04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1933

Héðinn Valdimarsson:

Hv. þm. G.-K. hefir nú talað allan þann tíma, sem ég átti að hafa til umráða í kvöld. Hann hafði aðeins leyfi til 1/2 klst. ræutíma, en hefir nú notað 3/4 klst. Ég kann ekki við, að það skuli ekki vera hægt að halda fast við þær reglur, sem settar eru um útvarp frá Alþingi. Annars vil ég ekki eyða fleiri orðum að þessu, en það er óþægilegt fyrir áheyrendur víðsvegar um land, að umr. séu dregnar fram á nótt.

Hv. þm. G.-K. talaði á við og dreif um afkomu atvinnuveganna, og auk þess vek hann í síðari hluta ræðu sinnar að útsvaraálagningunni hér í Reykjavík, og þó að hún heyri ekki undir Alþingi, þá er margt, sem kemur til greina í sambandi við atvinnuvegina, þar á meðal skattar og útsvör.

Það mun vera rétt hjá hv. þm., að síðan breyting varð á niðurjöfnunarnefndinni í Reykjavík, þannig að íhaldsmenn urðu þar í minni hl., mun útsvar hafa hækkað á h/f Kveldúlfi, en áður bar félagið tiltölulega mjög lítið útsvar. En þó það hafi 250 þús. kr. í árstekjur, getur það með réttu skattaframtali, vegna galla á tekjuskattslögunum, komizt að mestu leyti hjá því að greiða tekjuskatt. Það er því ekkert undarlegt, þó að bæjarfélagið reyni að ná í þennan gróða með útsvarsalagningu. Það er nattúrlega von, að hluthafa í Kveldúlfi sviði undan þeirri breyt., sem orðið hefir á útsvaraálagningu í bænum, en mér er óhætt að fullyrða, að láglaunafólk svíður ekki undan henni, og það telur ekki eftir hlutafélögunum að greiða sín gjöld.

Þá talaði hv. þm. G.-K. um kaupgjaldsmálin og gerði samanburð á kaupgjaldinu 1914 og 1931. Það er að vísu rétt, að kaupgjaldið er hærra nú en 1914. En í því sambandi er líka tvenns að gæta: vinnuhraðinn er miklu meiri nú, vinnuaðferðirnar fullkomnari og meiri kröfur gerðar til verkafólksins. Þess vegna er ekki réttlátt að bera tímakaupið saman við skippundatölu fiskjarins nú og áður.

Hitt atriðið er það, að eins og eðlilegt er og vænta mátti, þá er verkalýðurinn kröfuharðari um lífsþarfir nú en áður og reynir að bæta kjör sín; verklýðssamtökin eru sterkari nú en 1914, og það er þeim að þakka, að kaupið er hærra nú en þá.

Hv. þm. gat þess, að útgerðarmenn togaraflotans stæðu nú höllum fæti og að þeir hefðu ekki viljað gera út á þessari vertíð nema kaupið lækkaði, en þó hefðu þeir vægt fyrir þörfum verkafólksins, enda þótt þeir hefðu ekki þurft að bíða nema lítinn tíma eftir því, að verkafólkið lækkaði sínar kaupkröfur. Ég fullyrði, að verkalýðurinn hér í Reykjavík hefði ekki slakað á kaupkröfum sínum nú. Dagsbrún og önnur félög sjómanna og verkamanna mundu ekki hafa látið það á sig fá, þó að útgerðarmenn hefðu sagt átakanlegar sögur af því, hvernig togaraútgerðin bæri sig, og lýst gjaldþrotaumbrotum sínum. Þau hefðu aðeins sagt: Við eigum ekki þessi skip. Við viljum því ekki lækka kaupið eða færa kjörin niður á við. — Annað mál væri, ef verkalýðurinn ætti að taka við togurunum. Ég er sammála hv. þm. G.-K. um það, að ef núv. ástand heldur áfram, fer svo, að verkalýðurinn verður að taka við flotanum, og þá er hann kominn í þær hendur, sem hann á að vera í.

Ég vil geta þess sem dæmis um stuðning hinna stóru flokka við síldarútgerðina, að á síðastliðnu sumri tóku Sjálfstæði og Framsókn höndum saman um að fella till. okkar jafnaðarmanna um að lækka síldartollinn úr 1 kr. niður í 121/2 eyri.

