22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

218. mál, varðskip landsins

Sveinn Ólafsson:

Það vill svo til, að hv. frsm. þessa frv. er ekki hér viðstaddur, og verð ég því að hlaupa í skörð fyrir hann við þessa 1. umr. Eins og frv. og grg. þess ber með sér, er það borið fram eftir tilmælum dómsmrn. Ég þykist vita, að flestir ef ekki allir hv. þdm. hafi þegar kynnt sér það.

Sú breyt., sem með frv. er lagt til, að gerð verði á 3. gr. varðskipalaganna frá 1928, lýtur að því að gera ákvæði nefndrar gr. skýrari, án þess að raska að nokkru verulegu efni gr. Þó gert sé ennþá ráð fyrir því, að ráðningartími yfirmanna skipanna eftir frv. verði eftirleiðis 6 ár eins og er í 1. frá 1928, þá er það ákvæði ekki bundið eftir frv. eins og í lögunum. Það hefir sýnt sig af reynslunni, að það ákvæði, að gera 6 ára ráðningarsamninga, hefir komið sér illa, og getur það einnig í framtíðinni valdið óþægindum.

Önnur aðalbreyt., sem frv. gerir ráð fyrir, er heimild til þess að búa varðskip landsins björgunartækjum. Um það er enginn stafur í 1. frá 1928. Samt sem áður hafa skipin, og þá sérstaklega eitt þeirra, verið búin fullkomnum björgunartækjum og hefir það verið gert eftir öðrum heimildum, en nú þykir réttara og er eðlilegra, að fyrirmæli um þetta séu einmitt í varðskipalögunum.

Þriðja breyt. er í þá átt, að varðskipin þurfi ekki að hlíta sömu reglum um skiptingu björgunarlauna og gilda um önnur skip eftir sjólögum, heldur sé nálgazt þær reglur, er annarsstaðar gilda um regluleg björgunarskip. Það er ljóst, að þegar varðskipin eru búin fullkomnum björgunartækjum eins og t. d. Ægir, þá er það ekki eðlilegt, að þau hlíti sömu reglum um björgun og önnur skip, sem ekki hafa slík tæki, og hafa sig því í meiri hættu.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta frv. að þessu sinni. Vænti ég, að hv. frsm. verði viðstaddur þegar það verður tekið til 2. umr., og mun hann þá taka nánar fram, hvað fyrir honum vakir í þessu máli.