06.05.1932
Neðri deild: 68. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

490. mál, Jöfnunarsjóður

Haraldur Guðmundsson:

Við jafnaðarmenn höfum á nokkrum undanförnum þingum, og einnig á þessu, flutt frv. til 1. um jöfnunarsjóð ríkisins. Efni þess frv. er það, að þegar tekjur ríkissjóðs fara fram úr meðaltali nokkurra undanfarinna ára, þá skuli viss hundraðshluti af þeim umframtekjum lagður í sérstakan sjóð, sem síðar yrði svo varið til þess að halda uppi verklegum framkvæmdum, þegar svo stendur á, að atvinnufyrirtæki einstaklinganna draga saman seglin. Framlagið í þennan sjóð atti að vera tiltölulega lagt í fyrstu, en fara stighækkandi, eftir því sem ríkistekjurnar færu lengra fram úr meðallagi. Þessu frv. hefir yfirleitt verið heldur vel tekið í orði kveðnu á Alþingi. Allir, sem um málið hafa rætt hér á þingi, hafa látið sem þeir væru þessari hugmynd hlynntir. En á síðasta þingi gerðist það, að þessu frv. okkar var umsteypt svo gersamlega, að ekkert var eftir af hinni upphaflegu hugmynd nema nafnið eitt. Nú er frv. vakið upp af hv. fjhn. Ed. í því nýja formi. Það er eftirtektarvert, hvað það er innilegt samkomulag milli framsóknar- og sjálfstæðismanna í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum. Fulltrúar þeirra í fjhn. virðast fullkomlega sammála um að koma frv. í það horf, sem n. nú ber það fram í. Eftir till. n. á þessi sjóður að myndast af því fé, sem verður umfram „lögbundin og óhjákvæmileg útgjöld“ ríkissjóðs, eftir því sem segir í 1. gr. frv. Nú fæ ég ekki séð, eftir þessu orðalagi greinarinnar, að þessi jöfnunarsjóður fengi nokkurntíma nokkurt fé til umráða. Ef miðað væri við lögbundin gjöld einungis, væri nokkuð öðru máli að gegna. Hver á að dæma um, hvað eru óhjákvæmileg útgjöld annar en sú ríkisstj., sem með völdin fer á hverjum tíma? Og það segir sig sjálft, að ríkisstj. greiðir ekki önnur gjöld heldur en þau, sem hún af einhverjum ástæðum telur óhjákvæmilegt að greiða. Af þessu leiðir, að þessi sjóður mundi aldrei fá neitt fé.

Annað er athugavert við þetta frv., og það er, að eftir orðalagi 1. gr. er beinlínis gert ráð fyrir, að ríkisstj. greiði árs árlega svo og svo mikið fé umfram lögboðin gjöld, hin svokölluðu óhjákvæmilegu útgjöld, er frv. nefnir. Með þessu gengur þingið óbeinlínis inn á þá braut, að afsala sér svo eða svo miklu af fjárveitingavaldinu í hendur ríkisstj. Ætti þó reynsla undanfarinna ára, hin mikla eyðsla umfram það, sem fjárlög gerðu ráð fyrir, að hafa kennt þm., að ekki er ástæða til þess að gefa hæstv. ríkisstj. sérstaklega undir fótinn í þessu efni.

Ef það skyldi nú samt sem áður eitthvað koma í þennan sjóð, sem ég hefi enga trú á, þá á ekki að nota það til atvinnujöfnunar nema að mjög litlu leyti. Eftir frv. virðist það verkefni sjóðsins aukaatriði, en fyrst og fremst á að verja því fé, sem í hann kann að safnast, til þess að greiða tekjuhalla á ríkisbúskapnum, þegar hann verður. Ennfremur er að vísu gert ráð fyrir, að þegar áætlaðar tekjur ríkissjóðs nægja ekki til þess að halda uppi ólögbundnum verklegum framkvæmdum, megi með fjárlagaákvæði ákveða að greiða úr jöfnunarsjóði það, sem á vantar. En þar sem í þriðja lagi á að greiða úr jöfnunarsjóði aukaafborganir af skuldum ríkissjóðs, ef fé er þar fyrir hendi til þess, verður sjáanlega aldrei neitt til til atvinnujöfnunar.