Margt af því, sem hv. þm. G.-K. sagði um framtíðarhorfur landbúnaðarins, ef ekki væri að gert, og kjötflutning frá Suður-Ameríku, var réttilega athugað, og hann dró þá réttu ályktun, að við yrðum að taka upp nýtt skipulag á landbúnaðinum, ef hann ætti að vera samkeppnisfær. Ef hv. þm. vill ganga með mér og flokksmönnum mínum þær einu brautir, sem færar eru til bjargar í þessu máli samkv. jafnaðarstefnunni, skulum við fyrst fyrir alvöru taka höndum saman.

Hæstv. dómsmrh. hélt 20 mínútna ræðu um Copland og Sólbakka og taldi líkt á komið með þeim og ríkissjóði og þar sem okkur greinir ekki á um það atriði, get ég látið útrætt um það.

Hæstv. fjmrh. afsakaði sig með því, að hann væri nýr í sínum stoli, og gat ýmsra umbóta, sem hann hefði komið á síðan hann tók þar sæti. Sumt af því var rétt; t. d. er nú tekjuætlunin nær sanni en áður. Við jafnaðarmenn höfum sýnt, að ein af ástæðum til þess mikla fjár, sem stj. hefir fengið handa á milli fram yfir fjárlög undanfarið og sóað, er sú, að tekjuáætlanir hafa verið falskar ár eftir ár. Þetta hefir Sjálfstæðisflokkurinn lagt blessun sína yfir og þannig eflt stjórnina til fjársukks í óleyfi. Það er gott, að hæstv. fjmrh. hefir nú leiðrétt þetta, en það tekur ekki ábyrgðina af honum sem þingmanni, að hann skuli hafa stutt falskar tekjuáætlanir árum saman undanfarið.

Hæstv. ráðh. minntist nokkuð á tekjuaukafrv. stj. Við jafnaðarmenn höfum nú þegar lýst yfir því, hvernig við munum taka í þau. Við viljum ekki láta stj. hafa neitt nýtt fé til umráða, meðan engin trygging er fyrir því, að hún noti nokkurn eyri til atvinnubóta eða kreppuráðstafana í sveitunum, hvað þá annarsstaðar. Auk þess sjáum við ekki ástæðu til að festa þá stj. eða þann flokk í sessi, sem vill sitja með ranglæti yfir sjálfsögðum hlut andstæðinganna.

Hæstv. fjmrh. sagði, að ekki væri frekar astæða til að furða sig á, þó kreppa væri hér en í útlöndum. Viðurkenndi hann, að ástandið gæti verið skipulaginu að kenna, en taldi, að manneðlið væri ekki nógu gott. Ég held nú fram, að manneðlið séu nógu gott og viturt til að Láta skipulagið, enda er ekki um annað hér að ræða, en að fullnægja á sem heppilegastan hátt eigingirni allra. Þótt það standi e. t. v. ekki í okkar valdi að hækka fiskverðið á Spáni, er okkur innan handar að spara ýmislegt og skipuleggja innanlands. Ég er þess fullviss, að innan fárra ára taka Sjálfstæði og Framsókn ýms umbótamál okkar upp á stefnuskra sína, ef þeir flokkar verða þá til.

Hæstv. fjmrh. minntist á gjaldeyris-og innflutningshöft og kvað lítið vera um þau deilt. Menn eru þó ekki sammála um þessar ráðstafanir, enda gera þær vöruna dýrari. Miðað er eingöngu við innflutning undanfarinna ára, í stað þess að fara eftir því, á hvaða hatt er hagkvæmast að flytja vörur inn. Framsókn hefir sýnt, að hún er hrædd við að koma skipulagi á utanríkisverzlunina, en það var rétt úrræði.

Alþýðuflokkurinn hefir aldrei haldið því fram, að hann ætti ríkið. Hann á hvorki stjórnina né löggjafarvaldið og ber enga ábyrgð á fjárlögum né sköttum meðan hann ræður engu um slíkt. Það þýðir því ekki að vera að skírskota til ábyrgðartilfinningar okkar um stjórn ríkisins, meðan við höfum ekki fullan rétt í landinu.

