23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

1. mál, fjárlög 1933

Guðrún Lárusdóttir:

Áður en ég mæli fyrir brtt. mínum á þskj. 788, langar mig til að víkja örfáum orðum að brtt. hv. 2. og 4. landsk. um styrk til ráðningarskrifstofu kvenna í Rvík. Það var gerð glögg grein fyrir starfi þessarar skrifstofu af hv. 2. landsk.; vil ég þó bæta nokkrum orðum við um það, hvernig þessari starfsemi er hagað í einstökum atriðum.

Slík starfsemi sem þetta er algeng í öðrum löndum og er þeim mun meiri og viðtækari sem landið eða borgin er stærri, og þykir hún yfirleitt orðin ómissandi.

Þó að þetta land sé ekki mannmargt, þá er það svo, að margar húsmæður eiga erfitt með að fá stúlkur til nauðsynlegustu heimilisþarfa. Um gagnsemi skrifstofu þeirrar, sem hér er um að ræða, er mér þegar töluvert kunnugt, bæði í gegnum starf mitt sem fátækrafulltrúi o. fl. Starf hennar er alltaf að aukast, og hefir aukizt töluvert síðan umsóknin um styrkinn var rituð. Annars er það einn liður í starfsemi skrifstofunnar, sem ég tel mjög þýðingarmikinn, en það er, hve oft henni hefir tekizt að útvega einstæðingsmæðrum, sem fyrir börnum hafa áttað sjá, víst uppi í sveit. Það vita ekki nema þeir, sem kunnugir eru, hve bágborin kjör þessir einstæðingar eiga við að búa hér. Þær verða margar hverjar að vinna fyrir sér og barni sínu, með það á handleggnum. Þegar barnið kemst á legg, verður það oft að hafast við á götunni nær umhirðulaust, því að móðirin hefir ekki tíma til þess að sinna því. Á þessu er ráðin mikil bót með því að útvega stúlkunum góða staði í sveit. Þær fá þá venjulega betra tækifæri til þess að hlynna að börnum sínum, og börnin betri skilyrði til þess að þroskast heldur en í götusollinum hér. Að þessu leyti vinnur stofnun þessi því m. a. mikið gagn. Er því illa farið, ef hún þarf að leggjast niður, en vel má vera, að svo fari, ef ekki verður hlaupið undir bagga með henni um fjárframlag, því að hún er nú, eins og tekið hefir verið fram, í mikilli fjárþröng.

Það kann nú að vera, að sumir hv. þdm. líti á starfsemi þessa sem aðeins sniðna fyrir Rvíkurbæ. En svo er alls ekki. Hér er um að ræða starfsemi, sem kemur víðar að gagni en hér í bæ eingöngu, enda hafa komið til skrifstofunnar umsóknir úr öllum attum, austan úr Vopnafirði, Skaftafellssýslum og jafnvel norðan af Siglunesi og víðar að. Ég vænti því þess, að hv. d. líti með velvildaraugum á umsókn þessa félags, sem hefir með höndum þá starfsemi, sem talin er nauðsynleg og óumflýjanleg í öllum öðrum löndum, enda er atvinnuspursmálið brennipunkturinn í tímanlegri tilveru mannanna.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að mínum eigin till., en þær eru hvorki margar né margbrotnar að þessu sinni.

Fyrsta brtt. mín á þskj. 788,lll. fjallar um það, að Guðbjarti Sigurjónssyni verði veittar 1500 kr. til dvalar á fávitahæli. Þessi vesalings piltur, sem hér er um að ræða; er 14 ára gamall, en hann varð fyrir þeirri óhamingju að veikjast af heilabólgu, þegar hann var á öðru eða þriðja ári, og hefir hann ekki verið með heilum sönsum síðan. Foreldrar þessa vesalings pilts hafa skrifað Alþingi bréf, sem má skoða eins og neyðaróp frá þessum aðþrengdu hjónum, þar sem þau fara fram á nokkurn styrk til þess að geta komið þessum dreng sínum fyrir á fávitahæli, en þau hafa von um það, að ef hann fær þá umönnun, sem ástand hans krefst, muni ef til vill takast að kenna honum t. d. að tala, en eins og er vantar mikið á, að hann kunni það til fulls.