Hér er því um allt annað að ræða heldur en til var ætlazt í frv. okkar jafnaðarmanna um jöfnunarsjóð ríkisins. Þar átti verkefni sjóðsins einungis að vera það, að jafna verklegar framkvæmdir í landinu frá ári til árs, á þann hátt, að tryggt væri, að um það munaði. Það atti ekki einungis að láta vinna fyrir fé sjóðsins, heldur átti að verja því til þess að styrkja bæjar- og sveitarfélög til framkvæmda, gegn tvöföldu framlagi frá þeim. Ef maður gerist ráð fyrir, að helmingi af því fé, sem sjóðurinn hefði getað lagt fram, hefði verið varið þannig til styrktar atvinnubötum sveitar- og bæjarfélaga, en hinum helmingnum til ríkisframkvæmda, þá skapaði það helmingi meiri atvinnu heldur en ef því væri öllu varið til ríkisframkvæmda. Nú þarf ekki að eyða orðum að því, hvað mikil þörf er á ráðstöfunum í þá átt, sem frv. okkar jafnaðarmanna um jöfnunarsjóð gerir ráð fyrir. Tímar þeir, sem nú standa yfir, sýna svo greinilega nauðsyn slíkrar lagasetningar, að það virðist óhugsandi, að þeir hv. þm., sem á annað borð vilja nokkuð til þess gera að tryggja atvinnu í landinu, geti brugðizt við þessu máli á þann hátt, sem ætlazt er til með frv. fjhn.

Ríkissjóður hefir verið stærsti atvinnurekandinn hér á landi á undanfarandi árum. Það hefir enginn einn atvinnurekandi — og jafnvel ekki margir til samans — veitt eins mörgu fólki atvinnu eins og ríkið og stofnanir þess. En einmitt á þessum tímum, þegar harðnar í ári, svo að einstaklingarnir draga saman seglin, og þegar þess vegna mest ríður á, að ríkið haldi uppi atvinnu, þá eykur ríkisstj. á vandræðin með því að segja upp 3 af hverjum 4 eða 4 af hverjum 5 verkamönnum, sem unnið hafa í þarfir ríkisins.

Frv. okkar Alþýðuflokksmanna var flutt til þess að fyrirbyggja, að slíkt geti komið fyrir og til þess að tryggja það, að fé sé fyrir hendi til atvinnujöfnunar þegar harðnar í ári. Frv. n. miðar aftur á móti fyrst og fremst að því að reyna að safna nokkrum sjóði, til þess að mæta tekjuhalla og til þess að auka afborganir af skuldum ríkisins. En svo er um búið, að lítil líkindi eru til þess, að nokkurntíma komi nokkurt fé í þann sjóð.

Annars er það ekkert nýtt, sem hv. n. kemur fram með í sínu frv. Ég man ekki betur en viðlagasjóður ætti að hafa nokkuð svipað hlutverk og jöfnunarsjóðurinn á að hafa eftir frv. n. En þegar Búnaðarbankinn var stofnaður, notaði Framsóknarflokkurinn aðstöðu sína til þess að taka það fé, sem safnað hafði verið í viðlagasjóð á mörgum árum, til þess að jafna með því reikningshalla ríkissjóðs, ef á þyrfti að halda, og orðið var nokkuð á aðra millj. kr., af ríkissjóði og afhenda það Búnaðarbankanum sem gjöf. Og með þeirri skipun þingsins, að mikill minni. hl. kjósenda á mikinn meiri hl. þingsæta, er ekkert sennilegra en að þó byrjað væri aftur á að safna einhverjum slíkum sjóði, þá yrði hann aftur tekinn frá því, sem hann væri áætlaður til, og lagður til einhvers annars, sem ríkisstj. og hennar flokki kæmi vel að fá. Við jafnaðarmenn munum því greiða atkv. á móti frv. hv. fjhn.

En áður en ég lýk máli mínu, vil ég benda á það, að frv. um jöfnunarsjóð, sem við jafnaðarmenn höfum flutt hér þing eftir þing, hefir náð mikilli hylli úti um allt land. Því það er almennt farið að líta svo á, að það hvíli meiri skylda á ríkinu til þess að verja fé til atvinnujöfnunar heldur en á nokkurri annari stofnun eða einstaklingi í landinu. Þess vegna hefir samningsgerð íhaldsmanna og framsóknarmanna orðið þannig, að þeir halda nafninu, sem við höfum haft á sjóðnum, og ætla að reyna undir því yfirskyni að blekkja kjósendur, láta þá halda, að hér sé í raun og veru um jöfnunarsjóð til jöfnunar atvinnu að ræða.

Einhver orðheppinn maður hefir sagt, að þennan sjóð, sem hv. fjhn. leggur til að sé stofnaður, mætti kalla sáttmálasjóð; með honum er gerður sáttmáli milli Íhalds og Framsóknar, líkt og með frv. um að fella niður ýms lögbundin gjöld til þjóðþrifa- og menningarmála. þessir flokkar vinna að því í bezta bræðralagi að fella niður það, sem tekizt hefir að koma inn í fjárlögin undanfarin ár af framlögum til félagsmála og menningarmála, flytja frv. um að fella niður framlag til Menningarsjóðs, fella niður framlag til verkamannabústaða, framlag til hýsingar á prestssetrum o. s. frv. Yfirleitt vega þeir í þann sama knerunn að fella niður framlog til þeirra hluta, sem helzt bera vott um framfarir og menningu hjá hverri þjóð. Og í sömu átt má segja, að breytingar hv. nefndar á frv. okkar Alþýðuflm. gangi.