó ekki sé farið að skerða hana á þennan hátt. Og trúað gæti ég því, að bankarnir, sem veð hafa í skipunum og lána til rekstrar, telji frv. næsta óheppilegt.