10.05.1932
Neðri deild: 71. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

490. mál, Jöfnunarsjóður

Hannes Jónsson:

Brtt. á þskj. 663, frá hæstv. fjmrh., og brtt. við þær frá hv. 2. þm. Skagf. uppfylla það, sem ég hafði við þetta frv. að athuga hér í d. um daginn, og brtt. mín á þskj. 652 er því orðin óþörf, þar sem nú er, með þessum brtt. frá hæstv. fjmrh., ef samþ. verða, loku fyrir það skotið, að hægt sé að ganga í þann sjóð, sem nauðsynlegur er frá ári til árs til þess að standast greiðslur á milli ára. Ég get því lýst yfir því, að ég tek brtt. mína á þskj. 652 aftur. Annars skal ég geta þess, að þessar brtt., sem nú liggja fyrir, eru og hafa alltaf verið nauðsynlegar. Þær voru jafnnauðsynlegar í fyrra eins og þær eru nú, því að frv. sjálfu er svo háttað, að eftir því er hægt að ganga á þann sjóð, sem nauðsynlegur er til að fljóta frá ári til árs. Það var því nauðsynlegt að fyrirbyggja það þegar í stað, að gengið yrði á þann sjóð ríkisins, sem það hafði í sínum höndum, en svo stæði meira eða tilsvarandi í jöfnunarsjóði, sem ríkisstj. hefði ekki rétt til að hreyfa til bráðabirgðagreiðslna á milli ára.

Þessar brtt. eru sem sagt til bóta fyrir frv. Það, sem ég hefði e. t. v. út á þær að setja, er, að það er ákveðin upphæð, sem hér er um að ræða, en það er auðvitað breytilegt eftir staðháttum og rekstri ríkisins. Eftir því sem hann verður umsvifameiri, því meiri þörf verður fyrir bráðabirgðaveltufé milli ára, en auðvitað má, þegar það fer að rekast verulega á, bæta úr því með breyt. á lögum þessum. En fyrst mætti að sjálfsögðu komast af með því að bæta við þetta bráðabirgðalán, sem áreiðanlega verður ekki nema eitthvað litið nú fyrst um sinn, eftir að búið er að hækka upphæðina úr 3 í 4 millj. kr.