10.05.1932
Neðri deild: 71. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1561 í B-deild Alþingistíðinda. (1586)

490. mál, Jöfnunarsjóður

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að mér þykir vænt um að heyra, að hæstv. fjmrh. gengur inn á brtt. mína á þskj. 673, því að ég hygg, að það vaki hið sama fyrir okkur báðum í þessu máli, sem sé það tvennt, að tryggja það, að ríkissjóður hafi fé til rekstrar á hverjum tíma, og svo hitt, að það fé, sem ekki þarf til rekstrarins, verði lagt til hliðar. Þá hlýtur auðvitað að vaka fyrir öllum, sem um þetta mál hugsa, að ekki verði tekið frá ríkissjóði það fé, sem hann þarf að hafa í rekstri sínum, og meiningarlaust væri að taka lán, ef hann ætti samtímis fé, sem hann gæti haft til rekstrar. En frv. þetta var búið til í fyrra og var svo flutt óbreytt á þessu þingi, og hygg ég, að það sé ástæðan til þess, að ekki hefir verið athugað, að síðan hefir breytzt um það fé, sem ríkissjóður hefir handbært, því að það var miklu meira í árslok 1929 en í árslok 1931. Þetta hefir láðst að taka tillit til, þegar frv. var borið fram nú, og því var brtt. hæstv. ráðh. á þskj. 663 algerlega réttmæt í hugsun sinni. En mér finnst fara betur á því, sem hann hefir nú gengið inn á, að miðað sé við sjóðsyfirlit við áramót, en ekki við hvað er í sjóði og bönkum við áramót, því að alltaf er hægt að sjá um, að féð sé ekki beinlínis í sjóði, þótt það sé það reikningslega, og það er það, sem undir er komið, hve mikið er reikningslega í sjóði, því að mismunurinn á því, sem er reikningslega í sjóði, og því, sem er raunverulega í sjóði, er það fé, sem er í rekstri á hverjum tíma. Ég verð því að segja, að ég þykist finna, að lítill munur sé á milli skoðana minna og hæstv. fjmrh. í þessu efni.