29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

218. mál, varðskip landsins

Magnús Guðmundsson:

Það er æðilangt liðið síðan fyrri hl. þessarar umr. fór fram, og ég mun hafa ætlað mér að bera fram nokkrar fyrirspurnir út af frv. til hæstv. dómsmrh. En auðvitað er hann hér ekki við nú frekar en vant er, og verð ég því að beina fyrirspurnum mínum til hv. sjútvn., sem að frv. stendur f. h. hæstv. dómsmrh.

Það er nú komið á daginn, sem bent var á á þinginu 1928, þegar breyt. á varðskipalögunum voru gerðar, að 3. gr. 1. er með öllu óskiljanleg, og hefði því verið eins gott að taka sönsum strax og lagfæra þetta þá, en slíkt fékkst ekki fram fyrir ofríki fylgismanna hæstv. dómsmrh. En nú hefir reynslan skorið úr um það, að ekki er gott um að framkvæma þessi ákvæði 1. og að óumflýanlegt er að breyta þeim, en mér virðist það vera að fara úr öskunni í eldinn að fara að samþ. þær breyt., sem þetta frv. fer fram á. Ég fæ ekki skilið, af hverju verið er að binda ráðningartímann við 6 ár, þegar jafnframt er gert ráð fyrir, að setja megi uppsagnarfrestsákvæði í ráðningarsamningana. Því ekki að fara að lögum heilbrigðrar skynsemi og hafa ráðninguna ótímabundna með uppsagnarfresti? Vil ég skjóta því til n., að hún lagi þetta svo, að það sé ekki meiðandi fyrir heilbrigða skynsemi.

Í 3. gr. frv. segir svo: „Ríkisstj. er heimilt að búa varðskipin björgunartækjum, eftir því sem ástæður þykja til, og verja til þess fé úr landhelgissjóði“. Í grg. frv. segir hinsvegar, að skipin hafi þegar verið búin björgunartækjum og öðrum bræði höfð við björgunarstarf. Vildi ég því beina því til n., hvort hér sé þá um eftirásamþykkt að ræða og þetta sé þegar búið og kostnaður af því greiddur úr landhelgissjóði, þó að engin heimild væri til. Þessi breyt. er annars ekkert smáræði, því að hér er verið að leggja á skipin nýtt starf, sem vel getur komið í bága við landhelgisgæzlustarfið. Vænti ég þess, að hv. frsm. geti gefið upplýsingar um þetta, og eins um það, hve kostnaðurinn við að búa skipin björgunartækjum hefir verið mikill, eða ef þetta er ekki búið, þá um það, hvað það muni kosta. Ég held, að ég megi segja, að það sé nú lítið orðið eftir í landhelgissjóði; það má heita, að hann sé tæmdur, og það mikilli upphæð af væntanlegum tekjum hans er ráðstafað í fjárlögum, að ekki eru líkur til, að sjóðurinn hafi miklar tekjur afgangs í þessu skyni.

4. gr. frv. fjallar um greiðslu björgunarlauna. Má vera, að rétt sé að setja sérstök ákvæði vegna greiðslu björgunarlaunanna. Ég skal ekki bera á móti því. En ég vildi hinsvegar benda á hringsnúning hæstv. dómsmrh. í þessu, því að á þinginu 1928 lýsti hann yfir andstyggð sinni á því, að ríkið tæki björgunarlaun fyrir varðskipin. Honum fórust m. a. svo orð um þetta þá (Alþt. 1928, B, bls. 305): „En hvað snertir hið síðara, þá á ég ekki nógu sterk orð til þess að lýsa andstyggð minni á þessu atferli hv. fyrrv. ráðh. — á þeim gyðingshætti, er hann þarna beitti“. — Ég var sá ráðh., sem hæstv. dómsmrh. þarna átti við, og hafði ákveðið að taka björgunarlaun fyrir togara, sem bjargað var fyrir Norðurlandi árið 1927. sé ég, að hæstv. dómsmrh. hefir nú rækilega fallið frá þessari skoðun sinni, því að hann vill nú binda það með lögum, að björgunarlaun séu tekin fyrir skipin, og enda gera þau öðrum þræði að björgunarskipum (til að hafa sem mest upp úr heim?), en á slíkum gyðingshætti hafði hæstv. ráðh. þvílíka andstyggð 1928, að hann gat ekki fengið sig til að hirða þetta fé, sem væri smánarblettur á ísl. þjóðinni, og gaf það í heimildarleysi til einhvers sjómannafélags í Grímsby eða Hull. Auðvitað er hæstv. ráðh. skyldur að endurgreiða þessa upphæð, þegar hann verður krafinn um hana, því að hann hafði náttúrlega enga heimild til að gefa fé ríkisins til annara landa.

Ég vildi aðeins benda á þessi atriði, úr því að ég stóð upp, og beini þeim þá sérstaklega til n., því að hæstv. dómsmrh. er hér ekki við nú frekar en endranær.