18.04.1932
Efri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1542 í B-deild Alþingistíðinda. (1526)

351. mál, ríkisborgararéttur

Jakob Möller (óyfirl.]:

Brtt. mín fer fram á, að Rasmus Reinhold Andersson, klæðskera í Reykjavík, verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur.

Það er leitt, að hann skuli hafa orðið svo seinn fyrir með umsókn sína til þingsins, að ekki hefir unnizt tími til að gera hana fullnægjandi úr garði. En annars held ég, að d. væri nú óhætt að samþ. þetta, jafnvel þótt umsókninni væri enn meira ábótavant en nú er hvað formið snertir. Þessi maður er alþekktur af borgurum Reykjavíkur. Hefir dvalið hér um 43 ára skeið, eða frá því hann fluttist hingað árið 1889, að einu ári undanteknu, sem hann dvaldi í Kaupmannahöfn. Hana er kvæntur íslenzkri konu og á uppkomin börn. Tel ég vafalítið að flestir hv. dm. muni þekkja mjög vel til þessa manns. En upplýsingar þær, sem krafizt er á hinum fyrirskipuðu eyðublöðum, vannst ekki tími til að ná í sökum sunnudagshelginnar, svo sem það, að fá vottorð bæði frá borgarstjóra og lögreglustjóra. Skírnarvottorðið hefir hann ekki, en vitanlega hefir hann orðið að leggja það fram er hann kvæntist. Ekki hefir hann heldur vottorð frá „áreiðanlegum mönnum“ um það, að upplýsingarnar séu réttar, og því síður vottorð frá áreiðanlegum mönnum um, að þeir menn séu áreiðanlegir. En ég held, að nægilegt sé, að „áreiðanlegir“ menn hér í hv. d. votti, að þessar upplýsingar séu réttar. En ég legg það á vald d. og hæstv. forseta, hvort taka skuli málið út af dagskrá að sinni, svo að hægt verði að ganga fullnægjandi frá þessum skjölum, eða þá að afgr. málið til Nd. í því trausti, að öllum þessum formsatriðum verði fullnægt áður en málið verður afgr. frá þinginu.