18.04.1932
Efri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

351. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. Einar Árnason):

Eftir að þetta frv. var tekið til meðferðar í d. hafa allshn. borizt umsóknir um ríkisborgararétt frá 4 mönnum. N. hefir athugað þau skjöl, sem umsóknunum fylgja, og að því loknu hefir hún komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt myndi að flytja brtt. við frv. það, sem fyrir liggur, þar sem þessum mönnum, sem taldir eru upp á þskj. 427, yrði veittur ríkisborgararéttur.Ég vil því mæla með því fyrir hönd n., að sti brtt. yrði samþ. Hinsvegar sé ég, að hér er komin brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. um að veita Rasmus Reinhold Andersson, klæðskera í Reykjavík, ríkisborgararétt. N. hafa ekki borizt nein skjöl þessum manni viðvíkjandi, og getur hún því ekki fyrir sitt leyti mælt með þeirri till. En hinsvegar er ekkert um það sagt af n. hálfu, hvort þessi maður muni e. t. v. uppfylla hin venjulegu skilyrði fyrir veiting ríkisborgararéttar eða ekki.