Þeir sjálfstæðismenn, sem hér hafa talað, hafa talað mjög um fjárhag landsins og deilt á fjármálastjórnina. Ég vil nú benda á 4 atriði, þar sem þeir eru samsekir Framsóknarstj.: 1) Þeir gáfu Framsókn verðtollinn. 2) Þeir hafa verið með í því í fjvn. og á þingi að samþykkja falskar tekjuáætlanir. 3) Þeir hafa lagzt á móti frv. okkar jafnaðarmanna um jöfnunarsjóð, sem átti að stemma stigu fyrir því, að öllum tekjum ríkissjóðs væri eytt í góðærum. 4) Sjálfstæðisfl. hefir samþ. fjárlögin öll árin, en við ekki tvo síðustu árin.

Þetta eru allt ærnar sakir, en hið versta er þó, að flokkurinn hefir útvegað Framsókn milljónir til eyðslu með fölskum tekjuáætlunum.

Ég hefi lítið gert að því að tala um, hvernig Framsókn hafi eytt utan fjárlaga, enda býst ég við, að annar þm. úr mínum flokki geri því efni skil. En þótt við getum haft fulla gagnrýni á fjarmálastjórn Framsóknar, dettur mér ekki í hug að ætla, að landið væri betur statt, þótt íhaldið hefði setið hér vð stjórn. Tekjuskatturinn væri e. t. v. heldur lægri, en sú lækkun kæmi eingöngu heim til góða, er mestar hafa tekjurnar, og yrði að eyðslufé. Ég hygg, að hvorugur flokkurinn geti láð öðrum. Því skal ekki neitað, að Framsókn hefir látið framkvæma hitt og þetta, en hún hefir minna um það hugsað, að framkvæmdirnar kæmu sem flestum að notum.

Þá kem ég að hæstv. forsrh., sem ég geymi þangað til síðast eins og bezta bitann. Hann sleppti því að tala um stefnuskrá Framsóknar, enda er ekki að því hlaupið. Framsóknarflokkurinn átti einu sinni stefnskrá og hafði tekið upp á hana nokkur af stefnumálum jafnaðarmanna. Hann var velkominn að því, því að við tökum engan einkarétt á umbótamálum okkar. En brátt kom í ljós, að flokkurinn felldi sig betur við ýms stefnuskráratriði íhaldsmanna. Í fyrra var haldið flokksþing Framsóknar og komu þá fram ýmsir róttækir menn, sem vildu endurreisa Framsókn í nýrri og betri mynd, og stjórnin og frambjóðendurnir lofuðu að verða aftur góðu börnin. En eftir kosningarnar varð minna um efndir. Ég vil því ráðleggja kjósendum Framsóknar, sem margir hverjir eru róttækir, að halla sér fremur að Alþýðuflokknum, sem stendur fast með stefnumálum sínum.

Hæstv. forsrh. rauk hér upp eins og hann væri að hringja kirkjuklukkum út af eldsvoða. Hver var það, sem kveikti í? Það gerði hæstv. forsrh. sjálfur með þingrofinu. Mér þótti vænt um að heyra, hvílíkt álit hann hafði á valdi mínu sem formanns verkamannaráðsins, og vonast eftir, að hann taki tillit til þess eftirleiðis. Hann talaði um samsæri okkar jafnaðarmanna við Sjálfstæðisflokkinn og að nú hefði allt sannazt, sem hann hefði talað um það úti um landið. Þetta samkomulag hefir aldrei verið launungarmál; það er ekki annað ne meira en sest á þingtíðindunum á atkvgr. um stjórnarskrármálið og Sogsvirkjunina. Þetta er samkomulag um einstök mál, staðfest með atkvgr., og ekkert er algengara á þingi en slíkt komi fyrir milli flokka.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði kennt æsingum Framsóknar úti um land um tap jafnaðarmanna. Fyrst og fremst viðurkenni ég ekki, að flokkurinn hafi beðið ósigur, þar sem hann fékk heldur fleiri atkv. en síðast. Í öðru lagi mun flokkurinn ekki hafa fengið öll atkv. þeirra, sem annars fylgja honum. Og í þriðja lagi mun klofningsflokkur kommúnista hafa dregið allmörg atkv. frá, þótt fylgi þess flokksbrots hafi farið þverrandi síðan.

