29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

218. mál, varðskip landsins

Jóhann Jósefsson:

Sjútvn. er eignaður flutningur þessa frv., og má þetta að vísu til sanns vegar færast, því að meiri hl. n. a. m. k. stendur að því. Ég verð þó að lýsa yfir því, að ég er ekki ánægður með öll ákvæði frv., sem er flutt að beiðni hæstv. dómsmrh., eins og í grg. segir.

Eins og hv. 2. þm. Skagf. tók fram, hefir það komið í ljós á síðari tímum, að þær breyt., sem gerðar voru á varðskipalögunum 1928, voru sízt til bóta og að ýmsir agnúar eru á um framkvæmd þeirra. Samkv. l. eins og þau voru afgreidd 1927 ætlaðist þingið til, að yfirstjórn varðskipanna væri sem mest í höndum dómsmrh. Voru ýmsir þm. þá óánægðir með þetta, einkum jafnaðarmenn, sem vildu láta siglingalögin taka meira til skipverja varðskipanna, en ég er þeirrar skoðunar, þar sem hér er um embættis- og sýslunarmenn ríkisins að ræða, að heppilegast sé að hafa þetta eins og það upphaflega var samkv. varðskipalögunum frá 1927. Fyrir sjútvn. liggur nú erindi frá Skipaútgerð ríkisins, þar sem farið er fram á, að akvæðum 3. gr. 1. verði breytt og að 2 af stýrimönnum varðskipanna verði reknir. Sjútvn. hefir haldið einn fund um þetta mál, og hún treysti sér ekki til að úrskurða það, hvort réttmætt væri að reka þessa tvo menn. Ég get ímyndað mér, að það geti orðið vafamál, hvort það sé rétt.

Það er eðlilegt, að hv. 2. þm. Skagf. hendi á þennan hringsnúning hjá stj. hvað snertir björgunarlaunin, því hann er ekki svo lítill. Frá því að Ohm var bargað af Óðni, og þar til Ægir aðstoðaði við björgun togarans Delicots, er orðinn mikill munur á, hvernig stjórnarvöldin hafa komið fram í þessu efni. Þegar Ohm var bjargað, þótti ósvinna hin mesta, að ríkið tæki nokkuð fyrir það að hjálpa skipum úr strandi, en nú er komið svo langt yfir í hitt hornið, að það er í uppsiglingu hálfgert ef ekki algert hneykslismál út af björgun Delicots, sem strandaði fyrir fáum dögum og Ægir og enska herskipið Godetia aðstoðuðu við á ná út. Og ég veit svo mikið, að það hefir verið látið í ljós af hálfu Englendinga, að þeim þyki vera gerðar of harðar kröfur, jafnvel svo stappi nærri ósvífni, af hálfu Ægis. Væri bezt, að stj. kæmi í veg fyrir meira hneyksli en orðið er í þessu efni. Ég get ekki séð, að það sé hægt að snúast betur en stj. hefir gert í þessu efni.

Þegar til umr. var till. um niðurfærslu á útgjöldum ríkisins hérna á dögunum, átti ég orðakast við hæstv. fjmrh. út af eyðslu ýmiskonar, t. d. hvernig farið hafi verið með björgunarlaunin. Frv., sem hér liggur fyrir og flutt er eftir ósk hæstv. dómsmrh., undirstrikar það, að þetta hafi allt gengið öðruvísi en stj. hafi ætlazt til, og í þeim plöggum, sem liggja fyrir viðvíkjandi brottrekstri þessara stýrimanna, sem ætlazt er til, að sjútvn. leggi blessun sína yfir, segir einn þessara manna, að ósambærilegt sé um kaup á varðskipum, nema fastakaupið. Hann segir, að á Ægi hafi hann fengið í aukaþóknun björgunarlaun, sem námu 1/4 af árslaunum, og skipstjórinn hafi borið meira úr býtum en skipstjórar beggja hinna varðskipanna til samans. Ég álít rétt að benda á þetta í sambandi við þetta mál, sem liggur hér fyrir, því þetta er helzta ástæðan fyrir því, að stj. kemur með frv. Hún er sjálf orðin skellkuð yfir því, hvernig framkvæmdirnar eru orðnar með björgunarlaunin og skiptingu þeirra.

Í Lesbók Morgunblaðsins skrifar einhver, sem hefir verið háseti á þessu varðskipi, grein um þetta starf. Hann minnist á eitt atriði, sem kannske er ekki þýðingarmikið í augum allra, en hefir fyrir því talsverða þýðingu, og það er það, hvernig skipverjar eru útbúnir til fata. Það var litið svo upp til þessa starfs af þinginu, þegar varðskipalögin voru sett 1927, að seð var fyrir því, að þeir gengju sómasamlega til fara og þeim lagðir til einkennisbúningar. nú segir þessi háseti, að slegið hafi verið slöku við þetta í seinni tíð og hásetar gangi í slitnum og mislitum fötum, enda hefi ég sjálfur seð það, að útbúnaður þeirra upp á síðkastið hefir verið allt annað en sómasamlegur. Yfirleitt hefir stj. tekizt að draga þessa starfsemi niður, gert hana lítilfjörlegri og að öllu óvirðulegri en í fyrstu og til var ætlazt.

Það er kunnugt, að Þór var í fyrra á fiskiríi og fiskaði nokkuð til að keppa við fisksala í bænum. Mér vitanlega hafa engir reikningar verið lagðir fram yfir þá framkvæmd, en það er víst óhætt að segja, að vafamál sé, hvort nokkur gróði hafi verið, og margir álíta, að þar hafi verið stórtap.

Ég geri ráð fyrir, að það þurfi margt að athuga í sambandi við rekstur varðskipanna eins og nú er komið. Skjölin, sem liggja fyrir sjútvn., tala sínu máli um það, hvernig samkomulagið er orðið, sérstaklega hvað Ægi snertir. Þar gengur allt á tréfótum, enda hafa tveir stýrimenn gengið í landi á fullum launum, og munu víst gera það enn, nema ef það er rétt, sem sjútvn. var flutt í morgun, að annar þessara stýrimanna hafi verið neyddur til að segja lausri stöðunni, með því að honum hafi verið sagt, að hann fengi ekki annað en hásetastöðu hér eftir. Brytinn á skipinu hefir einnig verið rekinn í land, og stendur til, að hann fari í mál við ríkissjóð út af sínu kaupi. Og um loftskeytamanninn veit ég, að hann hefir full laun og gengur þó í landi, hversu lengi sem ætlazt er til, að hann hafi þau. Það skal engan undra, þó að varðskipin verði kostnaðarsöm með þessu móti, þegar hópur af dýrum yfirmönnum gengur í landi á fullum launum. En það er vitanlega af því, að engar réttlátar orsakir eru fyrir því, að þeir hafa verið reknir í land. Því ef þessir menn eru í landi af einhverjum sökum, þá kæmi ekki til, að ríkissjóður þyrfti að launa þá.

Ég geri ráð fyrir, að það muni vera rétt að athuga frv. betur í n., því að ég held, að við höfum ekki allir verið viðstaddir í sjútvn., þegar það var sent til d.

Ég býst við, að það verði erfitt ákvæði til að framfylgja, að menn séu ráðnir til 6 ára, en svo geti ráðh. vikið þeim frá starfi. Ef brottvikningin á að byggjast á sömu forsendum og verið hefir, þá álít ég ekki vanþörf á að athuga frv. í n.

Ég geri því að till. minni, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til sjútvn. til frekari athugunar.