29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1532 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

218. mál, varðskip landsins

Magnús Guðmundsson:

Ég býst varla við, að hæstv. dómsmrh. verði viðstaddur 2. umr. þessa frv. frekar en vant er.

Um það, hvort ég endurtek þá það, sem ég sagði nú, geri ég alveg sem mér sýnist.

Ég var ekkert að hafa á móti því, að varðskipin væru útbúin björgunartækjum, en ég var að spyrja að því, hvort slík tæki væru ekki í þau komin, og hvað þau hefðu kostað. Og ef þau væru ekki komin í þau að öllu leyti, hvað kosta myndi það, sem við þyrfti að bæta. Ég veit, að landhelgissjóður er nú nærri tæmdur og að á honum hvílir sú kvöð, sem óvíst er þó, að hann geti orðið við, að leggja til ríkissjóðs 200 þús. kr., sem honum ber þangað að greiða á næsta ári. Það er alveg vafasamt, hvort þær verða til.

Viðvíkjandi brtt. við 3. gr. 1., um ráðningarskilyrðin, verð ég að segja það, að mér er alveg óskiljanlegt, hvers vegna ekki má ráða mennina á venjulegan hátt um óákveðinn tíma, en með ákveðnum uppsagnarfresti. Hvað á þessi sex ára ráðning að þýða, ef segja má þeim upp með svo og svo margra mán. uppsagnarfresti? Það er eins og hv. nm. hafi ekki getað slitið sig frá þessu ákvæði í l., sem þeir viðurkenna þó, að þeir skilji ekki, til hvers hafi verið sett, og finna enga heilbrigða hugsun í.

Annars er það niðurlagsákvæði 1. gr. frv., sem ég tel varhugaverðasta ákvæði frv. Þar er lagt í vald sjútvn. Alþ. að skera úr, hvort ráðh. hefir haft rétt til að víkja mönnum frá starfi. Ef þeir menn eru þar með teknir undan þeirri vernd, sem dómstólarnir veita mönnum yfirleitt, þá er það ákvæði óhafandi.

Ég vil vænta þess, að frv. þetta verði að lokinni umr. látið ganga til sjútvn. á ný til nánari athugunar, eða þá að sú hv. n. lýsi yfir því, að hún taki það til rækilegrar yfirvegunar.