Þá talaði hann um æsingablöð. Það er kunnngt, að Tímanum var breytt í dagblað fyrir kosningarnar og var aðstandendum sínum til lítils sóma. Önnur blöð komu út með sama sniði og áður. Tímanum tókst með góðum árangri að að tala til lægstu tilfinninga manna í sveitunum. Hann taldi mönnum trú um, að bæirnir væru sveitunum svo fjandsamlegir, að íbúar þeirra mættu ekki fá full mannréttindi, og þá einkum jafnaðarmenn, þótt þeir hafi verið allra flokka vinsamlegastir í garð sveitanna. En þrátt fyrir þann Pyrrhusarsigur sinn, að þeir náðu meiri hl. þm. með rúmum 1/3 kjósenda, tókst þeim ekki að ná fullu valdi í þinginu, af því að ofurlítill neisti af réttlæti var í kosningafyrirkomulaginu, þar sem landskjörið var. Því stendur hæstv. forsrh. nú ekki með pálmann í höndunum, eins og hann hefði annars gert.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, hvílíkur voði væri fyrir dyrum, ef jafnaðarmenn greiddu atkv. gegn fjárl. og tekjuaukafrv. Talaði hann í því sambandi um verkföll, byltingu í Ed. og stjórnarskrár nágrannaríkjanna. Þessi sögufróði maður ætti þó að vita það, að allar stjórnarskrárnar eiga rót sína að rekja til byltingarinnar í Frakklandi og ameriska frelsisstriðsins.

Hæstv. ráðh. taldi það verkfall, ef við greiddum ekki atkv. eins og stj. vildi. Ég veit nú ekki, hvað hæstv. forsrh. gengi langt, ef hann gæti. Sennilega myndi hann fyrirskipa, eins og gert er í Ítalíu, að mikill meiri hl. þings skyldi jafnan skipaður stjórnarflokknum. En við berum enga ábyrgð á skipulagi, sem við ráðum engu um, og erum andstæðingar, en ekki fylgismenn stjórnarinnar.

Hæstv. ráðh. minntist á Blönduós og sagði, að við hefðum viljað stöðva Brúarfoss og stofna þannig miklu af vörum í skemmdir. Svo liggur í því máli, að á Blönduósi eru skoðanabræður og vinir hæstv. ráðh. að kúga verkamenn til kauplækkunar, eins og stjórnin hefir gert við hina lægst Iaunuðu starfsmenn sína. Í þessu kúgunarskyni neitar kaupfélagsstjórnin verkamönnum ekki aðeins um vinnu, heldur viðskipti, og þannig á að svelta þá til hlýðni. Ef þetta er ekki kúgun, veit ég ekki hvað kúgun er, og gengur fram af selstöðuverzlununum útlendu. Þó er hér um almenna skipaafgreiðslu að ræða, og annað ekki. Sjómenn segjast ekki vinna með verkfallsbrjótum, og munu halda áfram að segja það, jafnvel þó sett yrðu lög um, að framsóknarbændur skuli vinna að vöru sinni alla leið og jafnvel sigla með hana til útlanda. En þótt hann hefði verið sett á Brúarfoss í útlöndum, þurftu vörurnar ekki að skemmast fyrir það, því að í fyrsta lagi voru frystivélar í skipinu, og í öðru lagi var hægurinn hjá að ganga að þessum sanngjörnu kröfum. Ég hefi nefnt þetta til að sýna hug Framsóknar til sjávarþorpanna, sem þeir leggja svo mikla áherzlu á að veiða til fylgis við sig.

Hæstv. ráðh. var með hótanir um það, að ef fjárlög yrðu felld nú, yrði minna að gera í ár. Ég veit ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn hjálpaði Framsóknarflokknum um fjárlögin í fyllra fyrir árið 1932, og því ætti ekki þess vegna að vanta peninga í sumar. Ég vísa því þessu til föðurhúsanna sem blekkingum einum.

Ræða hæstv. ráðh. var haldin til æsinga gegn okkur jafnaðarmönnum, til að blekkja þjóðina til fylgis við famenna klíku, sem situr yfir hlut annara.

Ég vil að endingu, áður en ég lýk máli mínum, þakka öllum áheyrendum mínum, fyrst flokksbræðrum og svo andstæðingum unt land allt, og býð þeim góða nótt.