Því miður verðum við að viðurkenna það, að við höfum ekkert upp á að bjóða þeim hl. þjóðarinnar, sem fæðist til þeirra þungu örlaga að eiga ekki það vopnið, sem bezt er og nauðsynlegast í lífsbaráttunni, en það er skynsemin. Við eigum enn ekkert hæli handa þessum aumingjum, og sú tilraun, sem hér kom fram til að leysa þetta vandamál á þinginu í vetur, var að engu gerð með þeirri afgreiðslu, sem það mál endanlega fékk hér. Það mætti því vera bending til Alþingis, að styrkbeiðni þessara aðþrengdu foreldra kemur fram einmitt nú. Hafa þau víða leitað fyrir sér með að koma þessum vesalings pilti sínum fyrir, en allar þær tilraunir þeirra hafa verið árangurslausar. M a. hafa þau reynt að koma honum fyrir á Kleppi, en Kleppur er ekki fávitahæli, eins og við vitum, og hefir pilturinn ekki heldur getað fengið inni þar. Hinsvegar hafa þessi hjón ekki fjárhagslega getu til að kosta þennan dreng sinn á fávitahæli erlendis af eigin rammleik, og fara þau nú fram á, að Alþingi veiti þeim 500 kr. styrk í þessu skyni. Þau hafa hugsað sér að koma drengnum fyrir á fávitahæli í Danmörku, og að vísu er framlagið með þeim aumingjum, sem á slíkum hælum dveljast, allmiklu meira en þessari upphæð nemur, en foreldrar drengsins hafa von um að geta lagt það af mörkum sjálf. Allt veltur því á því, hvort Alþingi sér ástæðu til að sinna þessari beiðni eða ekki, og þar sem 1500 kr. eru ekki stór upphæð í öllum búsreikningi þjóðarinnar, verð ég að mega vona það, að Alþingi láti ekki þessi aðþrengdu hjón synjandi frá sér fara, og því þarf ekki að lýsa, hvílík byrði slíkir aumingjar eru á fátækum heimilum, þar sem öll störf þvíla á hinni þreyttu og ofþjökuðu húsmóður einni.

Næsta brtt. mín á þessu sama þskj., VIII, fjallar um það, að styrkurinn til kvenfél. „Óskar“ á Ísafirði verði hækkaður úr 4500 kr. upp í 6000 kr., eins og hann er í gildandi fjárl. Þetta kvenfélag hefir undanfarið haldið uppi húsmæðrafræðslu á Ísafirði, og vænti ég, að hv. þdm. sé það ljóst, hversu nauðsynlegt það er, að ísl. húsmæðrum gefist kostur á að mennta sig og búa sig sem allra bezt undir sitt þýðingarmikla og vandasama hlutverk í lífinu. Það er og á allra vitorði, að sá skóli, sem kvenfélagið „ósk“ hefir haldið uppi, hefir á sér hið bezta orð og þykir hin mesta fyrirmynd í hvívetna, en nú er skólinn í fjárþröng vegna yfirstandandi árferðis, og leyfi ég mér því að vænta þess, að hv. þdm. hafi svo mikinn skilning á mikilvægi húsmæðrafræðslunnar fyrir þjóðina, að þeir greiði þessari till. minni atkv., sem fer fram á að hækka styrkinn til kvenfélagsins um 1500 kr., eða færa hann í sama horf og hann undanfarið hefir verið.

Þá á ég enn 3 brtt. á þessu sama þskj., og fer að mörgu leyti vel á því, að ég taki þær hér saman. Fer sú fyrsta þeirra í sömu átt og ein af till. fjvn. við 2. umr. fjárl., en n. þá tók aftur, sem sé að lækka skáldastyrkinn til Halldórs K. Laxness ofan í 1000 kr. Ég skýrði hér frá skoðun minni á þessum rithöf. við 2. umr. og skal ekki endurtaka það nú, en vil aðeins segja það, að ég lít svo á að þessi rithöf. sé vel sæmdar af því að fá 1000 kr. á ári fyrir það, sem hann skrifar, ekki sízt þegar litið er til þess, að menningarsjóður hefir nú tekið að sér að gefa út bækur hans, og ég verð að bæta því við, að sú bók, sem menningarsjóður gaf út í fyrra eftir þennan rithöf., var honum sízt til soma. Eins og ég tók fram við 2. umr. út af því, að fjvn. hafði þá lagt til, að styrkurinn til Þórbergs Þórðarsonar yrði felldur niður með öllu — og tók n. að vísu þá till. aftur eins og hina — vil ég leggja þessa tvo rithöf. að jöfnu, því að þeir sverja sig greinilega í ættina hvor til annars með rithætti sínum og því tillagi, sem þeir hafa lagt til ísl. bókmennta. ég hér því fram till. um það, að skáldastyrkurinn til Þórbergs Þórðarsonar verði einnig lækkaður ofan í 1000 kr. Ég tel rétt, að þessir tveir rithöf. beri jafnt frá borði, úr því að fulltrúum þjóðarinnar á annað borið sýnist rétt að styrkja ha áfram, því að þjóðin hefir að vísu aldrei verið spurð um álit sitt í því efni — Loks geri ég það svo að till. minni, að styrkurinn til Guðmundar Kambans verði líka lækkaður ofan í 1000 kr. Sú var tíðin, að margir gerðu sér glæstar vonir um, að Guðmundur Kamban mundi leggja gott til málanna í skáldskap sínum, en ég held, að flestum hafi brugðizt þær vonir nú upp á síðkastið. Þykist ég vita, að hv. þdm. viti, hvað ég á við, og ég veit það, að fleirum en mér hefir sárnað það, að sjá Ragnheiði Brynjólfsdóttur dregna fram úr gröf sinni og svívirta frammi fyrir alþjóð manna. Slíkri meðferð á þessari mætu konu, sem til þessa hefir verið óskabarni þjóðar, get ég fyrir mitt leyti ekki svarað með öðru en því að leggja til, að skáldastyrkurinn til Guðmundar Kambans verði lækkaður úr 2000 kr., eins og hann er nú, ofan í 1000 krónur.

Læt ég svo útrætt um þessar brtt. mínar að sinni.